Melkorka - 01.05.1944, Blaðsíða 12
ar húsmæður að geta starfað saman, og verður
það bezt gert með skipulagningu húsmæðrafélaga
og kvenfélagasambanda, þar sem málin væru
rædd og leiðir fundnar til þess að fá málin borin
fram til löggjafarþings þjóðarinnar.
Um snið hinnar nýju flíkur mun aftur á móti
standa styrr mikill, þar sem alþýðukonan, jafnt
í sveit og við sjó, og margar sjálfstæðar og hugs-
andi konur úr borgarastétt munu að lokum skipa
sér við hlið sjómanna, verkamanna, bænda og
menntamanna í baráttu hinna vinnandi stétta fyr-
ir nýju framleiðsluskipulagi, en auðmannskonan
og hin áróðursblindaða millistéttakona mun
fylgja manni sínum í þrárri mótspyrnu gegn hin-
um nýja tíma.
I sambandi við þau átök vil ég aðeins minna
ykkur á eitt — það — að nýtni er þá aðeins
dyggð, er lítið efni er fyrir höndum — við of-
gnótt efnis verður hún heimska.
Sömu laun fyrir sömu vinnu
Eftir Petrínu Jakobsson
Hvenær fáum við greidd sömu laun fyrir
sömu vinnu og karlar? Þannig spyrja stúlkur
oft. Ennþá eru það aðeins fáir, sem viðurkenna
rétt okkar til jafnra launa við karla.
Þegar við stúlkurnar tölum um það að við vilj-
um hafa jafnrétti við karla, þá er oft svarað:
„Nú, en þið hafið það.“ En við höfum það ekki,
t. d. ekki í launagreiðslum. Þá er venjulega sagt,
að þjóðfélagið gæti ekki borið slíkt.
„Ef konum væru greidd sömu laun, þá myndu
ennþá fleiri konur stunda launavinnu, við það
fylltist vinnumarkaðurinn, atvinnuleysi ykist,
kreppa kæmi fyrr, af kreppunni hlytist stríð, af
stríðinu hörmungar, og loks algjört hrun, lönd-
um væri eytt, og þjóðir dæju út....“ — Rök-
semdirnar eru eitthvað á þessa leið í öllum auð-
valdsheiminum.
Þegar fasisminn komst til valda, var það eitt
helzta „ágætið“ við hann að hann útrýmdi at-
vinnuleysinu. Ein aðalaðferðin til þess var ein-
mitt sú, að reka konurnar aftur í þá fjötra, sem
þær voru í, þegar þeim var haldið í fáfræði og
aðeins ætlað hið þrönga svið heimilanna. Með
því að fara frá heimilunum til vinnu, áttu þær
ekki aðeins að vanrækja helgustu skyldur sínar,
uppeldi barnanna, heldur áttu þær líka þar með
sök á því hörmungar ástandi, sem atvinnuleysið
leiddi yfir þjóðirnar. Þessi vopn lögðu fasistarn-
ir í hendur allra auðvaldsríkja, sem gripu þau
fegins hendi. Hér heima heyrðust háværar raddir
um það, að t. d. ætti að bánna öllum giftum kon-
um að vinna utan heimilanna. í beinu áfram-
haldi af þessum skoðunum eru svo launagreiðsl-
urnar. Stúlkum eru greidd svo lág laun, að þær
geta ekki lifað af þeim. Það er aðeins lítill liluti
af vinnandi stúlkum, sem eru bjargálna, þótt þær
hafi ekki nema sig eina að hugsa um. Þær, sem
hafa forefdra sína, systkini eða börn á framfæri,
eru í stöðugu basli, þótt þær vinni ötullega full-
an vinnudag og neiti sér um allan óþarfa og
skemmtanir.
Það á að heita svo, að stúlkur hafi sama rétt
og möguleika til skólagöngu, en ef við athugum
þetta nánar, þá vantar mikið þar á. Tökum t. d.
tvo unglinga, pilt og stúlku, sem stunda hér nám
að vetrinum í einum skóla bæjarins. Þau verða
bæði að kosta námið sjálf að mestu leyti. Pilt-
urinn hafði á þriðja þúsund krónur „fríar“ eftir
sumarvinnu sína, en stúlkan hafði uppihald sitt
og 700 hundruð krónur fyrir sama tíma. Þær
nægja henni ekki fyrir fæði skólatímann, hvað
þá heldur meiru. Hún verður því að stunda vinnu
með skólanum, og hefur því styttri tíma til
lesturs en pilturinn. — Sama máli gegnir um
8
MELKORKA