Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1989, Blaðsíða 9

Heima er bezt - 01.02.1989, Blaðsíða 9
MAGNÚS HELGASON skólastjóri Afengisnautn með forfeðrum vorum Söguágrip Nokkur formálsorð um höfund greinarinnar ,,Áfengisnautn með forfeðrum vorum“ Um þessar mundir eru umræður um áfengismál á Islandi ofarlega á baugi, þegar síðustu minjar um svonefnd bann- lög hafa verið þurrkaðar út með heimild um innflutning og bruggun áfengs öls. En fyrir átta áratugum, þann 30. júlí 1909, voru lög um aðflutningsbann áfengis staðfest af konungi Islands, Friðrik 8. - Blöðin sögðu frá því þá, að ,,í tilefni af staðfestingunni hafi ráðherra íslands, Stór- stúkunni og íslenzku þjóðinni verið sendar heillaóskir úr ýmsum áttum. Lögin hafa vakið mikla athygli víða um heim. “ Svo mörg voru þau orð. En það var skömmu eftir að þessi lög gengu í gildi, sem ritgerð sú, er birtist hér, var samin og flutt. Höfundur hennar var fyrsti skólastjóri Kennaraskóla Islands, séra Magnús Helgason. Hún er úr flokki erinda, sem hann flutti nemendum sínum á kvöld- vökum í skólanum á árunum 1909 til 1929. Magnús fœddist í Birtingaholti í Hrunamannahreppi þann 12. nóvember 1857, sonur hjónanna, Helga Magnús- sonar bónda og Guðrúnar Guðmundsdóttur. Synir þeirra voru fjórir. Þrír af þeim urðu landskunnir prestar, en einn varð kunnur bóndi á ættaróðalinu, Birtingaholti. Dætur þeirra hjóna voru nokkrar og búnar góðum gáfum og myndarskap. Að loknu guðfræðiprófi starfaði Magnús sem kennari, en vígðist prestur að Breiðabólstað á Skógarströnd árið 1884. Fluttist að Torfastöðum í Biskupstungum ári síðar og þjónaði þar sem prestur til ársins 1905, er hann var settur kennari við Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Haustið 1908 var hann skipaður forstöðumaður Kennaraskólans í Reykjavík. Magnús lét af störfum við skólann 1929. Hann lést árið 1940. Fyrirfáum áratugum hefði verið með öllu óþarft að rifja upp þessi æviatriði séra Magnúsar Helgasonar. Hann var landskunnur sem brautryðjandi skólamenntunar barna og unglinga á Islandi og mótaði starf barnaskólanna á önd- verðri öldinni. Þannig nutu margir kunnustu skólamenn þjóðarinnar handleiðslu hans. Það voru þeir Jón Þórarins- son fræðslumálastjóri og Hannes Hafstein, sem sóttu hann ,,yfir ár og vötn austur í Biskupstungur, til að vera lærifað- ir þeirrar stéttar, sem átti að fóstra þetta land“. Þessar síðustu setningar eru sóttar í afmælisgrein, sem Jónas Jóns- son ritaði, þegar Magnús varð áttræður. Og Jónas var Magnúsi næsta vel kunnugur, því þeir voru samkennarar í 9 vetur, og lýsti í greininni atgerfi hans og þekkingu m.a. á þessa leið: ,,Sr. Magnús Helgason hafði, samhliða prestsstörfum, kynnt sér rækilega sögu landsins, bókmenntir þjóðarinnar og tungu hennar. Hann sá úr Hliðskjálf þekkingar sinnar yfir sögu landsins alls. Hann hafði borið kyndil þekkingar að lundarfari söguhetjanna, frá öllum hliðum. Leiðtogar fyrri alda voru honum kunnir í styrk sínum og veikleika eins og sóknarbörn hans og aðrir nánir samvistarmenn. En samhliða þessum fágœta skilningi á mönnum sögunn- ar, hafði hann einkennilegt og mjög fágætt vald yfir ís- lenzku máli. Vald hans yfir móðurmálinu minnti á Jónas Hallgrímsson, með þeim mun, að annar var skáld, en hinn fræðimaður. I Ijóðum Jónasar og á vörum Magnúsar Helgasonar var móðurmálið látlaust, hreint og eðlilegt, svo sem mest mátti vera, sambærilegt að tœrleik við hreina fjallalind, sem steypist hvít um hreina klettastalla. Menn, sem hafa umgengist séra Magnús Helgason árum saman, segjast ekki muna, að þeir hafi heyrt hann þurfa að bregða fyrir sig erlendu orði til að tákna hugsun sína. Hann þurfti heldur ekki að leita torsóttra eða sjaldgæfra orða. Tíu alda fágun móðurmálsins var runnin honum í merg og bein. Fyrir slíkan mann var stjórn skóla létt verk. Hann stjórnaði án þess að nemendur eða samkennarar fyndu nokkurt aðhald. Ró, friður og glaðvær andi ríkti í skoðunum. “ I anda þessara orða eru öll ummæli, sem ég hefi heyrt eða lesið um séra Magnús Helgason. Og jafnframt ber mönnum saman um það, að kvöldvökur þær, sem hann efndi til á hverju laugardagskvöldi á vetrum, hafi haft áhrif, sem náðu langt útfyrir veggi skólans. Svo sem greint er frá hér aðframan, er erindið ,,Áfeng- isnautn með forfeðrum vorum“ flutt við upphaf starfsferils hans í Kennaraskólanum. Sagan er ekki sögð lengra, en fram til þess tíma, er bannið komst á. Því hefur mikið gerst síðan og væri verðugt viðfangsefni fyrir áhugamenn um sagnfræði, að rekja þá sögu til þessa dags. B.G. Heima er bezt 45

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.