Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Blaðsíða 28
háskólabókasafnsins í Lögbergi var ég engu bættari. Engin bók fannst sem
beinlínis fjallaði um efnið. Mér tókst varla að finna venjulega orðabók eða
lögfræðilega orðabók sem skýrði merkingu hugtaksins. Ég sendi því fyrirspurn
til alþjóðlegra lögmannasamtaka sem ég er félagi í og óskaði upplýsinga um rit
um efnið. Að fengnum upplýsingunum keypti ég rit erlendis sem ég mun hafa til
hliðsjónar við umfjöllun mína. En þó að heimildir séu af skornum skammti er
ekki þar með sagt að hvergi sé minnst á víkjandi lán. Hugtakið kemur sums
staðar fyrir í lagatexta og lagafrumvörpum. Það er því full þörf á að merking
hugtaksins sé ljós. Hugsanlega getur þessi umfjöllun mín skýrt merkingu þess að
einhverju marki.
2. SKILGREINING
a) Hugtakið
Víkjandi lán er lán þar sem lánveitandi samþykkir að fá ekki greitt frá lántaka
eða öðrum skuldara fyrr en annar lánveitandi hefur fengið sitt greitt.
Það að gera lán víkjandi hefur aðeins þýðingu við gjaldþrot. Fyrir gjaldþrot fá
báðir, forgangslánveitandi og víkjandi lánveitandi, fulla greiðslu. Það er því
grundvallarmarkmið með ráðstöfuninni að hún virki við gjaldþrot.
Gera má lán víkjandi á tvennan hátt:
i) Með yfirlýsingu hins víkjandi lánveitanda um að það sem hann fær upp í
sína kröfu sé móttekið í þágu forgangslánveitandans og verði greitt
honum.
ii) Með samningi milli lántaka og víkjandi lánveitanda, með eða án aðildar
forgangslánveitanda, um að víkjandi lánið verði aðeins greitt eftir að
forgangslánið hefur verið greitt að fullu.
Framkvæmdin samkvæmt i) hér að ofan er venjulega sú að sá sem gerir sína
kröfu víkjandi á þennan hátt framselur þeim sem á að njóta hags af því réttinn til
að taka við greiðslum upp í kröfuna. Oft fylgir einnig atkvæðisréttur vegna
kröfunnar.
b) Orðanotkun
í grein þessari mætti vel nota hugtökin víkjandi krafa, víkjandi kröfuhafi,
forgangskröfuhafi og skuldari. Þau eru víðtækari en víkjandi lán og þau hugtök
sem af þeim eru leidd. Víkjandi lán er bara eitt form gerninga sem fellur undir
hugtakið víkjandi krafa. En þar sem ekki er komin ákveðin hefð á orðanotkun í
þessu efni mun ég nota hugtakið víkjandi lán, forgangslán, víkjandi lánveitandi
og forgangslánveitandi. Einnig má benda á að orðið forgangskröfuhafi hefur
258