Fréttablaðið - 17.02.2010, Blaðsíða 19

Fréttablaðið - 17.02.2010, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 17. febrúar 2010 3 Fyrsta ferðin verður farin síðla vors 2011 þar sem flogið verður til Alsír og siglt þaðan, eftir nokkurra daga dvöl, til Marseille í Frakklandi. „Hjördís Hilmarsdóttir hjá ÍT Ferðum hafði samband við mig síðastliðið haust en hún hafði lesið Reisubók Guðríðar Símonardóttur ásamt nokkrum vinkonum sínum. Sú hugmynd kom upp hjá þeim að gaman væri að feta í fótspor henn- ar líkt og ég gerði þegar ég var að safna efni í bókina,“ segir Steinunn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Reisubókin kveikir í fólki en ferða- lag á þessar slóðir er utan alfara túristaleiða. Þar sem Hjördís er í forystu fyrir ferðaskrifstofu hafði hún aðstöðu til að geta látið slíka ferð verða að veruleika. „Fólk sem vill ferðast á þessar slóðir getur ekki hoppað inn í ein- hverjar fyrirliggjandi ferðir heldur þarf að búa ferðina til sérstaklega. Þar sem slíkt er dýrt kom strax upp sú hugmynd að skipta ferðinni niður á nokkur ár, enda er um marga áfangastaði að ræða. Þegar Hjör- dís hafði samband við mig var tæpt ár síðan ég hafði farið öðru sinni til Alsír og ég þóttist sjá að það hefðu orðið hagstæðar breytingar á ýmsu í landinu, ferðamönnum í vil. Ástand- ið var allt annað en þegar ég kom þangað árið 2000, rétt eftir blóðuga borgarastyrjöld,“ segir Steinunn en hún og maðurinn hennar voru þá meðal fyrstu túrista sem komu til landsins eftir þá ófriðartíma. „Það sem blasti við núna síðast þegar ég fór var til að mynda glæsi- leg, alþjóðleg flughöfn sem sýnir að þeir eru að búa sig undir það að taka á móti fólki. Ég taldi því eftir síðari ferð mína að ég gæti mælt með því að ferð þessi yrði farin.“ Flogið verður til Algeirsborgar og dvalið í nokkra daga í námunda við gömlu borgina þar sem íslensku þrælarnir voru á 17. öld. Því næst er haldið í sólarhringssiglingu til Marseille, þar sem Guðríður og félagar fóru fyrst í land eftir að hafa lagt frá Alsír. Þaðan verður flogið heim en í öðrum áfanga, sem hefst í Marseille ári síðar, verður slóðin rakin yfir Suður-Frakkland, fótgangandi og með hægfara sam- göngutækjum, til Suður-Englands, þar sem þriðji áfanginn hefst árið 2013. „Almennt veit fólk ekki mikið um þessa atburði en ég finn það, bæði hjá þeim sem lesið hafa bókina, og hjá fólki sem hlýtt hefur á fyrir- lestra um efnið, að það vaknar oft ferðagleði hjá því, og ekki síður hjá útlendingum. Þannig hef ég tekið á móti tveimur hópum frá Noregi sem komu hingað bara til að sjá landið hennar Guðríðar Símonardóttur. Það er líka allt öðruvísi, og gaman, að ferðast undir svo þröngu sögu- legu sjónarhorni. Þannig er maður ekki að skoða allt, heldur fyrst og fremst að leita að minjum um þenn- an tíma og það er ótrúlega mikið af gömlu sviðsmyndinni til í Algeirs- borg og hluti hennar í dag orðinn að alþjóðlegum menningarminjum eftir samþykkt hjá Menningarstofn- un Sameinuðu þjóðanna.“ Steinunn segir að líta megi á Tyrkjaránið sem „fyrndan glæp“ sem umbreytist í framtíðarfeng fyrir íslensku þjóðina. „Þegar tím- inn hefur liðið og gróið yfir sporin verður þessi stóri atburður í Íslands- sögunni aðgöngumiði inn í fram- andi land og menningarheim. Það er ótrúlega margt að upplifa þarna, trúarbrögðin, sagan, andrúmsloftið og svo er lega borgarinnar ótrúlega falleg. Og ekki er síður dásamlegt að sigla á Miðjarðarhafinu.