Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.10.1998, Blaðsíða 19

Bjarmi - 01.10.1998, Blaðsíða 19
Dr. Sigurbjörn Einarsson svarar spurningunni: Á hvaða hátt er Jesus „sérstaklega" nálægur í altarissakramentinu? Svar: Jesús sagði sjálfur ekkert um þetta. Ekki heldur þeir, sem skráðu það sem hann mælti og gerði „nóttina sem hann var svikinn" (Matt. 26, 26-28, 1. Kor. 11, 23-25). Þá sagði Jesús blátt áfram: Gjörið þetta áfram svona eins og núna, takið úr hendi minni brauð og vín, neytið þess, þetta er líkami minn, fyrir yður gefinn, þetta er blóð mitt, úthellt til fyrirgefningar synda, þetta er ég, sem dey heiminum til lífs, gjörið þetta í mína minningu. Þetta var hinsta ósk Jesú. Henni fylgdi engin skýring. En hann fól í henni vitnisburð um sjálfan sig, ótvíræð- an, stórkostlegan. Hann hafði með mörgu móti vitnað um sjálfan sig. Og ævinlega sem tilboð, aldrei sem staðhæfingu án persónulegrar skírskotunar, aldrei með neinni útleggingu, aðeins sem vitnisburð um leyndar- dóm sinn, og þann vitnisburð verða menn að taka gild- an, trúa honum, þá lýkst það upp, hver hann er, „á hvaða hátt" hann stendur við orð sin. Á skírdagskvöld var Jesús að kveðja, hann var á förum, myrkasta nótt og skelfilegasti dagur sögunnar að koma. Hann sagði margt minnisstætt að skilnaði. Það er helst varðveitt hjá Jóhannesi, sem hallaðist að brjósti hans við borðið (menn lágu til borðs). En hann talaði ekki aðeins með orðum. Hann tjáði með athöfn það, sem er meira en orð ná utan um. Gyðingar voru að halda páska. Páskamáltíð þeirra var minning um frelsun þjóðarinnar á dögum Móse, mestu tímamótin í sögu hennar, og upprifjun á náðarsáttmála Guðs. Og nú segir Jesús: Héðan í frá er ég minningin, tímamótin, nýr sáttmáli, alger frelsun, ný framtíð. Dauði minn þýðir það, að Guð sigrar endanlega, ríki hans rís upp af nóttinni og allt verður nýtt (sbr. Matt. 26, 29). Gjörið þetta í mína minningu. Það þýðir: Minnist þessa við borðið mitt, munið hver ég er og verð og hvað ég hef gjört, minnist þess þannig, að þér þiggið það, gerið það að persónulegri eign. Altarisganga kristins manns er svar við þessu boði. Hið heilaga borðhald varð lífskjarni kristinnar tilbeiðslu frá fyrstu tíð. Menn vissu, að hinn upprisni sjálfur bauð til borðs og var sjálfur viðstadd- ur, hann, sem er hin eilifa næring og svölun. Menn skildu með nýjum hætti, hvers vegna hann hafði svo oft talað um veislugleði, þegar hann var að segja frá lífinu, sem hann kallar til og hann vill gefa. Menn sáu í nýju ljósi orð hans, þegar hann sagðist vera brauð lífsins, hinn sanni vínvið- ur, sú lind, sem opnast hið innra og streymir fram til eilífs lífs (sjá Jóh. 6 og 15, svo og 4,15 og 7,38). „Á hvaða hátt?" Því svarar enginn með neinni formúlu. Hann svarar þér sjálfur, þegar hann fær að verða þér það, sem hann er: Vegur- inn, sannleikurinn og lífið. Jesús sagði dæmisögu um hið mikla heimboð Guðs og aðra um þá veislu, sem slegið var upp, þegar glataður sonur kom heim. Þær myndir svara miklu um það, sem hér var spurt um. Þær sýna þann kærleik, þann opna föðurfaðm, sem snýr að syndugum manni og gat ekki komið náðarvilja sínum fram nema með því að verða hold á jörð og fórna sér á krossi. Þetta er sú „minning", sá veruleiki, sem lifir meðan minni er til á jörð, og altarissakramentið á að vitna um og vekja til lifandi vitundar um. „Jesús er mér í minni, mig á hans vald ég gef'. Þessi játning er gild í öllum sporum, ekki síst þegar gengið er til altaris. Eitt máttu vita um borð Drottins: Þar er hann, Jesús. Og segir: Komið, neytið, takið á móti mér - á mínum forsendum, ég er með þitt flekkaða hold og blóð í mér, þannig dó ég fyrir þig. Og þú mátt eiga mitt hreina, guðdómlega hold og blóð í þér, þannig er ég upprisinn fyrir þig, lifi og ríki að eilífu. Þessu orði svarar þú með þakkargjörð (eitt upprunalegasta og almennasta heiti borðhaldsins við altari Krists er einmitt „þakkargjörð"), þú svarar með tilbeiðslu „í samfélagi heilagra á himni og jörðu", „með englunum og öllum himneskum hirð- sveitum", og biður, að orð sannleikans, orð kærleikans, Jesús Kristur, verði hold á jörð í þér. X

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.