Hlín - 01.01.1942, Page 84
82
Hlín
legum böndum við heimili sitt, ann því hugástum og
helgar því orku Sína og alt líf.
Hin bestu og giftudrýgstu heimili eru altaf snúin af
snörum þáttum vökullar og fórnandi ástar. Það eru þeir
þættir, sem gera heimilið að heilögum, órjúfanlegum
vjeum, það er þeirra vegna, sem menn finna alveg sjer-
stakt öryggi og frið innan þeirra dyra, þar sem hver dvel-
ur með sínu fólki. — Hin gagnkvæma samúð er voldugur
kraftur og ljúft að njóta hennar, og í henni er fólgið afl
til uppbyggingar, nýsköpunar og viðreisnar.
Danska skáldið, Anker-Larsen, lýsir þessum töframætti
samúðarinnar ágætlega vel á einum stað í ritum sínum.
Kona, sem er listmálari, er að mála mynd af manni. —
Dag eftir dag hefur hann setið fyrir, og hún sekkur sjer
niður í viðfangsefni sitt, kafar djúpt niður í sál hans og
festir á ljereft það, sem hún sjer. — Smátt og smátt var
sem hulin hönd hefði knýtt þau fast saman.
Er myndin var fullgerð, stóð hann á fætur, horfir um
stund á hana og segir: „Ef jeg hefði altaf þessa mynd fyr-
ir augum, þá myndi hún geta bjargað sál minni!“
Ummæli þessi eru merkileg og í þeim mun fólginn
mikill sannleikur. — Samúðin kafar altaf langt niður í
hug þess, sem hún ann, og dregur fram alt það besta, er
hún finnur. — Ef við dveljum samtíða þeim, sem sýna oss
samúð, er sem vjer sjáum fegraða mynd af oss sjálfum í
augum þeirra. — Það er sem þeir sýni oss hvert oss beri
að stefna, og ósjálfrátt tökum vjer að vaxa í þá hæð.
Á þeim heimilum, þar sem samhugur er ríkastur, er
sem menn í opnum, falslausum augum vina sinna þar,
sjái málaða mynd af sjer, hvern drátt í þeirri mynd liefur
hið innra vinarþel dregið. — Og er vjer sjáum mynd vora
þar, í hinni voldugu skuggsjá samúðarinnar, er sem vjer
verðum ósjálfrátt að betri mönnum. Svo vjer skiljum vel
orð þess manns, sem sá á málaðri mynd alt það besta úr