Skírnir - 01.01.1931, Page 222
Sambúð húsbænda og hjúa
á lýðveldistímanum.
Eftir Árna Pálsson.
Eitt höfuðeinkenni á þjóðfélögum miðalda var hin rika,
rammskorðaða stéttaskipting. Þá er lénsskipulagið var á
hæsta stigi, mátti heita, að eigi væru nema tvær verald-
legar stéttir i Evrópu: fámenn, herská, verklítil og drembi-
lát yfirstétt (militares, nobiles) og fjölmenn, friðsöm, vinnu-
söm og auðmjúk undirstétt (uillani, serui). Fyrirlitning yfir-
stéttarinnar á vinnunni og vinnuþrælunum var óskapleg,
svo sem riddaraljóð og trúbadúr-kvæði bera ljósast vitni
um, og átti sú fyrirlitning eigi hvað sízt þátt í að skapa
hið ómælanlega djúp, sem greindi yfirstéttir og undirstéttir
Evrópu í tvenns konar mannfélög alla leið fram að bylt-
ingunni miklu 1789.
Hér á landi gegndi öðru máli. Aldrei hafa verið til
verklyndari og starfsamari menn en höfðingjar þeir, sem
land þetta námu í upphafi. Ég veit ekki til þess, að bóli á
fyrirlitningu á heiðarlegri vinnu nokkurs staðar í fornbók-
menntum vorum, ’) og er þetta eitt hið göfugasta einkenni
íslenzkrar menningar og hefir haldizt fram á vora daga,
Það hefir verið mælt, að þræidómur skapaði alltaf lítils-
virðingu á vinnunni. En ekki sannaðist það á íslenzkum
landnámsmönnum. Þeir komu úr landi, þar sem mikið hefir
verið um þrælahald á þeim tímum, og höfðu sjálfir margt
þræla út með sér. En þeir og niðjar þeirra unnu jafnvel
1) Nema þá helzt i níðvisum, t. d. visu Kormáks um Narfa.
Sbr. þó Rigsþulu 12.