Skírnir - 01.01.1931, Síða 107
Skirnir] Þjóðabandalagiö. 101
Sú hugmyrid, að ríki geri með sér félagsskap, þar sem
öll sé jafnrétthá, er allgömul. Á 17. og 18. öld komu fram
ýmsar tillögur í þessa átt. Helztar þeirra mun mega telja
tillögur Frakkans St. Pierre 1713, Englendingsins Benthams
1789 og Þjóðverjans Kants 1795.
Vildi St. Pierre, að öll kristnu ríkin í Evrópu — þau
voru þá 24 — gerðu með sér ævarandi samband til varnar
utanaðkomandi óvinum og til tryggingar því, að enginn
félaga réðist á hina, enda átti hver bandalagsfélagi að af-
sala sér rétti til ófriðar á hendur hinum. Ágreining milli
félaga skyldi leggja undir gerðardóm, ef hann yrði eigi
jafnaður með samkomulagi. Ennfremur skyldi félagar knýja
þann félaga til hlýðni við úrlausn gerðardóms, sem ekki
fullnægði henni góðmótlega.
Bentham vildi láta ríkin koma sér saman um það,
hversu mikinn herbúnað hvert þeirra mætti hafa — lík
hugmynd og nú er verið að reyna að framkvæma. Alls-
herjarmilliríkjadóm hugsaði hann sér líka, er lyki dómsorði
á allar milliríkjadeilur, sem eigi yrði jafnaðar með sam-
komulagi. Allar nýlendur og lýðlendur ríkja vildi hann láta
fá fullt sjálfstæði, því að honum virtust styrjaldir oftast
risa af nýlendumálum.
Kant taldi fyrst og fremst nauðsynlegt, að einvalds-
skipulag á rikisstjórn yrði af numið, og að í staðinn kæmi
þjóðstjórn, þar sem almenningur kysi fulltrúa, er færi með
löggjafarstarfið og hefði úrskurðarvald urn það, hvenær
segja skyldi öðru ríki stríð á hendur, — hugmynd, senr
að nokkru leyti hefir komizt í framkvæmd, en ekki komið
að gagni. Kant vildi lika láta öll menningarríki — og eigi
aðeins kristnu ríkin — gera með sér bandalag. Skyldi
bandalagsríkin skuldbinda sig til að halda þær reglur, sem
bandalagið setti, og til að hefja eigi styrjöld hvert á hend-
ur öðru.
Þessara hugmynda mun lítt hafa gætt á 19. öld. Samt
sem áður var þó unnið eigi lítið til mannúðarauka í hern-
aði 0g fyrir friðarmálin almennt, aðallega af einstökum
mönnum og einkafélögum.