Tímarit lögfræðinga - 01.07.1975, Blaðsíða 34
Frá
Lögmannafélagi
íslands
AÐALFUNDUR 1975
Aðalfundur L.M.F.Í. var haldinn föstudaginn 11. apríl sl. að Hótel Loftleiðum.
Formaður félagsins, Páll S. Pálsson hrl., setti fundinn og fól Benedikt Blöndal
hrl. fundarstjórn, og kvaddi hann Benedikt Sigurðsson hdl. til fundarritara-
starfa.
Formaður minntist í upphafi þeirra félaga, sem látist höfðu frá síðasta aðal-
fundi, þeirra Theódórs B. Líndal, Eggerts Kristjánssonar, Jóhannesar Elías-
sonar, Sigurðar Grímssonar og Brynjúlfs Árnasonar, en fundarmenn risu úr
sætum í virðingarskyni við hina látnu.
Þá flutti formaður skýrslu stjórnar og gat þess, að haldnir hefðu verið 37
stjórnarfundir á starfsárinu. Þá rakti hann það helsta, sem gerst hafði í félags-
lífinu á árinu. Að lokinni skýrslu stjórnar las gjaldkeri félagsins, Guðjón Stein-
grímsson hrl., reikninga félagsins og skýrði þá.
Ragnar Aðalsteinsson hrl. ræddi væntanlega útgáfu félagsins á „Handbók
lögmanna" svo og um fyrirhugaða útgáfu á dómaskrá á sviði sjóréttar.
Þá urðu miklar umræður um „ókeypis lögfræðiaðstoð við almenning", en
formaður skýrði frá þeim athugunum, sem stjórn félagsins væri að láta gera
á fyrirkomulagi þessara mála i nágrannalöndunum. Þá var samþykkt að
leggja fram 200.000 kr. til Norræna lögfræðingaþingsins, sem haldið verður
í Reykjavík á sumri komanda.
Formaður félagsins var einróma endurkjörinn Páll S. Pálsson hrl., en með-
stjórnendur voru kjörnir til tveggja ára Jón Finnsson hrl. og Brynjólfur Kjart-
ansson hdl. í stað þeirra Skúla Pálssonar hrl. og Sveins Hauks Valdimars-
sonar hrl., sem gengu úr stjórninni skv. félagslögum. Áfram sitja í stjórninni
til næsta aðalfundar Guðjón Steingrímsson hrl. og Ragnar Aðalsteinsson hrl.
Varamenn voru kjörnir Gylfi Thorlacius hdl., Jón E. Ragnarsson hrl. og Sig-
urður Georgsson hdl. Endurskoðendur félagsins Árni Halldórsson hrl. og
Ragnar Ólafsson hrl. voru endurkjörnir. Þá voru kjörnir í gjaldskrárnefnd
Gunnar Sæmundsson hdl., Jón Ólafsson hrl. og Skúli J. Pálmason hrl., en til
vara Jónas Aðalsteinsson hrl., Garðar Garðarsson hdl. og Hilmar Ingimundar-
son hrl.
Þorsteinn Júlíusson hrl. gerði grein fyrir gjaldskrármálum, en tillögur til
breytinga á gjaldskrá félagsins lágu fyrir fundinum. Nokkrar umræður urðu um
þetta mál, og sú breyting var gerð á gjaldskránni, að lögmaður skyldi jafnan
taka greiðslu fyrirfram upp í lögmannsþóknun og síðan eftir því, sem verkinu
miðaði áfram.
28