Heima er bezt - 01.11.2000, Blaðsíða 4
•Kli
Ágætu lesendur.
Á milli manns, hests og hunds hangir leyniþráður, var
löngum sagt hér áður fyrr. Og áreiðanlega hefur það
verið orð að sönnu því um aldaraðir var þetta nær órjúf-
anleg þrenning. Væri einhvers staðar maður á ferð á
hesti, mátti telja nær öruggt að honum fylgdi hundur
hans.
Það er svo með dýrin, ekki síður en mannfólkið, að
þau binda gjarnan tryggð við húsbændur sína, og á það
ekki hvað síst við um hundana.
Ýmsar sögur eru til um tryggð þeirra við húsbændur
sína. Einna þekktust slíkra hér á landi um tryggð og
vitsmuni hunds, hygg ég að sé sagan um hundinn sem
hafði það fyrir sið að fylgja húsbónda sínum hvert fót-
mál og ekki síst þegar hann þurfti að bregða sér af bæ.
Nú er það eitthvert sinn að bóndi bregður sér lengri
leið en lokar hund sinn inni, því ekki vildi hann hafa
hann með sér í þessa ferð, einhverra hluta vegna. Seppi
var ekki ánægður með þetta, eins og vænta má, og að
einhverjum tíma liðnum náði hann að sleppa út og skipti
það engum togum að hann lagði þegar af stað í humátt á
eftir húsbónda sínum. Mun hann hafa haldið rétta leið
og kom heim á bæ þar sem bóndi hafði haft viðdvöl á
ferð sinni. Ekki kann ég sögu þessa það nákvæmlega að
geta sagt af hvers konar völdum, en á þessum bæ lét
hann staðar numið og hóf að bíða húsbónda síns, sem
mun reyndar ekki hafa komið þarna við á bakaleiðinni.
Að einhverjum tíma liðnum var brugðið á það ráð,
þegar séð varð að seppi hugsaði sér ekki til hreyfings,
að hafa samband við húsbónda hans símleiðis. Þegar
hann fregnaði hvers kyns var, bað hann um að fá að tala
við hundinn sinn i gegnum símann. Var það gert og mun
ekki hafa verið annað séð en að hundurinn hlustaði á
það sem sagt var, þegar tólið var lagt að eyra hans. Og
nú brá svo við, eftir þetta símtal, að hann taldi sér ekki
lengur til setunnar boðið, því hann mun tafarlaust hafa
tekið strikið burt frá bænum til síns heima, þar sem
væntanlega hafa orðið fagnaðarfundir með honum og
húsbónda hans. Hvað þeim fór á milli í símanum fylgir
ekki sögunni.
Ekki er þetta nú nákvæm frásögn af hátterni þessa
ágæta hunds, en í stórum dráttum mun þetta hafa átt sér
stað með þessum hætti. Ýmsar útgáfur eru reyndar til af
þessari sögu og hún jafnvel verið heimfærð upp á fleiri
en einn hund og húsbónda.
En hvað um það, hún er að mörgu leyti merkileg og
nokkuð gott dæmi um vitsmuni sem dýrin sýna oft af
sér.
Fleiri slíkar sögur eru til af ratvísi og skynsemi hunda,
t.d. hundi nokkrum í Bandaríkjunum, sem tókst að finna
húsbónda sinn þó um langan veg og ókunnugt svæði
væri að fara. Eigandi hans, ungur maður, bjó í úthverfi
Los Angeles og varð ekki annað séð en að hundur hans
hefði haldið rakleiðis 15 kílómetra leið í gegnum sér
alókunnugan borgarhluta til þess að finna eiganda sinn.
Atvikið átti sér stað eftir að eigandinn hafði flutt frá for-
eldrum sínum og tekið á leigu bílskúr, sem hann útbjó
sér íbúð í.
Hundurinn hans, sem hann skildi eftir, hafði aldrei
ferðast lengra frá heimili sínu en rúman kílómetra eða
svo, vegna þess að hann varð alltaf bílveikur ef reynt
var að aka með hann í bíl.
Mörgum vikum eftir að eigandi hans flutti, tókst
hundinum að sleppa út úr geymslu sinni í bakgarðinum
og hverfa með því sama.
Nokkru síðar, þegar eigandinn og félagi hans voru eitt
sinn á leið út úr þessari bráðabirgða íbúó sinni, sáu þeir
hundinn kominn þar fyrir utan, og var hann að þefa af
húsinu.
Sú staðreynd að hann skuli hafa birst þarna innan eins
dags frá því að hann hvarf að heiman frá sér, gefur
sterklega til kynna að hann hafi beinlínis verið að leita
húsbónda síns, en ekki bara rambað á rétta staðinn fyrir
einhverja tilviljun.
Og svona sögur eru sjálfsagt margar fleiri til, einnig
af öðrum dýrum en hundum. En það er alltaf gaman að
velta fyrir sér greind og athyglisgáfu hundanna, svo
ekki sé nú minnst á þefskynjunarhæfileika þeirra, sem
svo margoft hefur sannast, t.d. í björgunaraðgerðum.
Allt eru þetta eiginleikar sem oft á tíðum taka langt
fram því sem maðurinn er fær um á þessum sviðum og
hafa þessi dýr því oft orðið honum til gagns og fram-
dráttar í lífsbaráttunni, ekki hvað síst fyrr á öldum. Er
þá nema von að “leyniþráður” hafi myndast á milli
þessara ferðafélaga hér á jörð?
Með bestu kveðjum,
Guðjón Baldvinsson.
396 Heima er bezt