Heima er bezt - 01.09.1960, Side 14

Heima er bezt - 01.09.1960, Side 14
hinar ágætustu viðtökur og vorurn færðir úr hverri spjör. Morguninn eftir var norð-vestan hríðargarður og mikil kvika. Sátum við þann dag um kyrrt við veizlu- kost á Daðastöðum. Síðla næsta dags hafði vind og sjó lægt svo, að hægt var að ýta úr Buðlungahöfn. Héldum við þá strax af stað og bjuggumst við að ná heim um kvöldið. En það fór á annan veg. Þegar við vorum tæplega miðleiðis bráðhvessti á vestan, svo að við höfðum okkur með naumindum vestur fyrir Jökulsárósinn og lentum þar. Héldum við síðan heim að Bakka og fengum þar ágæta gistingu. Daginn eftir var norðan stormur og brim við sandinn. Gengum við þá frá bátnum og farminum eftir föngum; fengum lánaðan sleða og ókum á sjálfum okk- ur dálitlum slatta af kornvöru, til þess að koma ekki tómhentir heim. Bátnum gátum við ekki náð fyrr en eftir nokkrar vikur, því að norðanátt og ísar hömluðu því. Svo fór um þessa löngu og erfiðu sjóferð. Og svipaðar þessu voru margar fleiri vetrarferðir á litlum árabátum fyrri tíma, sem stundum voru meira en helmingi minni en báturinn, sem frá greinir hér að framan. II. Tvísýnn róður. Haustið 1897 hafði verið rysjótt og lítið hægt að róa til fiskjar frá hinni brimasömu strönd Öxarfjarðar. Og þá sjaldan komizt varð á sjó, var fiskur mjög tregur. Fiskbirgðir til vetrarins voru því um veturnætur með langminnsta móti í Lóni. Því að oftast hafði föður mínum, sem var mikill aflamaður, heppnazt að draga drjúga björg í bú á haustmánuðum: september og október. Þetta haust þann 3. nóvember gerði gott sjóveður laust fyrir hádegi. Og þótt tíminn væri naumur til róðurs, vildum við Björn frændi Guðmundsson nota góða veðrið og freista þess að reyna að auka lítið eitt við hinar litlu fiskbirgðir. Höfðum þó reyndar litla von um að fisk væri að fá, þar eð sjaldan hafði orðið fiskvart í Öxarfjarðarflóa eftir októbermánaðarlok. Faðir minn var ekki heima og vinnumenn önnum kafnir við fjárhirðingu o. fl. Brugðum við Björn okk- ur því til næstu bæja og fengum bændurna Jón á Fjöll- um og Ásmund á Auðbjargarstöðum til að róa með okkur. Við rérum um 3 kílómetra í norð-austur frá Lóns- ósnurn og renndum þar. Urðum vdð þar strax varir við fremur smáan fisk (stytting). Var hann dræmur, en alltaf við. Er dimmt var orðið um kvöldið héldum við heim og höfðum þá sargað upp á annað hundrað fiska. Þóttumst við hafa gert góða ferð, og hugðum gott til veiða næsta dag. Var svo um talað að bændurnir kæmu aftur með morgni og réru með okkur. Morguninn eftir var þéttings sunnan gola. Loft var þykkt og rifaði aðeins undir við sjóndeildarhring í suðri. Hafði rignt allmikið um nóttina. Bændurnir komu á tilsettum tíma. Og faðir minn, sem var kominn heim, tók auðvitað stjómina í sínar hendur. Hann bjóst þó ekki til farar strax. Hann var veðurglöggur og mun ekki hafa litizt á veðurútlit og lága loftvogsstöðu. Hefur sjálfsagt ætlað að hinkra við og sjá hverju fram yndi. Það var ákveðið að ég færi í róðurinn, ef róið yrði. Og ég brann í skinninu af veiðilöngun og kappi. Mér varð það á að segja, að ekki mundi mikil hætta að róa á grunnmiðin, sem við vorum á daginn áður, þótt hann golaði dálítið af suðri. Sannaðist þar að „ekki þarf nema einn gikk í hverri veiðistöð“. Faðir minn þoldi ekki brýninguna og sagði okkur að búast í róðurinn og matast. Kom þá Kristján bróðir minn, sem var nýlega fermdur, og haldinn mikilli veiði- fýsn eins og við Björn, til hans og bað hann að lofa sér að fljóta með í róðurinn. Faðir minn gat ekki neit- að honum um það, þó reyndar væri ekki rúm fyrir fleiri en fjóra á bátnum, þar eð hann var lítil norsk skekta, sem ekki bar nema 6 tunnur. Ég verð að játa það að mér var ekki rótt innan- brjósts er við gengum frá bænum ofan í Víkina, þar sem báturinn stóð. Golan hafði aukizt og rifan í suðri stækkað. Mig fór að gruna að stormur væri í nánd og ég mundi, með hinum fljótfærnislegu hvatningarorðum mínum, baka okkur erfiði og hrakning eða máske ann- að verra. Og ef illa færi þá var það mín sök að kon- urnar tvær, sem ég elskaði, konan mín, sem ég hafði gengið að eiga fyrir 6 vikum, og móðir mín, yrðu ekkjur. Móðir mín var þá á sextugs aldri og átti að- eins okkur Kristján á lífi af fjórum börnum, er foreldr- ar mínir höfðu eignazt. Og svo voru það líka fjölskyld- ur bændanna, sem mér var vel við, og báðir voru bama- menn. Samvizkan tók að ásaka mig harðlega fyrir ógætni mína. Og mig langaði til að éta allt ofan í mig og letja fararinnar, sem ég hafði áður hvatt til. En ég gat það ekki. Fannst það óbærileg hneisa og bleyðu- skapur eftir nýtöluð hreystiyrði. Við tréreistum, hrundum bátnum fram, tókum í hann nokkra steina til kjölfestu og drógum seglið upp. Og báturinn tók skriðinn út úr Víkinni. Líklega hefur það verið mín vonda samvizka, sem varð þess valdandi að ég fór strax að athuga útbúnað bátsins. Mér var Ijóst að hann var ekki góður, ef í hart færi. Og þá sá ég að ekki voru nema 4 árar í bátnum, og tvær voru samskeittar, vafðar snærum. Ég benti föður mínum á það og spurði hvort ekki væri réttara að ná í varaár. Hann féllst strax á það og renndi bám- um að skerjatanganum, sem er skammt norðan við Vík- ina. Þar lá ár, sem aldrei hafði verið notuð vegna þess hve Ijót hún var. Leggurinn var með hlykk. En hún var úr seigum viði og mundi ekki hrökkva í sundur í róðri þótt á reyndi. Vig sigldum hraðbyri á miðin, sem við vorum á dag- inn áður. En þá brá svo við að við urðum þar ekki lífs varir. Nú var úr vöndu að ráða. Vindurinn hafði færzt svo í aukana, að tveir þurftu að vera í andófi. Þykknið 302 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.