Eimreiðin - 01.01.1975, Blaðsíða 78
EIMREIÐIN
Höfundatal
ÞRÁINN EGGERTSSON hagfræðingur fæddist 23. apríl 1941. Hann
varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1961, lauk B.A.-prófi í
hagfræði frá Manchester-háskóla á Englandi 1964 og doktorsprófi í
sömu grein frá Ohio State háskóla í Bandaríkjunum 1972. Þráinn var
starfsmaður O.E.C.D. 1964—1965, en er nú lektor í Viðskiptafræðideild
Háskóla íslands.
DAVÍÐ ODDSSON fæddist 17. janúar 1948. Hann lauk stúdentsprófi
frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970 og stundar nú laganám við Há-
skóla íslands. Davíð var leikhúsritari Leikfélags Reykjavíkur 1970—1972.
Nokkur leikrit eftir hann og fleiri hafa verið flutt hér í leikhúsum. Davíð
var kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík í byggðakosningum 1974.
JORGE LUIS BORGES skáld fæddist 24. ágúst 1899. Hann hlaut
menntun sína í Svisslandi og við háskólana í Cambridge á Englandi og
í Góðviðru (Buenos Aires) í Argentínu. Borges hefur verið landsbóka-
vörður Argentínu og prófessor í bókmenntum við Góðviðruháskóla og
er m. a. heiðursdoktor við háskólann í Oxford. Hann hefur skrifað fjölda
bóka, samið skáldsögur og kvæði. Borges er áhugamaður um íslendinga-
sögur og hefur komið t.il fslands.
PUBLIUS OVIDIUS NASO skáld fæddist í Sulmo á Ítalíu 43 f. Kr.
Hann nam lög og mælskulist í Rómaborg og heimspeki í Aþenu. Ovidius
bjó í Róm, þangað til Ágústus keisari sendi hann í útlegð árið 8. Hann
lézt árið 17, að því er talið er. UMMYNDANIR Ovidiusar, en efni þeirra
sækir hann í gríska og rómverska goðafræði og sagnir, hafa haft mikil
áhrif á bókmenntir og listir seinni alda.
KRISTJÁN ÁRNASON menntaskólakennari fæddist í Reykjavík 27.
september 1934. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík
1953, lauk B.A.-prófi í fornmálum frá Háskóla íslands og stundaði síðan
framhaldsnám í fornbókmenntum og heimspeki við háskóla í Þýzka-
landi og Sviss. Kristján er kennari við Menntaskólann á Laugarvatni og
kennir einnig bókmenntir í Háskóla íslands.
VALDIMAR KRISTINSSON viðskiptafræðingur fæddist í Reykjavík
3. febrúar 1929. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík
1949, lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla íslands 1955 og B.A.-prófi í
landafræði og mannkynssögu sama ár. Valdimar stundaði framhaldsnám
í hagrænni landafræði við Columbia-háskóla í New York 1955—1956.
Síðan hefur hann starfað nær óslitið við Seðlabanka fslands og verið
lengi ritstjóri Fjármálatíðinda.