“ juliam@frettabladid.is Haldið á söguslóðir Guðríðar ÍT Ferðir munu á næstu þremur árum, í samvinnu við Steinunni Jóhannesdóttur rithöfund, bjóða upp á ferðir þar sem fetað verður í fótspor Guðríðar Símonardóttur, sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Áætlað er að fara í fyrstu ferðina síðla vors á næsta ári. Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur verður fararstjóri í Algeirsborg, Marseille og öðrum stöðum þar sem Guðríður Símonardóttir hafði viðkomu á 17. öld. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN Þeir sem dvelja um styttri tíma erlendis án þess að taka þar upp búsetu eða hefja störf halda almennt tryggingavernd sinni á Íslandi. Þó skiptir máli til hvaða lands er farið og í hvaða tilgangi. Ferðamaður í öðru EES-landi nýtur ákveðinna réttinda til læknishjálp- ar þar ef þörf krefur hjá hinu opin- bera heilbrigðiskerfi viðkomandi lands. Réttindin eru skv. EES-regl- unum um almannatryggingar. Til að tryggja sér rétt til aðstoðar þarf að framvísa Evrópska sjúkratrygg- ingakortinu. Vegna sjúkrakostnaðar erlendis getur einnig verið nauðsynlegt að kaupa ferðatryggingu hjá trygginga- félögum. Slíkar tryggingar greiða fyrir fleira en almannatrygging- ar gera, til dæmis kostnað vegna heimflutnings. Ferðamaður í öðrum lönd- um utan EES getur fengið hluta sjúkrakostnaðar síns endurgreidd- an hjá Sjúkratryggingum Íslands þegar heim kemur skv. ákveðn- um reglum. Hægt er að fá trygg- ingaryfirlýsingu hjá Sjúkratrygging- um Íslands ef ætlunin er að dvelja í löndum sem eru utan EES-svæð- isins. Þar kemur fram að viðkom- andi sé tryggður í almannatrygg- ingum á Íslandi og hvað slík trygg- ing felur í sér. Þess má geta að reglur um rétt ferðamanna til læknishjálpar erlendis eiga ekki við þegar um fyr- irfram ákveðna sjúkdómsmeðferð erlendis er að ræða eða þegar til- gangur farar er að fá læknismeð- ferð erlendis. Nánar má fræðast um réttindi ferðamanna á vef Tryggingastofn- unar www.tr.is. Hugað að heilsu utan landsteina MIKILVÆGT ER AÐ HUGA AÐ SJÚKRATRYGGINGUM ÁÐUR EN LAGT ER Í FERÐALAG. Rinspeed er svissneskt bíla- og far- artækjahönnunarfyrirtæki sem er þekkt fyrir frumlegar hugmyndir. Nýjustu afurðina, rafmagnsbílinn Rinspeed UC, ætlar fyrirtækið að kynna á bílasýningunni í Genf sem haldin verður bráðlega. Frá þessu er greint á vefsíðu www.fib.is. Bíllinn, sem er sagður tilbúinn til að fara í fjöldaframleiðslu, er 2,6 metra langur, fer 100 km á hleðsl- unni og kemst á 120 km hraða. Áhugaverðast er innra rými bílsins sem er allt hið frumlegasta. Ber þar hæst stýripinni sem kemur í staðinn fyrir hefðbundið stýri. Bíllinn er í raun hluti samgöngu- kerfis sem Rinspeed hefur hann- að. Ætlunin er að hann passi í sér- stök stæði um borð í járnbraut- arlestum sem hægt væri að nýta þegar ætlunin er að fara í lang- ferðir. Stýripinni kemur í stað stýris RINSPEED UC ER HUGMYNDABÍLL SEM VERÐUR KYNNTUR Á BÍLASÝN- INGUNNI Í GENF Á NÆSTUNNI. Innra rými Rinspeed UC er allsér- stætt. Rafmagnsbíllinn kemst upp í 120 km hraða.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.