Skírnir - 01.01.1931, Page 190
184 Eirikur í Bót og Eiríkur á Rangá. [Skirnir
bréfi, að hann hefir verið meðal heldri bænda í Jökulsár'
hlíð. Hann var faðir Ingveldar konu Einars digra, lögréttU'
manns í Njarðvík, Steinunnar seinni konu Hávarðs prests
Sigurðssonar á Desjarmýri og Salnýjar konu Högna Þor-
leifssonar, merkisbónda á Stórabakka. Mundi enginn þeirra
hafa tekið sér konu af bændaættum, nema myndarætt
þætti vera, eftir því sem aldarháttur var þá.
Magnús Benediktsson á Sleðbrjót, bróðir Péturs, átti
Járngerði systur Ásmundar blinda á Hrafnabjörgum í Hlíð.
Hún hefir þó ekki verið nema hálfsystir hans, því að hún
hefir verið miklu eldri en hann. Hefir hún annaðhvort ver-
ið laundóttir séra Ólafs á Sauðanesi Guðmundssonar, fædd
áður en hann kvæntist, eða dóttir Ingibjargar seinni konu
Ólafs, móður Ásmundar, áður en þau komu saman. Má vel
vera, að hún hafi verið gift áður og Járngerður hafi verið
af því hjónabandi. Frá Magnúsi og Járngerði kom mikil
ætt, og var þessi ætt bæði upp frá Magnúsi og sér í lagi
niður frá þeim kölluð Hlíðarætt. Voru það ættareinkenni,
að menn voru þar margir stórir vexti og hraustmenni,
miklir fyrir sér og vinnuvikingar og ekki gjarnir á að láta
hlut sinn. Var dugur og kjarkur í þeirri ætt og hélt hún
sér lengi vel um þær slóðir, meira en 200 ár, frá því á
16. öld og fram undir 1800, og breiddist út um Úthérað,
Austurfjörðu, Vopnafjörð og Langanes, Þistilfjörð og Öxar-
fjörð (Styrbjarnarætt, Hávarðsætt, Hafrafellstunguætt frá
Sigvalda Eiríkssyni o. fl. o. fl.). Væri freistandi að tala
meira um þessa gömlu Hlíðarætt, því að hún hefir verið
ókunnug og hennar ekki getið í neinum hinum almennu
ættatölum, en hér verður því ekki við komið.
Þegar Dr. Hannes Þorsteinsson fann kaupbréfið frá
4. júní 1646, sendi hann mér þegar afrit af því, og gat
þess jafnframt til, að sá Eirikur Magnússon, er selur þar
1 hndr. í Sleðbrjótsseli, er hann hafði fengið að erfðum,
kynni einmitt að vera Eiríkur í Bót. Og vist er um það,
að Eiríkur á mjög vel heima i hinni gömlu Hlíðarætt eftir
ættarmerkjum að dæma. Ætti hann þá að vera sonur
Magnúsar Benediktssonar á Sleðbrjót. En þar sem Eiríkur