Heima er bezt - 01.09.1960, Blaðsíða 17

Heima er bezt - 01.09.1960, Blaðsíða 17
aftur kom ég við í Geitavík, en sá bær er heldur innar en á miðri norðurbyggð Borgarfjarðar. Lá þá bóndinn Andrés Jónsson í Geitavík í heiftugri lungnabólgu, var hann þungt haldinn og þótti nokkuð tvísýnt um líf hans, enda hafði hann í eitt eða tvö skipti áður verið hætt kominn í sömu veiki. Þar var og tengdamóðir Andrésar, Guðbjörg Gissurardóttir, — gömul kona — þá búin að liggja rúmföst svo vikum skipti í einhverri veiki, sem fólkið þar gat ekki gjört sér grein fyrir, hvað mundi vera. Þarna voru erfiðar ástæður, og ekki víst hvað af myndi hljótast, ef ekki væri reynt að vitja læknis, þó hans væri langt að leita. Var nú leitað hófanna við mig, hvort ég mundi vera fáanlegur til að sækja lækninn. Þó ég vissi fyrir fram, að þetta mundi verða erfið ferð, þá sá ég og skildi ástæðurnar á þessu heimili, og fannst allsendis ómögu- legt að neita um mína liðveizlu og hét ferðinni. Jörð var að mestu leyti auð, og veðrið gott, en dimmt mjög um kvöldið svo að ég gekk við luktar- Ijós leiðina norður Njarðvíkurskriðui', heim til mín. Svolítið þurfti ég að taka mig til, en ekki eyddi ég löngum tíma til þess og lagði af stað kl. 12 á mið- nætti um Gönguskarð til Héraðs. Var þá farið að lýsa af tungli og orðið léttskýjað. Þar sem fannir voru, var manntyllingur á þeim og traustur ís var orðinn á ám og vötnum. Skauta tók ég með mér í þeirri von, að það mundi geta flýtt eitthvað fyrir mér. Ekki var ég kunnugur leiðinni, en hafði samt einu sinni farið upp að Lagarfljótsbrú. Það var árið 1905, þegar brúin var vígð. Þegar ég kom upp fyrir fjall, sem kallað er, tók ég stefnu inn Hérað, það sem ég hélt vera á brúna. Ekkert kom fyrir á leiðinni sem varð mér til tafar, heldur hraðaði ég ferðinni sem mest ég mátti, því að hugurinn rak á eftir mér, að reyna að verða nú ekki of seinn. Grafarþögn var alls staðar. Snjótittlingarnir hnipr- uðu sig saman og sváfu vært í djúpum, gömlum götu- troðningum, lautum og skorningum. Rjúpurnar lágu rólegar í dyngju sinni og krummi gamli kúrði með nefið undir vængnum einhvers staðar úti í kaldri ldetta- skor og bærði ekki á sér. Enginn rakki gó, þar sem ég nálgaðist bæi, og hvergi sást ljóstýra í glugga. Héraðið var allt í fasta svefni og allar sveitir Fljótsdalshéraðs lágu þar saman í einni stórri flatsæng og létu sig dreyma fallega drauma, drauma sem alltaf eru að koma fram um bættar samgöngur, ræktun, byggingar, stór- búskap, skóla, skemmtanir og bættan hag fólksins. Stjömurnar depluðu augunum syfjulega langt, langt úti í blárri heiðríkjunni. Máninn einn var vel vakandi og málaði ásýnd jarðarinnar nábleika eins og á líki. Við vorum þarna bara tveir á ferð, ég og skugginn minn, kolsvört hermikráka, sem ýmist var á hæð við sjálfan mig, eða gat gjört sig tólf álna langa eins og Örvaroddur var sagður, og urðum við jafn fljótir og komum að Lagarfljótsbrúnni kl. 5 um morguninn. Skammt frá brúnni er gestgjafaheimilið Ekkjufell, sem ég hafði svo oft heyrt ferðamenn minnast á. Datt mér nú í hug að