Nýjar kvöldvökur - 01.07.1941, Qupperneq 17
.N. Kv.
KENNIMAÐUR
111
léttbærara að bera hinar þungu byrðar,
sem okkar skammsýna skilningi finnst
hann leggja á okkur.
Ekkjan sneri sér sem snöggvast frá
glugganum og leit á sálusorgarann á
stólnum. í munnvikjum hennar vottaði
fyrir beisku brosi.
— Mér ber víst að skilja það svo, að
guð hafi af kærleika til mín og barnanna
minna tekið manninn minn og föður
þeirra frá okkur og skilið okkur með því
forsjárlaus eftir í heiminum.
— Enginn er forsjárlaus og yfirgefinn,
sem elskar guð og treystir honum. En ég
hefi tekið það fram, að stundum kann það
að virðast svo, sem ráðstafanir hans séu
ómaklegar. Þrátt fyrir það er í öllu, sem
hann leggur á okkur, hulinn tilgangur,
sem miðar okkur til góðs þrátt fyrir allt.
Ekkjan sneri sér nú alveg frá gluggan-
um. Það höfðu komið rauðir flekkir í
vanga hennar, og þegar hún tók til máls,
var rödd hennar dálítið óstyrk og sund-
urslitin.
— Þér fyrirgefið, prestur minn, þó að
ég geti ekki verið á sömu skoðun og þér.
Ég get ekki komið auga á kærleika guðs
í því að svipta mig því, sem mér var
meira virði en öll jarðnesk gæði. Og hvers
eiga vesalings börnin okkar að gjalda, sem
nú verða að fara á mis við þá vernd og
forsjá, sem faðirinn einn getur veitt. Ég
er að vísu ekki annað en skammsýn og
ómenntuð kona og get þess vegna ekki
annað en spurt: Er nokkur guð til og er
þetta hans vilji. Og ef svo er, hvers á ég
og börnin mín að gjalda?
Rödd konunnar brast snögglega eins og
strengur, sem hrekkur við ofþenslu. Hún
sneri sér aftur að glugganum og fór að
horfa út.
Séra Bjarni stundi með sjálfum sér. Það
var alveg dæmalaust, hvað mennirnir
gátu verið þvermóðskufullir og skilnings-
lausir í garð guðs. Þarna dugðu engar
fræðilegar röksemdir. Þarna varð að tala
hinu milda, huggandi máli tilfinninganna,
til þess að ná árangri.
— Ég get vel skilið, að sársaukinn yfir
missi mannsins yðar blindi yður um
stundarsakir, sagði hann svo. Það vill
mörgum verða á. Því miður erum við
mannanna börn svo skammsýn, að við
sjáum aldrei fyrr en á eftir, hver er hinn
sanni tilgangur guðs með því, sem hann
leggur á okkur á lífsleiðinni. Ég bið til
guðs, að þér eigið eftir að öðlast þann
skilning. Þar til það ljós rennur upp fyrir
yður, verðið þér að leita huggunar í því,
að þetta sé óumflýjanlegt, þó að sárt sé.
Látið ekki beiskju sorgarinnar blinda yð-
ur. Biðjið guð hjálpar og verndar í mót-
læti því, sem þér eigið við að stríða. Það
er að freista drottins að efast um kær-
leika hans og elsku til mannanna.
— Hann mundi ekki gefa mér manninn
minn aftur, þó að ég bæði hann þess grát-
andi, unz ég hefði grátið augun úr höfð-
inu, svaraði ekkjan. Um annað hefi ég
ekki að biðja. Mundi hann forða börnun-
um mínum frá hrakningi manna á milli?
Mundi hann forða þeim frá því að þiggja
náðarbrauð, þó að ég bæði hann þess?
Nei, guð er of fjarlægur okkur fátækling-
unum til þess að geta heyrt bænir okkar.
Dæmin eru því miður alltof mörg, sem
sanna það.
Ógnar vandræði eru að tala um fyrir
svona fólki, — fólki, sem þverskallast og
hlítir ekki neinum ráðum. Séra Bjarni'
vissi varla, hvað hann átti að taka til
bragðs. Svona forherðingu þurfti sannar-
lega að taka föstum tökum, en ástæðurn-
ar voru þannig, að ekki var hægt um vik.
— Guð er aldrei fjarlægur þeim, sem
leitar til hans í bæn, sagði hann með al-
vöruþunga.
Konan svaraði ekki. Hún stóð ennþá
við gluggann og horfði út. Eftir stundar-
þögn sagði hún: