Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1989, Síða 12

Heima er bezt - 01.02.1989, Síða 12
Norvegi, einkum eftir að Ólafur konungur kyrri (1066-93) stofnaði kaupstað í Björgvin. Þar gerðist brátt verzlunar- staður mikill. Stóðu verzlunarviðskipti Englendinga og Norðmanna með miklum blóma 12. öld og 13. og fram eftir 14. Þjóðverjar tóku þó að keppa við Englendinga þegar á 12. öld, og urðu þeim yfirsterkari að lokum. Eftir því, sem verzlunin eykst, verða drykkir auðfengnari og meir drukkið og almennara. Drykkjustofur gerast þá altíðar í kaupstöðum, og verða oft róstur og mannvíg í ölæði. Einkum fluttu Þjóðverjar drjúgum öl og vín. Þess er getið í Sverrissögu, að einhverju sinni lágu þeir í Björgvin og höfðu vín mikið og seldu eigi dýrara en mungát. Urðu þá róstur, meiðsl og manndráp með liðsmönnum Sverris konungs (1177-1202). Sverrir kvaddi þá þings í bænum og hélt snjalla ræðu um bölvun ofdrykkjunnar og hótaði Þjóðverjum hörðu fyrir að flytja inn þá ólyfjan. Er af þeirri ræðu að sjá, sem Englendingar hafi flutt lítið af þeirri vöru, en betri þóttu vín þau, er þaðan fluttust og komin voru einkum frá Frakklandi og Spáni, heldur en hin þjóðversku, er líktust mysu á bragðið. Með Þjóðverjum hófst innflutn- ingur öls. Þótti það öl betra en munngátið heimagerða og útrýmdi því bráðum að mestu í borgum og kauptúnum, en lengi hituðu menn sér sjálfir öl til sveita. Drykkja hér á landi á þjóðveldistímanum Landnámsmenn þeir, er fluttust hingað, héldu sömu háttum sem áður, bæði um mat og drykk, að því er efni leyfðu og ástæður. Akuryrkja var minni hér en í Norvegi, og korn hafa að sjálfsögðu oftar brugðizt; mundi því lítið hafa orðið aflögu til ölgerðar, ef landsmenn hefðu búið að því einu, sem hér óx. Ekki var hér heldur hunang til mjaðar. En íslendingar voru farmenn miklir og sóttu til útlanda mjöl til matar, malt og hunang til drykkjar og jafnvel vín, þá er fram liðu stundir. Þó er það auðsætt af sögum vorum, að miklu voru drykkjur fátíðari hér en í Norvegi. Mungát var haft til mannfagnaðar í veizlum, og þá er góða gesti og göfuga bar að garði. Virðist svo sem það hafi stundum verið hitað, þá er gestir voru komnir, líkt og kaffi nú, en þó oftar áður, þegar von var á þeim, eða fyrir stórveizlur og hátíðir, eins og nú eru bakaðar kökur. Þegar getið er um rausn í veizlum, er oftast orð á því gert, hvað haft var til drykkjar. Er auðsætt, að um það finnst mönnum mest, því að það hefur flestum verið nýnæmi. Um veizlu, er Magnús biskup Einarsson hélt í Skálholti (1145) er sagt, að hún hafi verið svo mjög vönduð, að slíks eru sízt dæmi til á íslandi. Þar var mikill mjöður blandinn og öll ölföng önnur sem bezt mátti verða. Þar bar harm að höndum í veizlunni, „en með fortölum biskups og drykk þeim hinum ágæta, er þar var veittur, urðu menn skjótara afhuga hörmum sín- um“. Má af slíkum orðum marka, að mjöður og góð drykkjarföng hafa eigi verið hversdags vara. Yfir höfuð að tala er í Sturlungu og Biskupasögum lítt getið um drykkjur, nema hjá hinum stærstu höfðingjum. Um Snorra Sturluson er þess getið einhverju sinni, að „hann hafði jóladrykki eftir norrænum sið“'). Það hefur þótt dæmafátt hér. Nokkru síðar (1242) er þess getið, að Gissur Þorvaldsson hafði jólaboð fjölmennt. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt og „var alþýðudrykkja inn átta aftan jóla“* 2). Mun það því í frásögu fært, að fátítt hefur verið, að aðrir sætu að drykkju, þótt í veizlum væri, en virðingamenn einir, þeir er boðnir voru. Þessir tveir menn, Snorri og Gissur, voru einna ríkastir höfðingjar á landinu, og til þess tekið um Haukdæli og Oddaverja, að þeir hafi haldið beztar veizlur. Gissur var afspringur þeirra hvorratveggju. Kauptún voru engin hér á landi og því engar drykkju- stofur að staðaldri, eins og í Norvegi, en getið er ölbúða á alþingi og það þegar á 11. öld. Eftir að kristnihald var komið hér á fastan fót, mátti eigi vín skorta til kirkna; þó var stundum svo litið um vín, að bjargazt var við vín af íslenzkum berjum3). Vín til drykkjar hefur verið harla fágætt. Þó er þess getið um Þórð Kakala, er hann kom frá Norvegi og settist hér að völdum (1242), þá hafði hann út hingað vín mikið, enda var hann vanur svalli frá Norvegi og drykkjumaður mikill4). Um þær mundir er og getið um útlent öl, bjór, hér á landi5). Annars virðist hitt hafa verið venjan, að Islendingar keyptu bæði maltið og hunangið erlendis, en bjuggu til sjálfir heima mungátið og mjöðinn. Það var miklu hægari flutningur. Meðan svo hagaði til, var ekki mjög hætt við ofdrykkju hér á landi. Mjöður og mungát hafa varla verið sterkari drykkir en meðalöl nú á tímum og gnægtir eigi miklar6). Hættan vex, er útlent öl og einkum vín tekur að flytjast til landsins, en sá aðflutningur var þó mjög af skornum skammti um langan aldur. Engar skýrslur eru til um aðflutninga.hingað á þessum tímum, en þegar íslendingar gerðu Gamla sáttmála við Norvegs konung (1262), áskildu þeir sér, að konungur léti sex skip ganga til landsins 2 sumur hin næstu. Af því virðist mega ráða, að þeir hafi talið landsmönnum viðunanlega borgið með þeirri skipagöngu, og þá sennilega eigi verið vanir henni miklu meiri að staðaldri. Skipin voru þá smá; eigi stærri en fiskiskútur eru nú, og landsmenn að líkindum litlu færri en þeir eru nú. Er þá auðsætt, að ekki hafa þessi fáu skip, svo smá, getað flutt hingað margar tunnur af öli og víni auk nauðsynjavöru. Allt til loka 13. aldar fara eigi heldur neinar sögur af ölæðisróstum né slysum hér á landi. Mætti þó ætla, að skammt hefði verið til vandræða, ef ofdrykkja hefði verið tíð á mannamótum, að því skaplyndi, er íslendingar höfðu þá. Sýndi það sig líka stundum, er þeir voru staddir í Norvegi, þar sem hægara var að ná í drykk- inn. Þar bar það til, að þeir lentu i illdeilum af þeim sökum, svo að jafnvel hlauzt bani af, t.d. Jóns murta, sonar Snorra ') Sturl. II. 65. k. 2) Sturl. II. 159. k. 5) Pálss. bisk. 9. k. 4) Sturl. III. 211 . k. 5) Sturl. II. 155. k. 6) Gísli Guðmundsson, hinn gerilfróði, sem manna bezt þekkir þessi efni, segir, að eigi hafi tekizt að gera mjöð sterkari en svo, að nema mundi 3% áfengis, þar sem hann var viðstaddur slíkar tilraunir. 48 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.