Tímarit lögfræðinga - 01.10.1976, Síða 12
gætti þessa einkum hin fyrstu árin. Ég held þó að með fyllsta rétti megi
segja, að Sveinn Ingvarsson hafi leyst þessi vandasömu störf af hendi af
réttsýni og samviskusemi og að fyrirkomulag þessarar verslunar hafi fremur
verið breytt til frjálsari hátta af hagkvæmnisástæðum en því, að forstjórinn
hafi ekki reynst vandanum vaxinn, Þótt stundum hafi andað nokkuð kalt
um hann, heyrir það löngu liðinni tíð til, og víst er um það, að aldrei náði
sú nepja að hans heita hjarta.
Sveinn Ingvarsson var trölltryggur maður, það get ég borið um af eigin raun.
Hann fylgdi Framsóknarflokknum að málum gegnum þykkt og þunnt, enda
alinn upp í því umhverfi, þar sem sá hugsunarháttur sat í öndvegi. Sem dæmi
um staðfestu Sveins í þessum efnum má kannski nefna það, að jafnvel þeim
slynga áróðursmanni, Pétri Sigurðssyni alþm., sem var tengdasonur Sveins,
tókst aldrei að snúa hug hans, og var þó jafnan mjög gott í milli þeirra mága.
Þótt ég hafi um stund dvalið við minningar um starf Sveins og stefnu,
er það þó af hvorugum þeim vettvangi, sem mér er hann minnisstæðastur,
þó að ég kynntist því hvoru tveggja nokkuð, en rek það ekki nánar.
En það var annað áhugamál, sem tengdi okkur Svein vináttuböndum, og
það var bridge-íþróttin. Við græna borðið höfum við marga hildi háð, og
minnist ég ótal skemmtilegra stunda nú þegar ég læt hugann reika til þeirra
glöðu daga. Sveinn var í hópi bestu bridgespilara hér á landi um áratuga
skeið, skarpur í hugsun og fljótur að koma auga á bestu leiðirnar, hvort heldur
var til sóknar eða varnar. Þar var hann hrókur alls fagnaðar, og það var
sjaldan lognmolla eða deyfð yfir því spilaborði, þar sem Sveinn sat. Úr því
umhverfi minnumst við gamlir bridgemenn Sveins Ingvarssonar sem góðs,
glaðs og drengilegs félaga.
Sveinn var kvæntur frú Ástu Fjeldsted, hinni ágætustu konu, og áttu þau
6 börn, sem öll eru á lífi. Hann var hamingjumaður í einkalífi sínu.
Síðustu árin átti hann við vanheilsu að stríða og hvíldin mun hafa verið
honum kærkomin.
Blessuð sé minning Sveins Ingvarssonar.
Einar Ágústsson
54