Eimreiðin - 01.07.1975, Síða 11
EIMREIÐIN
saman ásamt Kristni. Það var dýrasta bók á íslandi, sagði frændi
minn, Vilmundur landlæknir. Magnús Ásgeirsson, Tómas og Erlend-
ur voru líka ráðgjafar Helgafells, og Magnús og Tómas tóku að sér
stjórn tímarits forlagsins. Magnús var mjög frjálslyndur maður. Hann
var talinn sósíalisti, en ég efast um, að hann hafi talið sig það sjálfur.
Hann var fyrst og fremst húmanisti og stjórnleysingi. Sannleikurinn
er sá, að á þessum árum voru mörkin ekki eins glögg og nú á milli
sósíalista og fólks með aðrar pólitískar skoðanir. Við vorum allir
húmanistar, og það laðaði suma að sósíalismanúm, að kenningar hans
voru mannlegar. Þeir vissu ekki um erfiðleikana, sem voru á fram-
kvæmd hans; að maðurinn er spillt dyr og vill ekki yfirgefa sollinn.
Annar maður, sem átti hlut að stofnun Helgafells, var Sigurður
Nordal. Hann gaf útgáfunni nafnið, og við áttum margar stundir sam-
an þessi árin. Tómas hittum við líka oft, en hann og Sigurður voru
miklir mátar. Á þessum tíma var Sigurður Nordal langmesti áhrifa-
maðurinn í öllum menningarmálum. Allt var borið undir hann, sem
gera átti. Ungu skáldin fóru til hans, hann las kvæðin þeirra og leið-
beindi þeim. Hann sagði sumum að brenna kvæðin, hætta alveg eða
byrja aftur á byrjuninni. Og ég held, að Sigurður hafi aukið mjög
gæðakröfurnar í listum og reyndar líka í stjórnmálum. Hann varaði
menn við að flækjast í einhverri óraunhæfri ofsatrú — bæði til hægri
og vinstri. Það var hægt að tala við Sigurð um alla hluti, og menn
fóru fullir af áhuga og siðbótarhug af fundi hans.
— Þið Sigurður og fleiri sameinizt gegn Jónasi frá Hriflu, eins og
frægt varð.
— Já, við lentum í smástyrjöld við hann og menn hans. Jónas
vildi stjórna listinni í landinu, en skrifaði og gerði ýmislegt, sem lista-
menn gátu alls ekki sætt sig við. Og úr þessu urðu hörð átök. For-
ystuna höfðu Sigurður Nordal, Tómas og Jóhann Briem, en ég var
eins konar sendill hreyfingarinnar. Jónas var mjög harður andstæð-
ingur, og ýmsum þótti hann misbeita valdi sínu. Hann var friðlaus
umbótasinni og skipulagssnillingur — en kunni sér ekki hóf.
LISTIR OG LISTAMENN.
— Þar sem við erum farnir að ræða um listina og stjórnmálin,
langar okkur til að spyrja þig að einu: Hvers vegna heldur þú, að
svona margir listamenn á íslandi hafi gerzt vinstrimenn?
— Ég held, að þeir hafi hrifizt af einlægni og heiðarleika verka-
mannanna, sem ekki höfðu tækifæri til þess að olnboga sig í gegnum
187