Heima er bezt - 01.02.1989, Side 27
Ólafsfjörður.
XLVII
„Þú eyðir bara engu þarna ytra!“
Ég fór út í Ólafsfjörð með flóabátnum þann 12. maí og
var þar í hálfan mánuð til þess að kynna mér aðstæður.
Kaupfélagið átti þar hús, sem það hafði keypt af Gunn-
laugi nokkrum Jónssyni, sem hafði rekið þar verslun.
Búðin var á neðri hæð og kjallari góður, en á efri hæð var
rúmgóð íbúð. Hún var þá leigð Sigurði Magnússyni lækni
til fimm ára. Það var hreppurinn, sem hafði tekið íbúðina á
leigu fyrir lækninn. Hafði hann komið austan af Seyðisfirði
í sumarbyrjun 1928 og var þá ráðinn til Ólafsfjarðar með
styrk úr sveitarsjóði og nokkru síðar jafnframt úr ríkissjóði.
Héraðslæknir varð Sigurður ekki fyrr en 1932. En nú bjó
hann sem sagt þarna uppi yfir búðinni og ekkert við þvi að
gera, því leigusamninginn var ekki hægt að rjúfa. Á neðri
hæð voru auk verslunarinnar tvö herbergi og eldhús. Það
var íbúðin, sem við áttum að fá. f henni bjuggu séra Ing-
ólfur Þorvaldsson og kona hans, frú Anna Nordal, og voru
þau þar allt þar til við fluttumst út eftir. En um þær mundir
var verið að byggja prestssetur í Ólaísfirði. Við séra Ing-
ólfur þekktumst vel, enda höfðum við verið bekkjarbræður
í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Hann var af Árskógs-
ströndinni, en Þorvaldur faðir hans var bóndi á Krossum
og föðurafi hans, sem einnig hét Þorvaldur, var móður-
bróðir séra Stefáns Kristinssonar á Völlum í Svarfaðardai.
Séra Ingólfur hafði byrjað prestskap austur í Þingeyjar-
sýslu, að Þóroddsstað í Kinn, en fékk Kvíabekk i Ólafsfirði
árið 1924. Hann hafði því þjónað þar í sex ár, þegar hér var
komið sögu. Nú var byggingu prestsseturs í Ólafsfjarðar-
kauptúni svo langt komið, að þau hjónin héldu til í barna-
skólanum eitthvað fram eftir sumri, en gátu þá sest að í nýja
húsinu. En við Eva fluttumst inn í þessa litlu íbúð til hliðar
við verslunina. Inn af búðinni var dálítil stofa, svona um
það bil þrír metrar á kant, og átti að heita kontór fyrir
útibússtjórann. Úr honum var svo innangengt í íbúðina.
Ég minnist þess, að ég spurði Vilhjálm Þór einhverju
sinni að því í síma, hvort ég mætti ekki leigja mér hentugri
íbúð. Þá stóð mér til boða húsnæði, sem átti að kosta 80
krónur á mánuði. Nei, nei, það kom ekki til nokkurra mála,
enda voru þá kreppuár. Þá sagði hann meðal annars, og
hafði ég óneitanlega nokkurt gaman að því: — Já, heyrðu,
þú eyðir bara engu þarna ytra. Það er ekkert bíó og raunar
ekki neitt, sem hægt er að eyða peningum í. — Svo ég
spurði hann þá, hvort hann ætlaði að refsa mérfyrir það, að
mér væri bókstaflega fyrirmunað að eyða einhverjum fjár-
munum. Síðan bætti ég við, að eitt af því, sem hefði dregið
okkur út eftir, hefði verið að þar fengjum við fría íbúð. Það
væri raunar eina kauphækkunin, sem ég hefði fengið við
þessi stöðuskipti. En þessi íbúð, sem við værum nú komin í,
myndi aldrei vera leigð fyrir meira en 55 krónur á Akureyri.
Það var nú sama, að ekki var hægt að fá þessu breytt. Svo
tók ég þá sjálfur hina íbúðina á leigu og borgaði fyrir hana
80 krónur, en leigði þessa á 55, og meira var ekki um það
rætt né að því fundið. Hins vegar lagði ég það niður fyrir
honum, þegar hann var að tala um það, að okkur væri
fyrirmunað að eyða nokkru, að það væri ekki rétt ályktað,
þvi mjólkurlítrinn kostaði 45 aura í Ólafsfirði, en 25 aura á
Akureyri.
— Var þá mjólkurframleiðslan öll í Ólafsfirði?
-— Já, og bændurnir sáu sjálfir um það, að koma henni
til kaupenda.
— Hvað heldurðu að hafi verið margt fólk í Ólafsfirði
um þetta leyti?
— í þorpinu hafa þá verið nær 300 manns eða líkt og nú
er í Hrísey. En þá voru flestar jarðir byggðar frammi í
sveitinni og mikill búskapur.
Heimaerbezt 63