Tímarit lögfræðinga - 01.05.1976, Blaðsíða 21

Tímarit lögfræðinga - 01.05.1976, Blaðsíða 21
fluttu síðan frumvarp til laga um barnavernd, sem varð að lögum nr. 43/1932. Þótt ekki væru til nein heildarlög um barnavernd hér á landi fyrr en 1932, var þó vikið að barnavernd í ýmsum lögum. I lögum um skilorðs- bundna hegningardóma og hegningu barna og ungmenna nr. 39/1907 var í 5. gr. lögreglustjóra ætlað að skipa áreiðanlegan mann eða konu, er til þess væri fús og fallin, til að hafa umsjón með forsjármanni, að því er snertir uppeldi barns, er afbrot hafði drýgt innan 14 ára aldurs. 1 lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna nr. 46/1921 var ákvæði í 34. gr. þess efnis, að skólanefndir og fræðslunefndir ættu að hafa eftirlit með því, að óskilgetin börn innan þeirra umdæma væru vel upp alin. Ef nefndin yrði þess vör, að móður óskilgetins barns eða þeim, sem barnið var hjá, færi uppeldi barnsins ekki svo vel úr hendi sem skyldi, þá skyldi nefndin áminna þann, sem í hlut átti. Ef hann skipaðist ekki við áminningu nefndarinnar, skyldi hún skýra valds- manni frá málavöxtum, en hann leita álits læknis og prests og gera síð- an þær ráðstafanir, sem með þyrfti. Mátti m.a. koma barninu fyrir á öðrum stað. I lögum um stofnun og slit hjúskapar nr. 39/1921 var víða að því vikið, að dómari og stjórnarráð gæti réttar barna, ef foreldrar þeirra skilja. En aðalákvæðið um barnavernd á þessum tíma var í fátækralögun- um nr. 43/1927, 36.—39. gr. Þar var fátækrastjórn falið eftirlit með því, að öll börn fengju sómasamlegt uppeldi, og henni veitt vald til að taka börn frá foreldrum þeirra, gegn vilja foreldranna, ef heimilislíf þeirra mætti teljast siðspillandi fyrir börnin, eða þar væri farið illa með þau. Var prestum ætlað, með aðstoð lögreglustjóra, að hlutast til um, að þessum fyrirmælum væri fylgt. Árangurinn af starfi fátækra- stjórnanna í þessum efnum varð harla lítill, enda voru þær ekki kosnar með barnavernd fyrir augum. Við samningu laga nr. 43/1932 voru höfð til hliðsjónar lög annarra Norðurlandaþjóða um barnavernd og reynt að hagnýta alla innlenda reynslu í þessum efnum. Helstu breytingar í lögum nr. 43/1932 frá eldri lögum, sem fjöll- uðu um barnavernd, voru þær, að barnaverndarnefnd mátti, ef hún óskaði þess, rannsaka og úrskurða sakamál barna innan 16 ára aldurs. Víða erlendis var á þessum tíma að því stefnt, að hið almenna lögreglu- og dómstólavald þyrfti sem minnst að skipta sér af lögbrotum barna, en þau afskipti falin barnaverndarnefndum að meira eða minna leyti, eða sérstökum barnadómstólum. 15

x

Tímarit lögfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.