fara þangað heim og vita hvort þar væri nokkra hreyfingu að sjá. Er ég kom þar á hlaðið, sá ég ljóstýru i fjárhúsi þar á túninu, gekk ég nú þang- að og var þar Sigbjörn bóndi að gefa lömbum sínum. Heilsuðumst við og sagði ég honum af ferðum mínum, fór svo heim með honum og þáði mjólk að drekka. Kvaddi ég svo bónda og hélt áfram upp Fellin. Er ég kom þar nokkuð ofar ljómaði dagur og þegar ég nálg- aðist bæinn Ás, var orðið albjart. Sá ég þar mann úti staddan á hlaði, var það Brynjólfur bóndi. Greip mig nú sterk löngun í kaffi, enda var ég bæði þyrstur og sveittur. Þegar ég hafði heilsað Brynjólfi og hann frétt mig um, hvernig á ferðum mínum stæði, sagði hann ég skyldi ganga í bæinn augnablik og kasta mæðinni. Stúlkurnar væru nýbúnar að mjólka kýrnar og væri bezt fyrir mig að fá volga mjólk að drekka. Hafði ég stutta viðdvöl á Ási og fór þaðan vel haldinn og fann þá hvorki til svefns né þreytu. Að Brekku í Fljótsdal (læknissetrinu) kom ég kl. 1 e. h. Læknir var þá þar Ólafur Lárusson. Hann var skipaður læknir í Hróarstunguhérað 1912 og sat á Eið- um það sumar, en fluttist að Brekku um haustið. Var þar til 1925 að hann fluttist til Vestmannaeyja. Lýsti ég nú erindi mínu, og sagðist læknir geta lagt af stað með mér kl. 4 s. d. og spurði mig, hvort ég vildi nú heldur leggja mig fyrir þangað til, ellegar hann bland- aði handa mér dálitla hressingu. Af því ég fann ekki til neinnar þreytu, því hugurinn hafði borið mig hálfa leið, eða svo fannst mér að minnsta kosti, þá var ég fljótur að velja þann kostinn, sem mér þótti aðgengi- legri, nefnilega hressinguna, en hugsaði með sjálfum mér, að ég gæti legið og sofið eins mikið og ég vildi, þegar ég væri kominn heim. Þegar við höfðum matazt og læknir hafði gjört þær ráðstafanir heima, sem hann áleit með þurfa, fór hann að tygja sig til ferðar og vorum við komnir af stað kl. tæplega 4 s. d., ég gangandi, með skauta mína í hendinni, en læknir ríðandi. Kom okkur nú saman um, af því að spegilsléttur ís var á fljótinu, að fara heldur eftir því. Batt ég nú á mig skautana og renndi mér af stað, en Ólafur læknir þeystist áfram á fáki sínum og skilaði okkur drjúgt áfram út eftir Leginum. Þegar ég kom út að brúnni á Lagarfljótinu, settist ég niður og beið eftir lækni, sem var orðin góðann spöl á eftir mér. Stakk ég nú upp á, að við skyldum fara eftir fljótinu alla leið út að Hóli í Hjaltastaðaþinghá, þaðan væri fljótfarið austur undir fjallið (venjulega tveggja stunda gangur). Ekki vildi hann fallast á uppástungu mína, sagðist þurfa að koma að Eiðum og varð það svo að vera. Leiðin frá brúnni út að Eiðum var heldur ógreið- fær, ásar, móar og mýrarsund, enda fórum við sem beinasta leið þar út eftir en héldum okkur elcki að neinum götum, enda orðið dimmt. Að Eiðum komum við svo kl. 11 um kvöldið. Sagði þá læknir við mig: „Ég fer nú inn til hennar Sigurbjargar, þar er ævinlega hlýtt inni, og svo er kaffið sem hún býr til ævinlega þessi sælgætis drykkur, hressandi og bragðgott.“ (Sig- Heima er bezt 305

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.