Skírnir - 01.01.1931, Page 208
202
Eirikur i Cót og Eirikur á Rangá.
[Skírnir
hans hét Ingibjörg Ormsdóttir (44 ára 1703). Börnin, sem
hjá þeim voru, hétu: Arndís (15 ára), Vigdís (13), Þóra
(11), Ormur (10), Árni (6), Hólmfríður (5) og Jón (3). Ingi-
björg var dóttir Orms bónda á Hallgeirsstöðum, Jónssonar.
Hann bjó þar 1681 á hálfri jörðinni sem leiguliði. Hann
hefir líklega verið góður bóndi, því að hann hefir þá undir
hálf Hrafnabjörg móti Hróðnýju, ekkju Ásmundar blinda.
Þegar Hallur í Bót dó 1669 (eða 1668) var hann tal-
inn eignalitill, en átti 11 börn. Börn hans hafa þá fengið
lítinn arf. Ef Eiríkur á Hallgeirsstöðum hefir verið sonur
hans, hefði hann þá verið 15—16 ára, líklega elztur af
börnum Halls. Ekkja Halls hefir að líkindum búið í Bót
með börnum sínum, eftir dauða Halls, einhver ár. Eiríkur
hefir verið helzta stoð hennar af börnunum, og hafi hann
verið sami maður sem Eiríkur á Rangá, eins og ég tel
víst, þá hefir hann eflaust þegar verið efnilegur maður, og
fljótt borið á skáldskap hans og gáfum, en líklega einnig
á því að honum hafi þótt gott i staupinu og verið nokkuð
gáskafullur. Má vera, að þá hafi þegar farið nokkurt orð af
honum um nágrennið, og nafnið »Eiríkur í Bót« komið aft-
ur á gang, þó að á annan hátt væri en um Eirik gamla
Magnússon, og hafi það hjálpað til að rugla þeim saman,
eins og síðar var gert, Eiríki í Bót og Eiríki á Rangá.
Eflaust hefir þrengzt hagur ekkju Halls í Bót þegar
frá leið, þar sem ómegðin var mikil, en efni lítil. Annars
er ekkert kunnugt um þessa fjölskyldu og hag hennar með
vissu. Þó má telja víst, að fjárhagurinn hafi farið illa í Bót,
eins og annarsstaðar eystra, fellisárið mikla 1673—1674.
Og fyrr eða síðar hefir rekið að því um það leyti, að þurft
hefir að selja Bót, því að eigandaskifti sýnast vera orðin
að Bót 1681. Þá býr þar leiguliði, að nafni Jón Þorsteins-
son, og býr hann þá einn á jörðinni allri. Að vísu gat
ekkja Halls verið þar í húsmennsku þá með eitthvað af
börnum sínum, ef hún hefir þá verið enn lifandi; en ekk-
ert er kunnugt um það. Og þó að hún hafi verið dáin,
gat Eiríkur sonur hennar verið þar með einhverjum hætti,
ekki sízt ef Jón skyldi hafa verið mægður Bótarfólki.