Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 5

Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 5
vegna komandi jóla. Okkur þurfti þá ekki að skorta neitt af þessu á blessuðum jólunum. Við vorum því sæl og rík í allri okkar fátækt. Kröfurnar voru ekki hærri en þetta. Þetta kvöld, þegar faðir minn kom með jólavarning- inn úr kaupstaðnum, var eitt af skemmtilegustu kvöld- um ársins. Það var fyrirboði jólanna sjálfra, kærkomin tilbreyting í fábreytni lífsins. — Og kannske einhverjir jóladraumar hafi vakið bros á vörum lítilla og snauðra barna í þröngum moldarbæ, þessa þögulu, stjörnubjörtu vetrarnótt, sem þá fór í hönd. III. Þegar líða tók að hátíðinni, hófst fyrsti jólaundirbún- ingurinn. Þá fór mamma að dytta að beztu fötunum okkar, því að ný föt fengum við mjög sjaldan fyrir jólin. Það þurfti að síkka pils og buxur, hleypa fram ermum, kannske setja litla bót á olnboga eða hné. Hún þurfti að ljúka við að prjóna sokka handa okkur syst- kinunum og gera skó handa okkur öllum. Það voru blá- steinslitaðir sauðskinnsskór, bryddir með hvítu elti- skinni. Innan í þeim voru oft nýir illeppar, prjónaðir eða saumaðir. Þetta var venjulega okkar eina vörn gegn jólakettinum. Annars var aldrei um hann talað. Stund- um fékk systir mín nýja svuntu eða treyju. Það var ódýrara en föt á okkur drengina. Þó fengum við stund- um nýja milliskyrtu fyrir jólin, eða axlabönd. Annars voru öll nærföt heimaunnin. En allt þetta vakti óskipta gleði, og aldrei hef ég keypt mér svo dýra og vandaða skó síðar á ævinni, að þeir hafi getað vakið meiri gleði en gömlu jólaskórnir mínir, bryddu sauðskinnsskórnir, sem mamma gerði mér og vakti oft við fram á nætur. Tveimur eða þremur dögum fyrir jól hófst jólabakst- urinn. Auk laufabrauðsins voru það aðeins þessar teg- undir, sem mamma gat bakað: Jólabrauð, kleinur, kúl- ur, pönnukökur og lummur. Engin eldavél var til á heimilinu, og því ekki hægt að baka neinar smákökur. Þessir bökunardagar voru hátíðisdagar, því að kaffí- brauð var nálega aldrei bakað nema fyrir stórhátíðir og lítilsháttar handa gestum. Bærinn fylltist af annarlegum ilmi. Það var auðséð, að hátíð var að ganga í garð. Þessi bökun fór venjulega fram í rökkrinu, þegar mamma hafði lokið hinum venjulegu heimilisverkum. Daufa birtu af olíutýrunni lagði um svart og sótugt eldhúsið. Þá sat ég oft hjá hlóðunum og horfði inn í glæðumar meðan mamma bakaði. Ég sá þar óteljandi furðulegar myndir í eldslogunum, og einnig þeir höfðu tekið á sig einhvern jólasvip. Þarna þóttist ég sjá hirð- ana á Betlehemsvöllum, englana og jötuna í gripahús- inu, en ég þorði þó aldrei að hugsa mér, að ég sæi jólabarnið sjálft. En þegar rauðan bjarmann af eldin- um lagði upp á eldhúsvegginn, gerðist ég svo djarfur að hugsa mér, að ég væri staddur í gripahúsinu fræga hjá Betlehem. Nútímabarn eða unglingur fyndi sjálfsagt enga róm- antík í slíku umhverfi, en ég finn þó enn í dag andblæ löngu liðinna gleðistunda leika um sál mína frá þessum rökkurstundum. Ég sé móður mína sitja á hlóðarstein- inum og vinna verk sitt með snöggum hreyfingum. Og mér þykir vænt um það nú, að við systkinin vorum nægjusöm, gerðum engar kröfur, glöddumst af litlu. Kannske það hafi gert móður minni ofurlítið léttbærari fátæktina, en líklega hefur hún fundið meir til hennar en faðir minn, sem gæddur var guðagjöf léttlyndis og glaðværðar. Stundum stakk hún einhverju að okkur systkinunum á þessum kvöldum, en þó varð að spara allt, svo að allir fengju nóg á jólunum. Svo var öllu raðað niður í eldhúskistuna, sem var í mínum augum forðabúr allsnægtanna. — Eldurinn kuln- aði í hlóðunum. Veggurinn, sem verið hafði dumb- rauður af bjarmanum frá eldinum, varð nú aftur svart- ur og dimmur. Mamma faldi eldinn undir felhellunni. Þessum þætti jólaundirbúningsins var lokið. IV. Daginn fyrir Þorláksmessu þurfti mamma oftast að þvo þvott, því að ekki áttum við alltaf til skiptanna, hvorki nærföt né rúmfatnað, en allt varð að vera hreint á jólunum. Oft mun hinn heilagi Þorlákur hafa munað eftir okkur, þótt það gæti brugðizt. Líklega höfum við þá, vegna hofmóðs eða annarra ódyggða, ekki verð- skuldað fátækraþurrkinn. Ég held, að laufabrauðið hafi alltaf verið bakað á Þor- láksmessu. Einnig það var mikið tilhlökkunar- og gleði- efni. Af því voru þó aldrei bakaðir stórir hlaðar á mínu heimili, heldur ein eða tvær kökur á mann. Þó að eitthvað vantaði af nauðsynjum til jólanna, man ég aldrei eftir, að við systkinin værum send á aðra bæi til að fá þær lánaðar, heldur munum við hafa verið án þeirra. Áttunt við þó góða og hjálpsama nágranna, sem oft og við mörg tækifæri gerðu okkur margvísleg- an greiða óumbeðið eins og áður er að vikið. En hins vegar man ég eftir því, að mamma sendi okkur stund- um með eitthvert lítilræði til fátækra nágranna, sem áttu fárra kosta völ. Fyrir hvort tveggja er ég þakk- látur nú. A Þorláksmessu reyndi mamma einnig að gera bað- stofuna hreina eftir föngum. Hinar fáu þiljur voru þvegnar og ryki sópað af öllum hlutum. Gólfið þurfti ekki að þvo, það var moldargólf, holótt og óslétt. Þá fægði mamma olíulampann, svo að á honum gæti logað glatt á jólunum. Spariföt heimilisfólksins voru viðruð, ef veður leyfði. Þá var einnig tekið til í búri og eldhúsi eftir föngum. Þetta var annadagur, dagur eftirvænting- ar og tilhlökkunar. Og svo rann aðfangadagur jóla upp, þessi ógleyman- legi dagur, sem vakir alltaf í vitundinni sem fyrirboði stórra tíðinda. Ég veit ekki, hvort það er í samræmi við veruleikann, en mér virðist eins og alltaf hafi verið kyrrð og friður yfir náttúrunni þessa daga. Það hefur sjálfsagt ekkert undur gerzt þar þennan dag, og þó fannst mér blátt áfram tilveran skipta um svip og yfir- bragð á aðfangadaginn og jóladaginn. Ef um nokkurt undur hefur verið að ræða, þá hefur það gerzt í minni eigin sál. Þegar hátíð er í huganum, verðum við skyggn Heima er bezt 405

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.