Hlín - 01.01.1942, Page 74
72
Hlin
greiðsla hafa verið þar hærri en annarsstaðar, en fastar
heimilisvenjur, hógværir húsbændur, glaðlegt viðmót og
því um líkt, hugsa jeg að hafi ráðið mestu þar um.
Jeg man oft eftir því, að þegar faðir minn hafði lesið,
stundum klukkutímum saman, þá stóð hann upp og gekk
fram í fólksbaðstofuna, ef til vill gekk hann fyrst þegj-
andi um gólf dálitla stund, en altaf með örlítið bros á
vörum. — Æfinlega þagnaði allur dægurkliður og fólkið
beið. — Brátt fór hann að tala ,fyrst um daginn og veginn,
en oft spanst út úr þessu fróðleg kenslustund.
Á Miklabæ var oft margt fólk, vinnufólk: 4—5 stúlkur,
2 vinnumenn og oftast einn ljettadrengur og svo fjöl-
skyldan. Auk þess voru oft piltar við nám hjá föður mín-
um. — Allir höfðu sínum vissu störfum að gegna. Kaupa-
fólk var ekki margt, oft einn kaupamaður og ein kaupa-
kona. — Jörðin var stór og mikil heyskaparjörð, engar
vjelar notaðar, og þurfti því mikinn vinnukraft til að
nytja hana. — Á veturna var unnið mikið, kembt og
spunnið, hver sat á sínu rúmi og vann að sinni vinnu.
Stúlkurnar sungu við rokkana og þeyttu kembunum alla
leið upp að þili, þegar vel lá á þeim og kemban var góð.
Á kvöldin sátu piltarnir líka inni, sjaldan iðjulausir, oft
að fljetta reiptögl eða kemba fyrir stúlkurnar, sjerstak-
lega var það eiginlega sjálfsögð skylda, að hver kembdi
fyrir sína þjónustu. — Stundum var lesið upphátt, en
stundum aðeins spjallað og raulað.
Á haustin vigtaði móðir mín ull handa hverjum fyrir
sig af heimilisfólkinu, var æfinlega byrjað á að vinna það
í sokka og vetlinga. Þegar því var lokið, sem oftast var
fyrir hátíðir, var farið að vinna til vaðmála. — Allir fengu
þá gefins að minsta kosti eina vaðmálsflík. — Kaupgjald
hefur þá líklega verið um eða lítið yfir 100 kr. yfir árið
hjá karlmanni, en 65 kr. hjá kvenmanni. Þætti það lítið
nú á dögum.
Jólin voru ætíð haldin mjög hátíðleg.