Heilbrigðismál - 01.03.1989, Síða 12
HEILBRIGÐISMÁL / Ljósmyndarinn (Jóhannes Long)
Fæðuóþol
Margir hafa ofnæmi eða óþol
fyrir efnum í fæðu
Grein eftir Davíð Gíslason
Fyrrum var maturinn fábrotinn á
nútíma mælikvarða og geymsluað-
ferðir einhæfar. Það sem ekki var
borðað nýtt var saltað, súrsað eða
þurrkað. Vandinn þá var að fá
næga orku og næg bætiefni úr
fæðu en ekki að gera hana sem
orkusnauðasta eins og nú er reynt.
Aukefni, í okkar skilningi, voru þá
óþekkt í fæðu. Öflun og neysla
fæðu var einnig með allt öðru sniði
en nú. Víða voru matföng keypt til
heimilisins tvisvar á ári, vor og
haust. Innflutt matvæli, svo sem
mjölvara og sykur, voru keypt í
sekkjum. Matmálstímar voru í
föstum skorðum og matar yfirleitt
ekki neytt þess á milli.
Á þessu hefur orðið mikil breyt-
ing. Geymsluaðferðir hafa gjör-
breyst, og frysting og kæling orðið
æ ríkari þáttur í geymslu matvæla.
Nær allur matur er keyptur í litlum
neytendaumbúðum. Oft er rot-
varnarefnum bætt í fæðu til að
gera hana endingarbetri. Auk þess
er bætt í fæðuna bragðefnum og
ýmiss konar öðrum efnum til að
gera hana samkeppnishæfari í
neyslusamfélagi okkar.
Ofnæmi fyrir ýmsum undir-
stöðutegundum matvæla hefur
verið vel þekkt allt frá því að
svissneski læknirinn von Pirquet
setti fram hugtakið ofnæmi (all-
ergi) árið 1906. Hins vegar beindist
athyglin ekki verulega að aukefn-
um í matvælum og hugsanlegum
ofnæmiseinkennum af þeim fyrr
en árið 1948, en þá lýsti Lockey
fjórum sjúklingum með ofsakláða
og þrem með astma en þeim
versnaði öllum við neyslu litarefna
og rotvarnarefna í mat.
Fæðuofnæmi, og raunar einnig
ofnæmi fyrir frjókornum, húsdýr-
um og maurum, er svokallað
bráðaofnæmi. Mótefnið sem þessu
ofnæmi veldur hafði í frum-
bernsku mannkynsins það hlut-
verk að verja fólk fyrir ýmiss konar
sníkjudýrum. Það hefur nú að
mestu glatað jákvæðri þýðingu
sinni, að minnsta kosti í okkar
heimshluta, en við sitjum uppi
með neikvæð áhrif þess, ofnæmið.
Margir kannast við einkennin
sem þessu fylgir: Kláði og útbrot í
húð (ofsakláði) eða afmyndandi
bjúgur, t.d. í augnlokum eða vör-
um (ofsabjúgur), hnerrar, nef-
rennsli, kláði og bjúgur í augum,
astmi, innantökur í kviðarholi eða
jafnvel bráðalost.
Fæðuofnæmi er algengast hjá
ungum börnum. Oftast valda of-
næminu þær fæðutegundir sem al-
gengastar eru í fæði barnsins, eink-
um kúamjólk og egg. Einnig er al-
gengt ofnæmi fyrir fiski, skelfiski,
mjölvöru, ávöxtum, grænmeti
(einkum grænum baunum), hnet-
um og kakói.
Þegar líkaminn myndar mótefni
fyrir einhverri fæðu (t.d. mjólk,
fisk eða eggjum) er um raunveru-
legt ofnæmi að ræða. Þau sjúk-
dómseinkenni sem aukefni í mat-
vælum valda eru alveg eins og of-
næmi, en ekki hefur tekist að sýna
fram á nein mótefni fyrir þeim. Or-
sakir einkennanna eru óþekktar.
Það er því talað um gerviofnæmi
eða óþol fyrir þessum efnum.
Stundum er fólk með meðfædd-
an eða áunninn skort á efnahvöt-
um sem nauðsynlegir eru til þess
að nýta ákveðna fæðu. Dæmi um
þetta er skortur á laktasa, sem
nauðsynlegur er til þess að geta
nýtt sér mjólk. Skortur á honum
veldur slæmum meltingartruflun-
um eftir mjólkurneyslu. Skortur á
laktasa er mjög algengur í þriðja
heiminum og á Grænlandi. Sjúk-
dómar í brisi og gallvegum geta
einnig valdið einkennum sem líkj-
ast ofnæmi eða óþoli fyrir mat.
í sumum fæðutegundum er mik-
ið af histamíni og getur það valdið
ofnæmislíkum einkennum hjá við-
kvæmu fólki. Dæmi um það eru
sumir ostar, spínat, skinka og nið-
ursoðinn fiskur. Annar matur eins
og skelfiskur og vín hefur bein
áhrif á svonefndar mastfrumur og
losar úr þeim histamín án þess að
mótefni komi þar við sögu.
Ofnæmi er greint með fernu
móti: í fyrsta lagi er nákvæm
sjúkrasaga ætíð mikilvægasti þátt-
urinn við ofnæmisgreiningu. í
öðru lagi eru gerð húðpróf, oftast
með svonefndri pikk-aðferð sem er
tiltölulega einföld og ódýr rann-
sókn og með henni er hægt að
prófa fjölda efna. Hins vegar er
ekki ætíð hægt að treysta henni
fullkomlega. f þriðja lagi er hægt
að mæla mótefni í blóðinu fyrir
einstökum fæðuefnum og er það
öruggari aðferð en pikk-prófið en
mjög dýr. Oft þarf að bíða vikum
saman eftir niðurstöðum. Þessi
rannsókn kallast RAST próf. í
fjórða lagi er hægt að gera þolpróf
þar sem sjúklingnum er beinlínis
gefið að borða það sem hann telur
sig ekki þola. Þessi rannsókn gerir
ekki greinarmun á raunverulegu
ofnæmi og óþoli. Hún er meðal
annars notuð við rannsóknir á
óþoli fyrir aukefnum í matvælum.
12 HEILBRIGÐISMAL 1/1989