Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 35
GUÐRÚN FRÁ LUNDI TUTTUGASTI OG FJÓRÐI HLUTI Hún gekk fram og aftur um göturnar, fór í hverja búðina eftir aðra, meðan hún var að ná sér eftir geðs- hræringuna, sem hún hafði komizt í yfir bréfinu frá Ásdísi. Loks var hún orðin svo róleg, að hún gat farið heim til móður sinnar. Hún hafði keypt súkkulaði handa Jóni litla, en hann var ekki inni. Hún settist niður og stundi þreytulega, enda var hún orðin þreytt af göturöltinu. „Það er bezt að við fáum okkur bragð af |>essu góðgæti. Ég ætlaði Jóni það, en hann er þá ekki heima,“ sagði hún. Móðir hennar aðgætti svip hennar vandlega áður en hún sagði: „Þú fékkst tvö bréf að norðan í dag, en segir mér þó engar fréttir. Rýkur bara út á götu og ranglar þar fram og aftur.“ Rósa starði út um gluggann en sá ekkert nýstárlegt. Hún gat ekki svarað, þó að hún hefði viljað, en helzt vildi hún þegja. — Skyldi móðir hennar ekki vita, hvað í bréfinu var? Hún vissi svo ótrúlega margt, þó að eng- inn segði henni það. Vissi, að hún var að ganga um göt- urnar, þó að hún gæti ekki hafa séð það. Svo glögg eru móðuraugun. „Hvað sagði Stefán minn í fréttum? spurði Karen. „Bréfið er ekki frá honum. Ég skil ekkert í þessu. Hvað er Stefán riðinn við þennan ófögnuð. Það er ekki nokkurt orð frá honum í bréfinu,“ sagði Rósa. „Frá hverjum er það þá?“ „Það er frá Ásdísi frá Giljum.“ „Hvað skrifar hún, sem gerir þig eins og steingerv- ing?“ „Ég get ekki sagt þér það, mamma, ég trúi því ekki sjálf,“ sagði Rósa, og varir hennar titruðu. „Viltu þá ekki lofa mér að sjá það? Kannske ég skilji það. Ég er eldri en þú,“ sagði Karen. Hún leit ekki af andliti dóttur sinnar. Rósa sótti bréfið, sem hún hafði falið á bak við disk- ana í grindinni frammi í eldhúsinu. Móðir hennar las bréfið tvisvar. Það var ekki langort en fullvel skiljanlegt. Ásdís hafði engan formála að því, sem hún skrifaði, en sagði það berum orðum, að hún gengi með son Krist- jáns undir beltinu og ætlaði sér ekki að yfirgefa hann aftur, enda væri það ekki ncma sjálfsagt, að drengurinn ælist upp á heimili föður síns. Samt hefði hún ekkert á móti því, að Rósa kæmi norður, þar sem hún þekkti hana að því að vera hlýlynda og almennilega manneskju, en af þeim væri fátt hér á bæjunum. Karen glotti kuldalega. „Jæja, svo þetta er efni bréfs- ins,“ sagði hún. „Trúirðu þessu, mamma? Mér finnst þetta alveg ó- skiljanlegt,“ spurði Rósa. „Ég trúi því mætavel,“ sagði móðir hennar. „Heldurðu að það geti skeð, að stelpukjáninn sé að Ijúga þessu upp á sjálfa sig og hann?“ spurði nú Rósa. „Það þykir mér mjög ólíklegt að henni hefði dottið í hug. Skyldi það geta verið, að Stefán í Þúfum hafi hvatt hana til að skrifa þetta?1' sagði Karen. „En frá hverjum var hitt bréfið?“ „Það var frá Kristjáni,“ sagði Rósa. „Og hvað skrifar hann?“ „Hann þykist hlakka til að við komum norður í vor. Hefurðu nokkurn tíma heyrt annað eins? Það er alveg óskiljanlegt?“. „Hvað skrifaðir þú honum?“ „Ekki eitt einasta orð. Sendi honum aðeins bréfið hans til baka. Mér var ómögulegt að skrifa eftir þessar fréttir. Hvað á ég að gera, mamma? Hvernig á ég að snúa mér í þessu?“ spurði Rósa. „Ég, sem var farin að vona, að þú kæmir með mér norður og yrðir hjá mér í sumar.“ „Það hefði sjálfsagt aldrei getað rætzt. Ég get ekki verið á sama bæ og Kristján Hartmannsson.“ „Því þá ekki, mamma?“ „Nú er um nóg annað að hugsa, góða mín. Þú varst að spyrja mig, hvað þú ættir að gera. Skrifaðu Laugu og spurðu hana eftir því, hvort það sé talað nokkuð sér- staklega um Ásdísi. Hún var svo viljug að tala um hana fyrri hluta vetrarins en er nú alveg hætt að minnast á hana. Mér hefur fundizt það nokkuð skrýtið,“ svaraði Karen. „Ég held ég tali heldur við hana í síma. Ég get ekki beðið marga daga eða vikur eftir svari. Þetta er svo ó- skiljanlegt, að nokkur manneskja skuli skrifa þetta um sjálfa sig,“ sagði Rósa. „Hún er þó að minnsta kosti hreinski!in,“ sagði móðir hennar, og kalt bros lék um varir hennar. „Það, sem « Heima er bezt 43 5

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.