Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1989, Blaðsíða 28

Heima er bezt - 01.02.1989, Blaðsíða 28
Séra Ingólfur Þorvaldsson. — Nú var þarna kaupmaður áður, sem seldi KEA verslun sína, og Páll tengdafaðir þinn hafði verslað í Ólafsfirði fyrrum. Var þá einhver annar með verslun, eftir að kaupfélagið hóf rekstur? — Já, Páll Bergsson hafði verið með verslun áður en hann fluttist til Hríseyjar, og þegar hann fór keypti Árni bróðir hans verslunina og rak hana áfram. Það er þá eina verslunin önnur en kaupfélagið, sem nokkuð kvað að. Það er að segja, að Jón nokkur Sigurðsson, sem kallaður var Jón Karen og stundum bara Kari, hann var með svolitla versl- un. Matvöruverslun hans var tiltölulega lítil, en hann var með ýmsilegt fleira, t.d. álnavöru. Og þá hljóp hann stundum með strangana heim til frúnna, ef þær vildu líta á og kaupa nýkomin kjólefni, sem hann fékk innan af Akur- eyri. En þetta var ósköp lítil verslun. — Var þá eitthvert starfslið við kaupfélagið? — Enginn nema ég. Þetta var ekki sjálfstætt útibú og allt bókhald var á Akureyri. Ég skrifaði nótubækur, því þarna var lánsverslun, og þær fóru síðan til Akureyrar, þegar þær voru útskrifaðar, og viðskiptareikningarnir voru síðan skrifaðir þar. Það er að segja, að öðru leyti en því, að ég hafði nokkuð marga viðskiptamenn í mánaðarreikningi. Þá færði ég alltaf hjá mér, til þess að hafa yfirlit um það, hvernig menn væru stæðir hverju sinni. Ég var einn í búðinni tvö fyrstu sumrin. Eftir það var svo hjá mér piltur yfir sumarmánuðina, Grímur Bjarni Bjarnason, sem mun vera faðir núverandi bæjarstjóra í Ólafsfirði. Grímur Bjarni var systursonur Gríms skóla- stjóra Grímssonar og ólst upp hjá honum. Grímur var skólastjóri í Ólafsfirði frá árinu 1904 til 1934, en Grímur Bjarni varð síðar íshússtjóri þar. Nú yfir veturinn var ég einn að störfum, nema hvað Gísli föðurbróðir minn, sem bjó í Svínárnesi, flutti nú út eftir og var salthússtjóri hjá mér. Hann var svo oft í búðinni hjá mér á vetrum. Kaupfélagið var sem sagt með fiskmóttöku og saltfisk- sölu. Þannig keypti það töluvert af blautfiski af trillum og árabátum á sumrin. Já, sumir lögðu inn róður og róður og Gísli annaðist alveg verkun á þeim fiski. En karlarnir reyndu þó fremur að salta sjálfir, en kaupfélagið annaðist umboðssölu fyrir nokkuð marga mótorbáta á öllum þeirra þurrfiski. Þeir sáu þá sjálfir um að verka hann, þurrka, pakka og meta. XLVIII Hafnleysa — Einangrun í Ólafsfirði hefur verið mikil á þessum tíma. — Já, ég hafði aldrei látið mér detta í hug, að það kæmi nokkurn tíma höfn þar ytra. — Voru hafnarskilyrði svo slæm? — Já, já. Og það, sem reyndist einna verst, að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð, var hversu grunnur fjörðurinn er langt út. í aftakabrimum þá braut stundum alveg þvert yfir fjörðinn, svo engu skipi var fært inn, nema þá með Kleifum, en þar var miklu dýpra. Þarna var því lítið um hafnargerð á þessum árum. Hafði aldrei staðið bryggja þar þangað til Sveinbjörn Jónsson1 fann upp á því að steypa hol ker á landi og draga þau síðan fram og sökkva þeim. Þá voru þau fyllt af fjörugrjóti og stóðu þá nokkuð af sér. En mistök Sveinbjarnar voru þau, að hann lét fylla þau af lausu grjóti og briminu tókst með tímanum að brjóta göt á kerin svo grjótið hrundi úr þeim. Þegar ég kom út eftir var síðasta kerið á förum. Þá kom hafnarmálastjóri til skjal- anna og ráðinn var verkstjóri frá Siglufirði. Var nú steypt utan um þetta brotaker, sem Sveinbjörn hafði byggt, og það allt fyllt með steypu. Sá klumpur stóð síðan. Bitana og lausu flekana, sem voru lagðir út á þetta ker svo úr varð bryggja, varð síðan að fjarlægja á hverju hausti, því það hefði allt sópast burt í brimi yfir veturinn. Það stóðu að vísu seinast þar járnbitar, sem voru steyptir fastir við þetta ker og annað sem var ofar. En annars voru þetta einu hafnar- bæturnar, sem gerðar voru meðan ég var í Ólafsfirði. Þetta útilokaði alla stærri útgerð. Það voru þar 12 lesta mótor- bátar stærstir. Sjómennirnir urðu oft að flýja með þá, ef veður spilltust og fóru þá allt inn að Hrísey og Hjalteyri, jafnvel alla leið inn til Akureyrar. Það komu oft svo slæmir hvellir. Framhald. 1 Sveinbjörn Jónsson byggingameistari frá Syðra-Holti í Svarfaðardal. Hann var mikill athafnamaður og starfaði á Akureyri á árunum 1920-’35. Framkvæmdastjóri Ofnasmiðjunnar hf. í Reykjavík frá stofnun hennar 1936. 64 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.