Eimreiðin - 01.07.1975, Síða 55
EIMREIÐIN
tryggð tiltekin réttindi. Dómstólarnir eru sjálfstæðir og eiga einungis að dæma
eftir lögunum, en eru ekki bundnir við nein fyrirmæli af hálfu framkvæmdar-
valdshafa. Allt eru þetta óræk lýðræðiseinkenni.
Síðar segir Ólafur, að ekki verði um það deilt, að þessi atriði séu
meginkjarni lýðræðishugtaksins.
Lítum nú á ofannefndar skilgreiningar. Þeim er öllum ætlað að
svara spurningunni: Hvað er lýðræði? Og allar fela þær í sér, að
lýðræði sé aðferð við ákvarðanatöku — meirihlutaræði. En lýðræði
er vissulega annað og meira en aðferð við ákvarðanatöku, orðið ,lýð-
ræði‘ er ekki einungis nafn á einni skipun stjórnar, eins og flestir
stjórnfræðingar viðurkenna. Tökum til dæmis skilgreiningu Árna
Næss á lýðræði, sem er reyndar skýr og skilmerkileg. Er ekki hugsan-
leg sú stjórnskipun, sem fullnægir öllum skilyrðum hans, en er ekki
lýðræðisleg? Er unnt að kalla kúgun mótmælendameirihlutans á
. kaþólska minni hlutanum á Norður-Irlandi lýðræðislega? Er stjórn-
skipun, þar sem almenn mannréttindi eru að engu höfð, lýðræðis-
leg? Síður en svo. Almenn mannréttindi eru ekki skilgreiningaratriði
um lýðræði sem stjórnskipun, en þau eru þó bundin lýðræði sem
hugtaki — og hugsjón — órofaböndum. Þetta er öllum íslendingun-
um, sem í er vitnað, ljóst. En hvað eru almenn mannréttindi? Lág-
mark mannréttinda er jafn réttur allra manna til frelsis. Og ekki er
lýðræði, þar sem þessi réttindi eru ekki í heiðri höfð: frelsi og jafn-
rétti eru forsendur lýðræðis. Og af öllu ofansögðu má ráða, að lýð-
ræði er hér skilið sem óbein stjórn fjöldans eða fulltrúastjórn, þar
sem öllum eru tryggð tiltekin mannréttindi. Þessa lauslegu skilgrein-
ingu má færa út í líkingu við það, sem þeir Árni Næss, Karl Popper
og íslendingarnir gera allir ágætlega. En sagan er ekki öll sögð, þó
að vísir sé kominn að skilgreiningu — því að ekki má gleyma garm-
inum honum Katli og skilningi hans á lýðræði.
4.
Kommúnistar hafa hér og erlendis skilið lýðræði öðrum skilningi
-— og að eigin sögn einum réttum — en Vesturlandamenn. Og vissu-
lega er lýðræði Ketils garmsins annað en hið íslenzka, bæði í orði og
æði. Hann segir stjórnskipun kommúnistaríkjanna lýðræðislega, þar
sem frjáls hugsun er kæfð í greipum kerfisins, þar sem troðið er á
öllum mannréttindum og einstaklingurinn svívirtur, þar sem vísindi,
listir og heimspeki eru bundin á klafa kommúnismans, þar sem kosn-
ingar eru grátbroslegur skrípaleikur, þar sem reynt er að stinga þjóð-
231