Heima er bezt - 01.09.1960, Page 19

Heima er bezt - 01.09.1960, Page 19
stað og hröðuðum ferðinni eins og við gátum og vor- um komnir að Unuósi rétt um 9 leytið um morguninn. Þegar þetta var, var bóndi á Unaósi Jón Mikaelsson. Heimtum við hann á tal við okkur og föluðum hann til fylgdar með okkur upp í Gönguskarð (fjallvegur á milli Héraðs og Njarðvíkur) til að sækja hestinn, ef læknir gæti setið á honum þangað. Einhverra hluta vegna taldi Jón sig ekki geta orðið við bón okkar. Vildi þá læknir að ég snéri aftur inn að Heyskálum, næsta bæ, og fengi þar mann eftir hestinum. Það aftók ég með öllu. Bæði var það, að nú var ég farinn að finna til þreytu og eins, að á mig sótti svefn. Þó ekki geti talizt löng leið á milli Heyskála og Unaóss, mundi það tefja tímann allmikið, en það fannst mér ískyggi- legt, einkum vegna Andrésar, sem var, eins og áður segir, þungt haldinn af lungnabólgu. Sagði ég þá við Olaf lækni: „Eg held þú getir nú gengið þennan spöl yfir fjallið, rétt eins og ég, sem búinn er að vera á ferð gangandi, hvíldarlítið, næsturn í þrjú dægur.“ Heldur fannst mér svona þykkna í lækni við þessar undirtekt- ir mínar, en ekki sagði hann neitt, en hélt samstundis af stað og fór greitt. Ég flýtti mér að hýsa hestinn, greip svo í mig í fljótheitum einhverja góðgjörð hjá hjónunum og hljóp svo af stað á eftir Ólafi, sem var þá kominn góðan spöl út með Selfljóti. Við að hlaupa sprettin fór af mér allur svefndrungi og ég náði lækni á Eiðaverinu, stutt innan við Krosshöfða (um eitt skeið verzlunarstaður). Tók ég nú við töskunni og hröðuð- um við ferðinni eins og við gátum og komum í Njarð- vík kl. 11 f. h. Var ég nú kominn heim og hallaði mér á eyrað. Sofnaði ég skjótt og svaf þann dag allan og næstu nótt, draumlausum svefni. Njarðvíkingar hrundu fram báti, því gott var í sjó- inn, og réru með lækni suður í Borgarfjörð að Geita- vík. Er það um einnar stundar róður. Af sjúklingnum í Geitavík er það að segja, að Ólafi lækni heppnaðist að lækna Andrés bónda af lungna- bólgunni. Lifði hann mörg ár eftir þetta, eða þar til 27. marz 1941 að hann lézt úr lungnabólgu. Af Guð- björgu, tengdamóður Andrésar, er það að segja, að hún var með taugaveiki og sumt af fólkinu í Geitavík orðið smitað af henni. Hún andaðist fáum dögum síðar, eða 14. sama mánaðar. Eftirmáli. Nú liðu árin, með öllum sínum breytingum og bylt- ingum, fram til vetrarins 1929, að ég fór á vertíð til Vestmannaeyja og stundaði sjóróðra á bátnum „Frigg“, eign Kaupfélagsins Fram í Vestmannaeyjum. Eitt sinn er við vorum í fiskiróðri úti á Selvogsbanka, sáum við hvar enskur togari kom brunandi og stefndi til okkar. Hafði hann uppi merki, sem sýndi að hann vildi hafa tal af okkur. Hægði hann ferðina, þegar hann nálgað- ist bátinn og stanzaði eins nálægt bátnum og hægt var. Stóð skipstjórinn uppi í brúnni og talaði til okkar og spurði hvort hér væri nokkur sem skildi ensku. Ég varð fyrir svörum (hafði lært að tala ensku þegar ég var í siglingum með Englendingum eins og fyrr segir) og segist halda ég muni geta bablað eitthvað við hann. Sagðist hann þá, fyrir nokkrum dögum, hafa lagt veik- an mann inn á spítala í Vestmannaeyjum og sig langi til að koma til hans tösku og smá poka, sem hann sé hérna með, með ýmsu dóti, sem sjúklingurinn eigi og honum sé nauðsynlegt að hafa hjá sér. Sagðist ég halda að einhver ráð mundu verða með að koma þessu til mannsins og tók við hvoru tveggja. Tók hann þá úr barmi sínum Viskí-flösku í stráumbúðum og sagði ég skyldi eiga hana fyrir greiðann. Kvöddu þeir svo og fóru. Strax eftir að við komum í land, og mér gafst tími til, labbaði ég upp á spítala, til að skila af mér farangri mannsins. Fór ég inn að rúminu, þar sem hann lá, og afhenti honum dótið, ásamt kveðju, sem skip- stjóri bað mig fyrir til hans frá sér og skipshöfninni. Þótti manninum mjög vænt um þetta og blessaði skip- stjórann fyrir hugulsemina og sagði að þetta væri hon- um líkt. Vildi hann svo fá að vita hvað ég héti og sagði ég honum nafn mitt. Þakkaði hann mér svo inni- lega fyrir skilsemina og áreiðanlegheitin. Kvöddumst við svo og ég fór heim til mín, tók tappann úr flösk- unni og glöddum við bátsverjar okkur við hana um kvöldið. Þegar þetta var, var Ólafur Lárusson orðinn spítala- læknir í Vestmannaeyjum. Hafði enski sjómaðurinn sagt honum hvað sá hét, sem færði honum farangur- inn og grunaði lækni, að þarna mundi hafa verið sá sami Bóas og sótti hann um árið upp að Brekku til sjúklinganna í Geitavík. Æði löngu seinna, er ég niður við höfnina, eitthvað að hafast að. Veit ég þá ekki fyrr til, en hönd er lögð á öxlina á mér og heilsað á mig með nafni. Er þá kom- inn Ólafur Lárusson læknir. Skröfuðum við þarna sam- an dálitla stund um daginn og veginn — eins og gengur. Kvaddi hann mig svo og segir um leið: „Þú ættir, Bóas, að ganga heim til mín og skrafa við mig dálitla stund, einhvern tíma þegar þú kemst til.“ Nokkru seinna var það svo einn sunnudag, að ég fór heim til þeirra læknishjónanna. Viðtökunum þarf ekki að lýsa. Þær voru eins og bezt má verða, og skemmtileg voru þau bæði hjónin. Á ýmislegt var minnzt af því umliðna, en hvorugur okkar minntist á ferðina góðu, þegar við lentum í bylnum og ég sagði við hann, „ég hélt þú gætir rétt gengið þennan spöl yfir fjallið eins og ég.“ Þegar ég kvaddi hann í forstofunni, sló hann á herð- arnar á mér og sagði: „Þú varst bæði óvæginn og skapillur.“ BRÉFASKIPTI Kristin Arngrimsdáttir, Sandá, Svarfaðardal, Eyjafjarðar- sýslu, óskar eftir bréfaskiptum við pilt eða stúlku á aldrinum 15—16 ára. Sigurlina Arnadóttir, Hæringsstöðum, Svarfaðardal, Eyja- fjarðarsýslu, óskar eftir bréfaskiptum við pilt eða stúlku á aldrinum 16—17 ára. Heima er bezt 307

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.