Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Page 24
einnig tryggja vandaða málsmeðferð hjá barnaverndaryfirvöldum. Reglur nýju
laganna um meðferð mála fyrir barnaverndaryfirvöldum eru að mörgu leyti líkar
þeim málsmeðferðarreglum sem dómstólar vinna eftir. Vegna sérstöðu þessara
mála og sérstöðu þeirra hagsmuna sem í húfi eru þyrfti alla vega að setja
sérreglur fyrir dómstóla ef þeir færu með þessi mál, sbr. VIII. kafla barnalaga
þar sem lögfestar eru ýmsar sérreglur fyrir dómstóla við úrlausn ágreinings um
forsjá barna. Má þar t.d. nefna að dómari getur sjálfur aflað sönnunargagna,
hann er ekki bundinn af kröfum og málsástæðum aðila og hann getur ákveðið að
aðilum sé óheimilt að vera viðstaddir þegar barn fær að tjá sig um málið.
9. RÉTTARSTAÐA BARNA
í lögunum er leitast við að styrkja réttarstöðu barna. Er það m.a. gert með því
að börn eigi að jafnaði rétt á að tjá sig, og er það skylt ef barn er 12 ára eða eldra.
Þá er heimilt þegar sérstaklega stendur á að skipa barni eða ungmenni talsmann.
Þetta er í samræmi við 12. gr. samningsins um réttindi barna frá 1989 sem hér að
framan var minnst á. Hlutverk talsmannsins er að gæta hagsmuna barnsins.
Þetta veldur vissum vandræðum bæði fræðilega séð og í framkvæmd þar sem
bæði foreldrar og barnaverndarnefnd fara líka með hagsmunagæslu fyrir barnið.
Einnig er óljóst að hve miklu leyti barnið sjálft hefur réttarstöðu aðila, jafnvel
þótt öll ákvarðanataka í málinu varði það fyrst og fremst. Verður væntanlega að
meta út frá hagsmunum barnsins hvert hlutverk talsmanns skuli vera í hverju
einstöku tilfelli.
10. HVERNIG ER REYNT AÐ TRYGGJA ÁRANGUR í BARNAVERND-
ARSTARFI
Þá er rétt að nefna nokkur atriði í hinum nýju lögum sem er sérstaklega ætlað
að tryggja betri barnavernd. Mörg börn í sárri neyð fá aldrei neina hjálp vegna
þess að upplýsingar um neyð þeirra komast aldrei til réttra aðila. Úr þessu er
reynt að bæta með tilkynningarskyldu almennings og tiltekinna starfsstétta við
barnaverndarnefnd. Um hana er fjallað í IV. kafla laganna svo og samstarf
barnaverndarnefnda við ýmsar starfsstéttir og stofnanir sem hafa með börn að
gera. Reglur þessar eru í sjálfu sér ekki nýmæli en eru mun skýrari og ítarlegri en
eldri reglur. Þó eru í lögunum nýmæli varðandi nafnleynd þeirra sem tilkynna
barnaverndarnefnd um atriði sem skylt er að tilkynna samkvæmt lögunum.
Einnig eru skýr fyrirmæli um að tilkynningarskyldan gangi framar þagnarskyldu
viðkomandi starfsstétta. Byggir það á því að þegar litið er til þeirra hagsmuna
sem í húfi eru hljóti hagsmunir barna í neyð að vega þyngra en aðrir hagsmunir.
Þá er rétt að benda á, þegar metinn er árangur af barnaverndarstarfi, að
aðgerðir barnaverndaryfirvalda verða að vera þannig að þær bæti hag viðkom-
andi barna. Oft getur verið flókið að leysa úr vandamálum fjölskyldunnar svo og
254