Heima er bezt


Heima er bezt - 01.09.1998, Side 19

Heima er bezt - 01.09.1998, Side 19
Ég stóð lengst af í stýrishúsinu hjá Guðmundi. Við töluðum lítið saman, vorum enn ókunnugir hvor öðrum og ekki vildi ég trufla hann við stjórn bátsins. Ég bar virðingu fyrir þessum manni, sem hafði lent í hrakningun- um á vélbátnum Kristjáni í febrúar árið 1940, og sem hafði, ásamt skips- félögum sínum, unnið ótrúlegt afrek með því að ná landi eftir nærri tveggja vikna hrakninga í vondu veðri. En þegar ég ávarpaði hann, mætti ég ljúfmannlegu viðmóti, sem var honum eiginlegt. Guðmundur sagði mér að við venjulegar aðstæður tæki ferðin frá Reykjavík að áfangastað í Hvalfirði, þrjá til Qóra tíma. Við höfðum Akra- nes á vinstri hönd og síðan var stefn- an tekin inn Hvalfjörðinn, lognslétt- an og myrkan. í Hvalfirði milli stranda, nálægt Klafastöðum að norðan og Hval- fjarðareyri að sunnan, var kafbátanet. Á siglingaleið var hlið sem gætt var af skipi, sem aldrei vék frá. Skip þetta var með alls konar útbúnað, sem ég bar aldrei kennsl á en hefur sjálfsagt verið til þess gerður að opna og loka hliðinu, þegar þess þurfti með. Áður en við fórum frá Reykjavík var okkur gefið upp, af skrifstofu breska flotans, sérstakt lykilorð. Var gæsluskipinu tilkynnt að okkar væri von á áætluðum tíma og skyldum við hafa yfir lykilorðið þegar við hittum skipið. En vegna þess hve myrkrið var óvenju svart þetta kvöld, áttum við í nokkrum erfiðleikum með að finna það, þar sem það lá, al- myrkvað. Við lónuðum fram og aftur nokkra stund, nálægt þeim stað þar sem Guðmundur taldi að skipið væri og fundum við það þegar brugðið var upp ljóstýru þar um borð, eitt augna- blik. Sögðum við til okkar og var vísað gegnum hliðið. Síðan héldum við ferð okkar áfram og urðum, sem fyrr, að fara varlega. Þegar lengra kom inn í ijörðinn, grillti æ oftar í skip af ýmsum stærðum, sem lágu við bauj- ur eða ankeri, algerlega ljóslaus. Einu sinn fór einhvers konar her- snekkja ífamhjá okkur mjög nærri, og á mikilli ferð. Ferð okkar lauk þegar við höfðum lagt bátnum ystum, við hlið nokkurra skipa sem höfðu næturstað við birgðaskipið Blenheim. Þá var komið fast að miðnætti og þegar við höfðum fengið okkur matarbita og drukkið kaffi, flýttum við okkur í svefninn. Við vissum að klukkan átta næsta morgun yrðum við að vera reiðubúnir til starfa fyrir breska flotann. Tekið til starfa Því fylgja vissir erfiðleikar að hefja störf við aðstæður sem eru manni algerlega ókunnar. Þannig var það með mig þennan morgun í Hval- firði. Þegar klukkan var orðin átta var Sæmundur búinn að setja „rokk- inn“ í gang og ég var búinn að kveikja upp í eldavélinni og hita kaffi. Allt var klárt til að takast á við það, sem fyrir okkur yrði lagt og síð- an var bara að bíða fyrirskipana. Síðar, þegar ég hafði vanist þessu, var biðin notaleg og engin eftirsjá í því þó hún drægist á langinn. En þennan fyrsta morgun minn á þess- um stað, hygg ég að ég hafi orðið því feginn þegar kallað var í hátalara Blenheim, að við ættum að koma að stiganum sem lá utan á skipshliðinni stjórnborðsmegin niður að sjávar- máli. Blenheim var stórt skip, einhver sagði mér að það væri 20 þúsund tonn og ég hélt áfram að trúa því að það væri svona stórt. Seinna las ég í bókum um hina réttu stærð þess, 16 þúsund og níuhundruð tonn. Stórt samt. Þótt þeir Guðmundur og Sæmund- ur skildu ekki enskuna nægilega fyrir þennan „bransa,“ þekktu þeir og skildu vanabundnar fyrirskipanir Blenheimsmanna, svo sem „Saevar sternboard“ eða „Saevar Hvitanes,“ og svo framvegis, og voru mér til að- stoðar ef þess þurfti með. En viðkomustaðirnir voru ýmsir fleiri og þá einkum skip. Nöfn þeirra voru ekki nefnd en greinagóð leið- sögn látin í té og stundum fýlgdar- menn. En stöku sinnum gat þetta orðið erfitt í myrkri skammdegisdag- anna. Þegar við höfðum næturstað við Blenheim, og það gerðum við svo oft sem við gátum, þá lágum við oftast bakborðsmegin. Stundum kom það fyrir að órólegt varð um miðja nótt þegar hvessti, og þá urðum við að færa bátinn og leita að öðrum þægi- legri stað. Þá henti það líka að skip, sem lágu á milli okkar og stóra skipsins, fóru að næturlagi og þá varð ónæði, en oftast var þó rólegt. Stjórnborðssíða Blenheim virtist einkum ætluð skipum, sem höfðu skamma viðdvöl. Meðal annarra lögðust þar að skip sem þurftu veið- gerðar við og um hurð neðarlega á hlið Blenheim, voru teknir inn hlutir sem gera átti við í eld- og renni- smiðju þess. Við Guðmundur sváfum í kompu í Sævari, sem við kölluðum káetu en Sæmundur í lúkarnum, sem jafn- framt var notaður sem eldhús og borðstofa. Flestar nætur var alltof kalt í bátnum og suma morgna varð ég að setja í mig dálitla hörku við að hafa mig fram úr fletinu. Jafhan svaf ég í öllum fotum, þó það hafi ef til vill verið vanhugsað. Sængurfötin, sem ég svaf við, voru varla nógu hlý, þau sömu og ég svaf við í Hvítanesi þau tvö sumur sem ég vann þar. En það var ólíku saman að jafna, þá var sumar en nú vetur. Fyrsta ferð okkar þennan morgun var að bryggju í Hvítanesi með tvo yfirmenn úr flotanum. Við biðum eftir þeim alllengi meðan þeir ráku erindi sín, sennilega hjá kollegum sínum í landhernum. Að því búnu fluttum við þá sömu leið tilbaka. Síðan rak hver ferðin aðra, snatt á snatt ofan. Þetta yrði ekki sem verst. Byrjunarörðugleikarnir voru fljótt að baki og allt gekk áfallalaust. Framhald i næsta hlaði. Heima er bezt 335

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.