Heima er bezt - 01.02.1989, Side 31
bæði hafa gert sér það ljóst að lítil von yrði til þess, að
þau fengju að njótast. Því reyndu þau í lengstu lög að
leyna sambandi sínu. en það fór sem oft vill verða, að
oft er í holti heyrandi nær.
Foreldrar piltsins fengu grun um samband þeirra, og
þá var ekki að sökum að spyrja, þar sem í hlut áttu sveit-
arómagi og ríkur bóndasonur, einkaerfingi. Stéttaskipt-
ingin tröllreið hugsun fólks á þessum árum. Og nú tóku
foreldrar piltsins það til bragðs, að láta vakta elskendurna
til að koma í veg fyrir að þau fengju stund ein saman.
En aldrei er það þó svo á mannmörgum heimilum að
ekki finnist einhverjir, sem hafi samúð með þeim minni-
máttar. Til var fólk, sem hjálpaði þeim að hittast, jafnvel
þó þeir sömu ættu vísa reiði og kannski brottvikningu
af heimilinu, sem oft var nú mjög alvarlegt mál. Því mik-
ilsmegandi húsbændur gátu haft mikil áhrif í fámennri
sveit sem þessari.
Að lokum sáu foreldrar piltsins ekki annað til ráða,
en senda son sinn í burtu. En ástin lætur ekki fjötra sig.
Eftir mánuð kom pilturinn aftur heim. Tolldi ekki annars
staðar. En á meðan höfðu foreldrar hans bruggað
launráð, er átti eftir að verða örlagaríkt fyrir ungu elsk-
endurna og raunar foreldrana líka.
Þau höfðu fengið fólk á bænum til að ljúga því upp,
að stúlkan hefði verið piltinum ótrú á meðan hann var
í burtu. Hún hefði legið með fjósamanninum. Pilturinn
varð afar reiður, og í stað þess að leita eftir sannleikanum
í málinu, já, spyrja stúlkuna sjálfa eða það af heimilisfólk-
inu, sem hann vissi að voru vinir þeirra, þá fór hann til
stúlkunnar og jós yfir hana skömmum, sagði að hún hefði
verið sér ótrú, já, kallaði hana hórkonu og hrakyrti hana.
Stúlkan, sem átt hafði sér einskis ills von, tók þessi
rakalausu ósannindi svo nærri sér, að hún spratt á fætur
og hljóp út í stórhríðina og hvarf mönnum sjónum út
í svartnættið. Þetta var á aðventu.
Þrem mánuðum síðar fannst hún helfrosin hér undir
stóra steininum í hvamminum. En pilturinn hengdi sig
sama daginn. Hún hafði verið í blárri kápu og síðan hefur
hvammurinn verið nefndur Blákonuhvammur. Og hér er
sagt að hún sjáist enn.
Við höfðum tyllt okkur á stóra steininn uppi á melkoll-
inum. Það hafði lygnt. Fjallablærinn var hættur að leika
um gullna lokka Mjallar. Hún hallaði sér að brjósti mér
á meðan á frásögn minni stóð, en nú reis hún snöggt
á fætur og mér sýndist, sem eldur brynni úr augum
hennar. Eg varð hálf smeykur.
Eg sá að dökk ský höfðu myndast á norðurloftinu. Lík-
lega kólnaði með kvöldinu.
Hún hálf hrópaði orðin: Helvítis raggeit og mannleysa
hefurhann verið! Að... hann...
- Við skulum ekki gerast dómarar, síst þeirra sem
horfnir eru héðan af jörðu. Þeir hafa trúlega fengið sinn
dóm og hafa ekki fals og lygi oftast haft betur í fang-
brögðum við sannleikann. Jafnvel enn í dag.
- Hefðir þú trúað svona á mig? Rödd hennar titrar
og hún er mjög æst.
Eg þegi. Eg get ekkert sagt, aðeins þrýst henni fast
að mér, of fast, svo hún nær varla andanum. Mér finnst
lygin vera að læðast bak við steininn, og ef ég sleppi
Mjöll, þá, æ, fyrirgefðu.
Snörp vindhviða af norðri fer að okkur. Ég skelf og
þó er mér funheitt. Mjöll skelfur líka, jafnvel meira en
ég. Og ég fer höndum um hana, grófum höndum. Hún
kippist dálítið við. En hún skilur ætlan mína og hverfur
til mín. Er jafnvel ákveðnari en ég.
I því heyri ég vélardrunur. Ég hef alltaf verið mjög
heillaður, er ég heyri þennan hjartslátt nýja tímans. Mér
finnst sem hann boði alltaf stórkostlegt ævintýri. En nú
bölvaði ég í huganum. Stundin var glötuð. Myndi hún
nokkurn tímann koma aftur? En mig grunaði þó ekki,
að þetta glataða tækifæri ætti eftir að reynast okkur jafn
örlagaríkt og það átti eftir að verða. Ef við hefðum aðeins
fengið svolítið lengri tíma, þá hefði allt ef til vill orðið
öðruvísi en raunin varð á.
Stór lóuhópur flýgur yfir. Þær hefja nú ferð til fjarlægra
landa. Mjöll smeygir sér úr faðmi mínum.
- Þetta er frændi. Hann hefur verið að horfa eftir
rjúpu. Og... hann ætlar að taka mig með sér suður. Vertu
sæll, vinur minn. Og hún hverfur snöggvast til mín aftur,
kyssir mig beint á munninn, rétt eins og við séum að
kveðjast í síðasta sinn. Grætur, svo er hún farin og ég
sé hvar hún gengur fjaðurmögnuðum skrefum upp
hvamminn, lítur aldrei til baka.
Ég rís upp af steininum, mjög stirður. Ég lít í áttina
til Snæfells. Það er alhvítt og nú hefir fölnað alveg niður
í mitt Hafurfell. Það hefur hvesst af norðri, og ég tek
eftir grýlukertum í lækjarbakkanum. Sumarið er á förum
og vetur á næstu grösum.
II. kafli
Vetur
Ég ræddi svo mikið um þá árstíð í þættinum um vetrar-
kvíðann og get fullvissað þig um það, að veturinn er
lengsti og leiðinlegasti árstíminn svo ekki sé fastara að
orði kveðið. Og ef þú ert í vafa um, að ég fari með rétt
mál, þar sem þú varst svo ungur, er þú fórst héðan, þá
skalt þú koma hingað niður á jörðina aftur og búa í einn
vetur og setja of marga gripi á of lítil hey. Koma svo
í húsin á útmánuðum, heyra sultarjarmið í blessuðum
sauðkindunum, sem ekki hafa fengið fylli sína í langan
tíma. Sjá hvað þær eru orðnar kviðdregnar, ullin þurr
og úfin og horglýja komin í augun. Þá trúi ég ekki öðru
en þú sannfærist um að ég er að segja sannleikann. Það
reynir á sálarþrek manns á slíkum stundum. Og sjálfs-
ásökunin er sárust allra rauna.
Heima er bezt 67