Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Side 10

Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Side 10
snertir í þeim flokki mála, sem Gizur Bergsteinsson telur að rök séu til að beita rýmkaðri sakarreglu um. Málsatvik í H 1956, 777 voru þau, að þegar F og G hjálpuðust við að negla krossviðarplötur á tréramma, hrökk nagli undan hamri G í auga F, sem missti að mestu sjón á auganu. F og G voru ekki lærðir trésmiðir, en höfðu báðir unnið við trésmíðar um alllangt skeið. G var ekki talinn hafa sýnt fulla aðgæslu við áslátt naglans. Með vísun til þess og að starfið virtist „nokkuð hættusamt“ var vinnuveitandi talinn bótaskyldur. í dómi þessum er sakarreglan teygð mjög langt og skírskotað til hættusemi starfs. Sýnist mega telja að beitt sé rýmkaðri sakarreglu í þeirri merkingu, sem hér um ræðir. Þó varð slys þetta við einfalt og hversdagslegt starf og var á engan hátt tengt hættulegum tækjum. Þessir þrír dómar eru kveðnir upp á árunum 1956 og 1957 og „Þyrilsdómur- inn“ árið 1953, þ.e. fáeinum árum áður en Gizur Bergsteinsson ritaði um rýmkaða gáleysisreglu.9 Eigi verður séð, að í fleiri dómum Hæstaréttar sé greinilega vísað til hættusemi verks, rekstrar eða tækja til stuðnings bótaábyrgð. Við athugun á dómum Hæstaréttar um skaðabætur á grundvelli sakarreglunn- ar eða reglunnar um vinnuveitandaábyrgð má finna ýmis dæmi um að dómarar geri mjög ríkar kröfur um gætilega hegðun. Engin tök eru á að gefa stutt heildaryfirlit yfir þá dóma, en langflestir þeirra varða bætur fyrir slys og einkum þó vinnuslys. Hér á eftir fara nokkur dæmi um ríkar kröfur til aðgæslu. ítrekað skal, að yfirlitið er engan veginn tæmandi. H1962, 745. Umbúnaður hlera á dráttarbátnum „Magna“ S, háseti á dráttarbátnum „Magna“, slasaðist, er vír festist í eyra á hlera yfir lúguopi aftast á skipinu. Þegar slysið varð, var nýlokið við að draga annað skip frá bryggju. Var dráttartauginni sleppt af dráttarkrók með þar til gerðum búnaði. Rann vírinn aftur eftir „Magna“, en festist síðan í hleraeyranu. S hljóp þá ótilkvaddur ásamt öðrum manni og hugðist losa vírinn af hleranum. Er S kom að hleranum, stríkkaði á vírnum, og reif hann sig lausan af hleranum. Við átök vírsins hrökk hlerinn upp, lenti á öðrum fæti S, sem fótbrotnaði. Hlerinn var í skut skipsins bakborðsmegin og nokkru lægri en borðstokk- urinn. Hleraeyrað var talið hafa verið „í vinkilhorn“, en við viðgerð eftir slysið mun það hafa verið gert ávalt. Slysið varð í september 1959, en skipið var smíðað 1955.10 Eigi var vitað til, að dráttarvír hafi fest í hleraeyranu nema í þetta eina skipti. Útgerðarmaður skipsins var dæmdur bótaskyldur að 3/4 hlutum með þeim rökum, að það verði talinn vanbúnaður á dráttarbát, að dráttartaug, sem sleppt var, skyldi geta orðið föst í lúgueyra með framangreindum hætti. Einn fjórða hluta tjónsins varð S að bera sjálfur, en hann þótti ekki hafa gætt nægilegrar varúðar. Einn dómenda taldi rétt, að skipta ábyrgð til helminga. ’Sjá Arnljótur Björnsson (1984), bls. 30 (=1990, bls. 251), en þar er fjallað í örstuttu máli um dómana þrjá. “Skrá yfir íslensk skip 1970, bls. 100. 240

x

Tímarit lögfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.