Skírnir - 01.01.1931, Page 176
170 Um Gauk Trandilsson. [Skírnir
-óvænna, fer á fund Ásgríms Elliða-Grimssonar og tjáir
honum nauðsyn sína stóra, er kona hans er glapin en
húskarlar drepnir. Ásgrímur getur eigi undan skorazt lið-
veizlu við hann vegna náinnar frændsemi við konuna og
skyldu sinnar sem höfðingi ættarinnar, þó að honum falli
það hins vegar þungt að troða illsakir við fóstbróður sinn.
Er nú liklegt, að hann reyndi fyrst að koma sættum á
með þeim Gauki, en sættin færist fyrir af einhverjum or-
sökum; síðan fylgdi ef til vill enn mannvíg nokkur af
hendi Gauks, unz Ásgrimi fyndist svo, sem sér væri nauð-
ur á að bera vopn á Gauk og taka hann af lífi.
Þessar sakir myndi ærnar til sundurþykkis þeirra fóst-
bræðranna, því að mjög hart var tekið á því í fornöld
að spjalla ráð kvenna og þótti skylt að reka þeirrar hneisu,
er ættingjum konunnar eða eiginmanni var með því ger.
Að svo vöxnu máli myndi og enginn hafa ámælt Ásgrínú
fyrir atgerðir hans, ef eigi hefði svo ógæfusamlega til borið,
■að fóstbróðir hans átti í hlut. Það má og ganga að því
vísu, að Ásgrímur hefir ekki unnið þetta verk án baráttu
við sjálfan sig, milli þess, er hann taldi skyldu sína og
vináttunnar við fóstbróður sinn. Hann tók þann kostinn,
sem honum hefir líklega verið fjær skapi og fallið þyngra,
að fórna vináttunni. En meðan menn þykja vaxa af því
að færa fórnir á altari skyldunnar, getum vér eigi áfellzt
Ásgrím fyrir gerðir hans. Eftir þeirri mynd, sem oss er
gefin af honum í Njáls sögu, er ólíklegt, að hann hafi leitað
á menn með ófriði að fyrra bragði, nema fullar ástæður
væri fyrir hendi. Hann var vitur höfðingi og vinsæll af
hinum betri mönnum og virðist hafa verið friðsamur, en
þó fylginn sér ef þvi var að skifta og ófús á að láta
hlut sinn fyrir neinum; þannig urðu þeir höfðingjar að
vera, sem halda vildu virðingu sinni óskertri.1)
En hvernig verður aðstaða Gauks í þessu máli. Hún
kann að virðast miður þokkasæl. Samband hans við hús-
freyjuna á Steinólfsstöðum var ámælisvert, ekki sízt þar
1) Nokkuð annari mynd bregður Flóamanna saga upp af Ásgrínii-