Ægir - 01.04.1997, Blaðsíða 16
„Erum á eilífum flótta
undan þorskinum"
segir Jón Björn Vilhjálmsson skipstjóri á Andra KE-46
Á bryggjunni í Sandgerði:
Laugardagur og dagróðrabátarnir að tínast inn í
Sandgerðishöfn eftir blíðviðrisdag á sjó. Eftirtekjan hjá
sumum er rýrari en daginn áður en menn eru glaðir enda
framundan frídagur. Sumir eru með rígvœnan þorsk og.
allir eru þeir sammála sjómennirnir um að það sé ekki
þeirra mesti höfuðverkur að ná þorskinum - kannski miklu
fremur að forðast hann. Ægir brá sér um borð í Andra KE
og heilsaði upp á skipstjórann í brúnni, Jón Björn
Vilhjálmsson.
„Núna er bara þorskur út um allt og
allir á eilífum flótta undan honum. Við
eigum 70 tonna kvóta og hann gengur
auðveldlega upp án þess að maður sæki
sérstaklega í þorskinn. Þorskurinn
kemur með þegar við erum á kola;
skráp og sandkola. Þær tegundir eru
ekki bundnar i kvóta en ég get ekki séð
að þær þoli þessa sókn því það fara allir
sem eru í vandræðum með þorsk á
flatfiskveiðar með dragnót. Þetta
gengur að flafiskinum dauðum. Mér
sýnist ekki vera neitt vit í öðru en setja
kvóta á flatfiskveiðarnar líka því að
öðruvísi verður ekkert hægt aö hafa
hemil á þeim," segir Jón Björn.
Hann segir það staðreynd að
bátaflotinn sé of stór og varla geti
öðruvísi farið en að hann minnki.
Margir haldi útgerðinni gangandi á
leigukvóta.
„Þessi leigukvóti er auðvitað ekkert
annað en neyðarbrauð en menn halda
sér gangandi á þennan hátt."
Jón Björn segist þakka það
togaraflotanum hvernig fiskgengdin
hafi aukist á miðum bátaflotans. Nú sé
ástandið þannig við suðurströndina að
fara megi nánast hvert sem er og ganga
að þorski vísum.
„Miðin eru á uppleið og ég tel það
vera togurunum að þakka. Það hefði átt
að styrkja þá meira í að sækja lengra út
fyrir landhelgina. Þessi skip koma
jafnvel ekki heilu mánuðina eða árin
inn á þau mið sem þau voru vön að
vera á hér áður fyrr en ef þeim verður
gert óbærileg að sækja út þá koma þau
aftur á þessar slóðir. Það sjálfsagt endar
með því. Þetta eru mjög öflug skip og
þau gætu verið fljót að þurrka upp
miðin. Ég segi því enn og aftur að það
sem heldur lífinu í þessu er kvótinn.
Menn eru oft að agnúast út í
kvótakerfið en það hefur bara sýnt sig
aö kerfið er það eina sem dugar til að
takmarka sóknina, hvort sem mönnum
líkar betur eða verr. Hvernig halda
menn eiginlega að ástandið væri ef
kvótakerfið væri ekki til staðar til að
halda aftur af mönnum. Menn gera sér
ekki grein fyrir því hversu nærri var
komið algjöru hruni."
Jón Björn Vilhjálmsson, skipstjóri og Amar Magnússon, vélstjóri, í brúnni á bát sínum,
Andra KE. Jón Björn segir ástandiö á miöunum minna á gamla oggóöa daga þegarþorskur
var um allan sjó. Myndir. jóh
1 6 ÆGIR