Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.03.1999, Blaðsíða 29

Bjarmi - 01.03.1999, Blaðsíða 29
Okkar aðstæður eru að því leyti til aðrar að kristnin á sér langa sögu í landinu og hefur mótað þjóðfélag okkar um aldir og kirkjan er rótgróin. Samt virðist þróunin í þjóðfélaginu okkar vera í áttina til þess sem var raunveruleikinn í Korintu á dögum Páls. Vaxandi trúar- bragðablanda er staðreynd og siðferðis- leg upplausn blasir víða við. Þetta þrengir sér jafnframt inn í samfélag trú- aðra. Við getum því ekki skýlt okkur á bak við slæmt ástand í Korintu eða hrósað okkur af því hve gott það er hjá okkur. Við ættum frekar að horfa í eigin barm en að bera okkur saman við Kor- intumenn eða einhverja aðra sem við teljum hagstætt að bera okkur saman við. Áminningar Páls í Korintubréfinu eru ekki bara gamlar og úreltar eða ætl- aðar einhverjum öðrum, þær eiga við enn þann dag í dag og grundvöllurinn sem Páll vísar til er sá sami Hreingerningar Hvatning Páls í textanum sem hér er til hugleiðingar mótast af árstímanum sem bréfið er skrifað á. „Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið. Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig“ (5:6-7). Páll hefur í huga páskahátíð gyðinga og hátíð hinna ósýrðu brauða sem kom í beinu fram- haldi af henni. Ósýrð brauð, sem ísra- elsmenn kölluðu massot, táknuðu nýja byrjun. Grundvöllurinn eða forsendan er frelsunin í Egyptaland (2. Mós. 12). Páskafórnin og blóðið á dyrastöfunum gerði það að verkum að engill dauðans gekk framhjá húsum ísraelsmanna þeg- ar tíunda plágan gekk yfir Egyptaland. I framhaldi af því leiddi Guð þjóðina úr ánauðinni þar að Sínaífjalli þar sem sáttmálinn var gerður. Til minningar um þessa frelsun héldu ísraelsmenn páskahátíð og gyðingar halda þá hátíð enn þann dag í dag. í framhaldi af páskadegi er sjö daga hátíð, hátíð hinna ósýrðu brauða. Þá daga máttu ísraelsmenn ekki borða sýrt brauð og súrdeig mátti ekki finnast í húsum þeirra. Trúræknir gyðingar gæta þess enn þann dag í dag. Þeir hreinsa burt allt sýrt deig eða brauð úr húsum sínum og neyta í staðinn ósýrðra brauða. Þeir nota jafnvel sérstök eldhús- og mat- aráhöld á páskum og hátíð ósýrðra brauða. Þetta er ekki hugsað sem vor- hreingerning heldur sem tákn um trúar- lega hreinsun. Hinu gamla, ósýrða brauði er fleygt og byrjað upp á nýtt með nýjum og ósýrðum brauðum. Forsendan er frelsunin undan dauðanum og ánauðinni í Egyptalandi. Afleiðingin er nýtt líf frjálsrar þjóðar í samfélagi við Guð sinn og þjónustu við hann. Á pásk- um verður sú frelsun raunveruleg í huga Gyðinga kynslóð eftir kynslóð og á grundvelli hennar er byrjað upp á nýtt allt fram til þess dags er Messías kemur. Páll byggir hvatningu sína á þessu. Páskarnir eru ofarlega í huga hans, páskar með nýju innihaldi: „Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur'1 (5:7). Hreinsunin þarf enn að eiga sér stað. Forsendurnar eru hins vegar nýjar, grundvöllurinn er annar. Gyðingar fórnfærðu páskalambinu ár eftir ár á meðan musterið stóð í Jer- úsalem. Enn minna þeir sig á þá fórn í páskamáltíðinni. Okkar páskalambi hefur hins vegar verið slátrað í eitt skipti fyrir öll. Jesús Kristur gaf líf sitt til að frelsa okkur undan ánauð syndar- innar og dauðans. „Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins" (Jóh. 1:29), sagði Jóhannes skírari þegar hann benti fylg- ismönnum sínum á Jesú. Pétur postuli talar einnig um hið sama í fyrra bréfi sínu: „Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists" (1. Pét. 1:18-19). Þetta er grundvöllurinn sem við byggj- um á: „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur" (1. Kor. 3:11). Þetta er forsenda hreinsunarinnar: „Blóð Jesú, sonar hans (Guðs), hreinsar oss af allri synd“ (1. Jóh. 1:7). Þetta er líka forsenda nýrrar byrjunar og nýrrar breytni: „Hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verk- um, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur bar fram sjálfan sig sem lýta- lausa fórn fyrir Guði“ (Hebr. 9:14). Þess vegna snýst hvatning Páls postula um hreinsun og um nýja byrjun og breytni á grundvelli þess sem Jesús gerði: „Höld- um því hátið, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans" (1. Kor. 5:8). Rétt eins og Gyðingar útrýmdu sýrðu brauði úr hús- um sínum á páskum og notuðu aðeins ósýrt brauð eigum við að útrýma hinu illa úr lífi okkar og fylla það hreinleika og sannleika. Lúther sagði eitt sinn í predikun um þetta: „í trúnni tekur kristinn maður á móti hreinleika Krists og vegna hans er hann kallaður hreinn og hann byrjar einnig verða hreinn í raun og sannleika. Því fyrir trúna er honum gefinn heilagur andi og hann verkar í honum þannig að hann stendur í gegn syndinni." M.ö.o. í trúnni á Krist erum við hrein vegna fyr- irgefningar syndanna. Við erum ósýrð eins og Páll talar um (1. Kor. 5:7). Jesús sagði það sama við lærisveina sína: „Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar" (Jóh. 15:3). En um leið og hann segir þetta talar hann um að faðirinn hreinsi þá til þess að þeir beri meiri ávöxt. Þrátt fyrir frelsunina, þrátt fyrir hreinsunina og fyrirgefningu syndanna þurfum við sífellt að kljást við synd og hrösun meðan við lifum hér í heimi. Þess vegna þarf hreinsunin sífellt að eiga sér stað. Þess vegna þurfum við stöðugt að fá að byrja upp á nýtt. Tökum því til Vissulega getum við borið okkur saman við Korintumenn og jafnvel ýmsa sem í kringum okkur eru. Við gætum jafnvel komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé nú alls ekki svo slæmt hjá okkur og síð- an farið að stæra okkur af því. En þá segir orð Guðs við okkur: „Ef vér segj- um: Vér höfum ekki synd, þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss“ (1. Jóh. 1:8). Orð Páls eiga þá einnig beint erindi til okkar: „Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið?" (5:6) Ef syndin fær að ríkja í lífi okkar, jafnvel þótt við höldum því fram að í litl- um mæli sé, þá er þetta raunveruleik- inn: Lítið súrdeig sýrir allt deigið. Það bæði eyðleggur, spillir og deyðir og hef- ur áhrif á líf okkar og þeirra sem í kringum okkur eru.

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.