Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1989, Page 33

Heima er bezt - 01.02.1989, Page 33
ekki víst. Sumir eru ekki búnir að dvelja nema fá ár í burtu, þegar allt er komið í graut í kollinum á þeim. Já, örnefni gleymd og afstaða þeirra hvers til annar týnd. Já og jafnvel þekkja ekki nágrannann, eða stundum sýnist manni eins og svo sé. Ég hefi oft séð skuggann minn í tunglskini og mér sýnist hann stór, en þetta er útúrdúr. Fyrirgefðu, ef þú heldur að ég sé að sneiða að þér, þá þú um það. Sama er mér, svona er sumt fólk. Á milli heimilanna á Hjalla og Fjalls hefur alltaf verið góð kynni og náið samstarf, eins og þig hlýtur að reka minni til, ef þú mannst þá nokkurn skapan hlut. Oft hafa þau systkinin, Mjöll og Haukur, hjálpað okkur við smölun, og ég svo skroppið til þeirra að halda í hest er járnað var o.fl., o.fl. Og.... Já.... Ef til vill hefur einmitt einangrun þessara bæja frá öðrum bæjum sveitarinnar orðið þess valdandi að meira samstarf er milli þessara heila en margra annarra bæja í þessari sveit. Báðir standa bæirnir inn í Botnsdal og 7 km til næstu bæja í hreppnum og vægast sagt um vegleysur að fara. Botnsá rennur í djúpu gljúfri milli bæjanna, og Botnsá er ekki alltaf lamb að leika við. Ekki í það minnsta í vorleysingum eða haustrigningum, þó er Botnsá ekki lengur neinn farartálmi fyrir fólkið á þessum bæjum, því endur fyrir löngu hafa hugvitssamir menn fundið upp þann útbúnað, að strengja tvo vírkaðla með stuttu mill- ibili yfir ána, festu svo trékassa sem járntrissa var fest í stöpul í hverju horni kassans. Voru svo trissurnar þrædd- ar upp á vírkaðlana yfir árgilið, svo gátu menn dregið sig til hvors lands sem menn vildu með hampkaðli er bundinn var í hornstólpana við löndin. Kláfur heitir það. Þú hlýtur að muna eftir honum. Manstu ekki hvað mamma var alltaf hrædd um okkur fyrst eftir að við fórum að stelast einir á kláfnum yfir ána. Jú, þvílíkt stand og vesen! - Sælt veri fólkið og gleðilegt sumar. - Loftur tekur upp rauðan vasaklút, snýtir sér hátt. Þrekvaxinn maður, bjarthærður með töluverð hofmannavik og blá augu. - Þakka þér fyrir, óskum sama, sögðum við öll samtím- is. - Þá er nú blessað sumarið komið. Vonandi fer hann nú ekki að hlaupa upp á eftir þetta. - Loftur tyllir sér á stól úti við dyr. - Já það væri vonandi, en mér finnst nú öruggara að búast við því versta. Það góða skaðar ekki. Annars hugsa ég að flestum hafi verið orðið mál á að batinn kæmi fljótt, - segir pabbi. Hann tekur upp tóbakspontu. Gráhærður maður, dálítið lotinn, brúneygur, furðu snareygur eftir aldri, býður Lofti í nefið. - Já, það hefur maður heyrt, segir Loftur. Það eru ekki allir eins sparsamir á hey og hann Snær. Ég leit snöggvast inn í fjárhúshlöðuna um leið og ég gekk hjá. Það er lögu- legur stabbi þar. Það hefði ekki þurft að ætla honum Hauki mínum að láta ekki meiri hey endast handa svona mörgum gripum. Það er þessi nýja stefna í fjármennsku, sem þeim er kennd á búnaðarskólunum. En menn verða nú samt að kunna að sníða sér stakk eftir vexti hefði ég haldið, og svo er ekki nóg að rusla þessu af einhvern veginn. Hraði, hraði það er lóðið, já, hraðinn. Loftur rekur pontuna upp í nefið, sígur fast að sér. Ég lít niður á milli fóta minna. Mér hitnar öllum að innan og hjartað fer að slá hraðar en áður. Ég reyni að skáskjóta augunum á fólkið án þess að mikið beri á því, en allir eru mjög alvarlegir að sjá. Úti er loftið þunnskýjað og það er blækyrrt veður. Sól- skin og síðan smásuddi öðru hvoru er vökvar gróðurnál- arnar sem sjást undir bæjarveggnum. Ég fer allur hjá mér. Mig langar mest til að fara út og vera einn með hugrenn- ingar mínar. Gesturinn gat misskilið svoleiðis háttalag og það vildi ég síst af öllu að hann gerði. Loftur. Mjöll. Ég fór sparlega með það sem mér var trúað fyrir. Ég sit kyrr, en aldrei fyrr hafði ég heyrt neinn mann fara viðurkenningarorðum um starf mitt og allra síst fjár- mennsku mína. Forðagæslumaðurinn hafði aldrei fundið neitt jákvætt við starf mitt. Að vísu hafði hann sjaldan sagt neitt við mig um fjármennsku mína, en strax og hann kom til nágrannans varð honum tíðrætt um mistök mín, Og þetta segir svo þessi maður, sem allir viðurkenndu fyrir réttsýni og hreinskilni hver sem í hlut átti. Ég laumast til að líta á Loft og tek eftir pétursspori í hökunni á honum. Enni hans er hátt og hvelft og svipur- inn er einarðlegur og greindarlegur, og ég sé vel, hve Mjöll er lifandi eftirmynd þessa glæsilega manns.... (Ha, þykist þú hafa verið búinn að sjá það fyrir löngu? Nei, bróðir, þá hefðir þú ekki farið þarna upp til tunglsins heldur í bólið til_- Fyrirgefðu, já, ég held ég geti núna fyrirgefið, að þú yfirgafst foreldra okkar, þú varst alltaf sá sterki, mér þýddi aldrei að keppa við þig um...) - Já, Snær minn fer furðu drjúglega með hey, - segir pabbi og lítur út um gluggann, þar sem fjóshaugurinn blasir við augum. Það hafði myndast hlaup í honum í rigningunum um haustið, svo hann hefur runnið út um allt. - Ærnar eru líka furðu góðar hjá honum, þó hann fengi þessa andskotans lungnabólgu í þær. - Jæja, fenguð þið lungnabólguna í ærnar. Já það er nú meiri djöfuls plágan. Við fengum hana í ærnar í fyrra og þá drápust milli tíu og tuttugu. Við losnuðum ekki við hana úr ánum fyrr en við tókum þær á innistöðu. - Það drapst nú aðeins ein hjá mér, segi ég varfærnis- lega, en svolítið drjúgur þó. - Nú já, maður getur nú alltaf misst kind og kind af ýmsum orsökum þó ekki sé um smitandi faraldur að ræða. - Þetta var faraldur, segi ég fljótmæltur, - það veiktust um þrjátíu. - Jæja, en þið hafið þá náttúrlega tekið ærnar nógu fljótt á innistöður. Ég vildi taka okkar strax inn, er sá á þeim, en Hauki mínum fannst það svo bindandi. - Nei, við töldum okkur ekki haf nóg hey til að taka þær inn. Hann gæti nú enn hlaupið upp á og alltaf er því öruggara að vera við hinu versta búinn eins og ég sagði áður, sagði pabbi. - Já, það er vissulega rétt, en það er nú stundum ekki spurt að því í svona kulda. En hvernig fóruð þið þá að, að verða ekki fyrir neinum skakkaföllum? Heima er bezt 69

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.