Ægir

Volume

Ægir - 01.04.1984, Page 38

Ægir - 01.04.1984, Page 38
þessu í von um betri tíð þó komið væri fram í seinni- part októbermánaðar. Bróðir hans kemur þá vestur í einhverjum erindagerðum og lætur í það skína að fólkinu hans fyrir sunnan standi ekkert á sama um að hann sé að róa í þessu tíðarfari með konu og fullt hús af börnum fyrir sunnan. Það er því ákveðið að fara lokaróðurinn og síðan ætluðu þeir að sigla bátnum suður. Þetta varð síðasti hámeraróður föður míns en fyrsti og eini hámeraróður bróður hans. Fóru þeir um miðja nótt með það í huga að vera komnir að Látraröstinni í birtingu, en það skipti falli um það leyti. Verða þeir varir við það þegar birtir að það er hauga sjór en þeir urðu ekki eins varir við það í myrkrinu vegna þess að öldurnar voru svo stórar. Báðir voru þeir vanir sjómenn en höfðu aldrei séð eins stóra sjói. Það var hæglætis veður, en gekk á með dimmum S.V. éljum. Sáu þeir þá að röstin var þakin þykku brimlöðri en nýskipt var yfir á norðurfall og greinilegt að röstin var ófær á suðurfallinu. Létu þeir síðan reka með þrjú ból því þeir komust ekki nærri venjulegri hámeraslóð því þar braut stanslaust. Sáu þeir nú á bólunum hvað sjóirnir voru stórir. Bólið sem var næst þeim var 15 faðma frá og þegar þeir voru neðst í öldu sáu þeir það alltaf efst í öldunni. Auðséð var að ekki yrði um neina veiði að ræða og sigldu þeir því norður úr aftur. Leggja þeir síðan lín- una inn með Blakknum. Fóru þeir síðan að huga að fugli til að hafa með suður og gekk það vel. Þegar þeir koma að línunni aftur hafði skipt falli og var eitt bólið í kafi og hámeri á króknum. Innbyrða þeir hana nú með venjulegum hætti. Leggja þeir síðan af stað yfir Patreksfjarðarflóann, fyrir Tálkna og inn Tálknafjörðinn. Rétt innan við Tálkna mæta þeir Sæfara B.A., en það var 100 tonna stálbátur frá Tálknafirði, sem hafði verið beðinn um að svipast um eftir þeim og öðrum hámerabáti, sem einnig hafði róið suður úr þá um nóttina. Látramenn höfðu séð bát á suðurleið um morgun- inn, en hann hvarf þeim síðan sjónum í dimmu éli og urðu þeir ekki varir við hann eftir það. Hringdu þeir þá á Tálknafjörð og var mannaður bátur sendur af stað, en skýringin á því að Látramenn misstu sjónar af bátnum var sú, að þeir fóru aftur norður úr í dimmu éli. Urðu þeir nú fegnir veiðinni er þeir fréttu allt um- stangið í kringum þá og ekki leiðréttu þeir það, að leitarmenn héldu veiðina úr Látraröstinni. En Sæfarinn fórst nokkrum árum síðar í línuróðri og fórust allir með honum. Lönduðu þeir nú hámerinni og daginn eftir sigldu þeir áleiðis suður og gekk sú ferð að óskum. Menn eru alltaf að fá fregnir af hámerinni af og til í dag. Alltaf virðist slangur af henni, t.d. fyrir vestan og við Öndverðarnes, þar sem Akurnesingar veiddu hana áður fyrr, og vafalaust víða. Fyrir stuttu lögðu menn haukalóð úti á skerjum, (s.v. af Reykjanesi). Lagðist þá einhver skepna á lúð- una og át rafabeltin, innyfli og fletti roðinu. Vildu menn kenna hámeri um en aðrir útsel. En hvað með það. Eftir að vera búin að kynna sér þessar upplýsingar um hámerina, þá finnst manni furðulegt að hún skuh ekki veidd í dag, þar sem ástandið í sjávarútvegs- málum okkar íslendinga er vægast sagt bágborið. Það gæti örugglega svarað kostnaði að senda vanan mann til þessara veiða og látið gera tilraun. Öðrum eins fjármunum er víst kastað í tóma vitleysu hjá okkur. Við ættum að verka hámerina að fullu hér heima- Sjóða ætti úr henni amoníaksbragðið, og setja hana í pakkningar, bæði til útflutnings og á heimamarkað. Hráefni héðan ætti að vera mun eftirsóknarverðara en hliðstætt hráefni úr Norðursjó eða Miðjarðarhafi, vegna þess að þar er mun meiri mengun og hættara við kvikasilfursmengun en hér hjá okkur. Nú er ferðamannaiðnaðurinn að verða mjög mikill hjá okkur, og eftirsóknarvert væri að geta auglýst hámerina fyrir þá sem kannast við, matreidda og borna fram með rétta víninu. Einnig væri kannski möguleiki að stunda hámera- veiðar sem sportveiði og gætu þær vafalaust jafnast a við það besta í stórfiskveiðum erlendis. Mögu- leikarnir virðast allavega nægir í þessum efnum. Það er bara að nýta þá rétt. Faðir minn sagði mér frá því, að eitt sinn er hann fékk að fara með föður sínum á sjó haustið 1937, þá smástrákur, þá klippti hámeri fisk sem hann var að draga. Þá sagði faðir hans við hann „að það væri am- lóði sem ekki drægi undan hámerinni". Væri ekki sterkur leikur að breyta því hugarfari og ná henni alla leið innfyrir lunninguna? 206 - ÆGIR

x

Ægir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.