Skírnir - 01.01.1931, Page 62
56
Latínuskólinn 1872—78.
[Skírnir
munaður, dans fyrirleit jeg, glimurnar voru mjer unun, og
þeim tók jeg altaf þátt í. Dans og glímur fóru fram i busíu
og borðum var öllum hrundið saman, svo að hálft gólfið
varð autt. Ryk þyrlaðist mjög upp, en það þótti ekki of-
gott busunum. Glímurnar gengu kappsamlega, bændaglím-
ur. Þar fjekk maður stundum brókum sínum svipt í sundur
utan fótar, einkum ef saumur var forn. Jeg varð nokkuð
leikinn í listinni, og eitt sinn lagði jeg 3 mestu kappana
að norðan að velli, og var jeg þá ærið ánægður með
sjálfan mig. Sjaldan vildi slys til. Þó einu sinni man jeg,
þvi að jeg var við það riðinn. Jeg glímdi eitt kvöld við
Skúla Thóroddsen; hann var aldrei vel liðugur, en hafði
heldur góða krafta. Hann hóf mig upp á brjóst sjer og
ætlaði að setja á mig klofbragð, en jeg varaðist það eftir
reglum listarinnar; hann stendur með mig þarna i loftinu,.
en alt í einu hnígur hann niður og jeg á hann ofan, fót-
urinn hafði einhvern veginn undist og brotnaði við ökl-
ann; hann lá í 6 vikur. Jeg var alsaklaus af þessu, og skil
eiginlega ekki enn í dag, hvernig slíkt gat atvikast.
Glímur eru fögur list, þegar vel er glímt. Það var
unun að sjá þessa lipru, hjólliðugu Norðlínga (einkum
Norðlínga) verjast brögðum. Oft var þá glímt á Nýjatúni
(sem nú er búið að eyðileggja sem svo mart annað) eða
úti í sandinum hjá Kriusteini. Það var eitthvað annað en
sjá þessa hálfberu beltamenn nú glíma opinberlega. Glím-
an stendur yfir nokkrar sekúndur, fáein brögð fyrir láta-
lætis sakir, og svo fellur annar eða læst falla, eins og alt
sje aftalað fyrir fram, enginn móður, ekkert kapp, engin
alvara, bara »sýníng«. En slíkt er ekki íslensk glíma.
Fjelagsskapur hafði verið töluverður í skólanum að
undanförnu, og var honum haldið áfram alla mína tíð. Það
var bókfræðilegt fjelag, fundir haldnir svo og svo oft, lesn-
ar upp sögur og kvæði eftir skólapilta, ritgjörðir um ýmis-
leg efni, og var svo sem sjálfsagt, að Þorvaldur Thórodd-
sen var þar einna fremstur í flokki. Magnús Helgason man
jeg og að ritaði töluvert um ýmisleg efni í fornsögunum.
Var oft gaman að þessu og fróðleikur. Hvort nokkuð af