Fréttablaðið - 21.08.2010, Síða 28
28 21. ágúst 2010 LAUGARDAGUR
„Nú er ég að fara að koma með
barnavörulínu, vonandi bara
fyrir jólin. Fólk sem er að nota
svona vörur vill náttúrulega líka
svona vörur fyrir börnin sín.“
segir Sóley Elíasdóttir, leikkona
og frumkvöðull, brosandi um leið
og hún býður blaðamann velkom-
inn á vinnustofu sína í Hafnar-
firði. Sóley stofnaði fyrirtækið
Sóley Organics haustið 2007 og
framleiðir snyrtivörur, smyrsl og
sjampó úr jurtum.
Sóley byrjaði framleiðslu
smyrsla úr íslenskum jurtum í
eldhúspottunum heima áður en
hún flutti sig um set í vinnustof-
una. „Ég flutti fyrirtækið hingað
og var með þetta í þessum stóru
pottum,“ upplýsir Sóley og bendir
með blálökkuðum vísifingrinum á
venjulega eldhúspotta sem standa
á eldavél í vinnustofunni. „Svo
færði ég mig yfir í þennan pott.“
Mun stærri pottur stendur í einu
horni vinnustofu Sóleyjar. „Núna
er framleiðslan á öðrum stað og
þetta er bara orðin skrifstofan.“
Mikill plöntuvirkniáhugi
Áður en Sóley stofnaði fyrirtækið
var hún leikkona sem lengi hafði
haft áhuga á plöntuvirkni. „Í raun
og veru hef ég alltaf haft mjög
mikinn áhuga á allri lyfjafræði
þó ég hafi ekki lært hana. Það var
það sem ég ætlaði alltaf að gera en
svo bara lenti ég í leiklist. Þegar
maður lendir í leiklist þá tekur
hún mann og á líf manns.“ Sóley
hóf leiklistarferil sinn ung í Kram-
húsinu. Hún segir að sér hafi legið
mikið á og fór átján ára í leiklist-
arnám í London. „Ég kláraði ekki
einu sinni stúdentspróf.“
Sóley lék í Borgarleikhúsinu í
fimmtán ár. „Ég er ekkert vond
leikkona en ég er ekkert sérstök
leikkona. Ég sá mig ekki verða
gamla í leiklist,“ segir Sóley og
heldur áfram: „Lífernið var líka
að drepa mig. Líf leikarans að
vera að vinna öll kvöld og allar
helgar. Það spilaði líka stóran þátt
hjá mér að ég er mikil skíðakona
og mig var búið að dreyma oft um
að fara til útlanda á skíði en ég gat
aldrei farið út af leikhúsinu.“
Fullt af hugmyndum
Sóley segist lengi hafa velt því
fyrir sér hvað hún vildi gera í
staðinn fyrir að vera leikkona.
„Ég er búin að vera með fullt af
hugmyndum um alls konar. Ég er
búin að stofna leikhóp í Hafnar-
firði sem er Hafnarfjarðarleik-
húsið í dag. Mér finnst ótrúlega
skemmtilegt að gera leikhús sem
ég held að breyti einhverju hjá
fólki, breyti þankagangi,“ útskýrir
Sóley og bætir af festu við að hana
hafi ekki lengur langað til að leika.
„Ekki á sviði, Guð minn góður! Ég
á náttúrulega mjög mikið af leik-
aravinum og ég finn alveg til með
þeim þegar þeir eru að fara út á
kvöldin að vinna. Kannski kemur
áhuginn svo aftur. Ég er til dæmis
að leika í sjónvarpsmynd núna,
reyndar bara einhverja tvo þrjá
daga.“
Eftir að Sóley ákvað að leggja
leiklistina á hilluna fór hún á nám-
skeið hjá Iðntæknistofnun sem hét
Stofnun og rekstur smáfyrirtækja.
Hún var í upphafi með aðra við-
skiptahugmynd en þá sem varð að
veruleika í kollinum. „Sem var of
stór í sniðum svo ég ákvað að gera
viðskiptaáætlun út frá græðinum
sem ég er búin að vera að gera í
mörg ár. Svo bara vatt þetta ein-
hvern veginn upp á sig,“ segir
Sóley brosandi.
„Ég byrjaði með tvær vörur,
KISStu mig og GRÆÐIR. Hug-
myndin var að það sem þú berð
á húðina er fæða fyrir húðina,“
segir Sóley en fyrirtækið býður
í dag ýmsar tegundir snyrtivara,
sjampó og smyrsl. „Þetta þróað-
ist bara í þessa átt. Ég er engin
snyrtivörukona en ég hef alltaf
hugsað vel um það sem ég set ofan
í mig. Ég er ekki snyrtifræðings-
týpa þótt ég leggi mikið upp úr því
að líta vel út og sé alveg skvísa.“
Skoðaði bækur og leitaði ráða
Vörurnar hefur Sóley þróað sjálf
og þær eru umhverfisvænar og án
aukaefna. „Hugmyndin var upp-
haflega að koma jurtunum sem
eru í GRÆÐI í sjampó. Þannig
byrjaði ég að reyna. Ég var að
reyna alls konar leiðir og þetta
var langt ferðalag. Ég skoðaði
alls konar bækur, leitaði ráða hjá
fólki og talaði við efnafræðinga
og lyfjafræðinga,“ segir Sóley og
bætir við að það séu mjög fáir sem
hafa þekkingu á hvernig hægt er
að búa til snyrtivörur án rotvarn-
arefna.
Svo byrjaði blöndunin. „Hvaða
olíur eru góðar til að setja á mig.
Hvaða olíur myndi ég vilja setja
ofan í mig, hvað gera þær fyrir
mig. Svo blandaði ég kannski þess-
um olíum saman og til þess að búa
til krem þarf að blanda vatni við
það og bæta vaxefni við í hrærivél.
Þannig byrjar þetta,“ segir Sóley
en virku efnin í snyrtivörum henn-
ar eru íslensku plönturnar. „Plönt-
urnar hafa einhverja ákveðna eig-
inleika, eins og birki, vallhumall
og víðir.“ Seinna bað hún vini og
vandamenn um að prófa vörurnar
sem tóku því allir vel og hún fann
fyrir miklum stuðningi.
Fyrsta lífræna vottunin
Plönturnar í vörum Sóleyjar eru
allar handtíndar. Sóley tínir þær í
landi Snorrastaða rétt hjá Laugar-
vatni, Vallarnesi og í Borgarfirði.
„Ég byrjaði bara hérna upp við
Kaldársel en ég er búin að tína úti
um allt,“ segir Sóley en fljótlega
munu vörur hennar fá fyrstu líf-
rænu vottunina. „Ég er að fá vott-
un fyrir eyGLÓ andlitskremin,
GRÆÐIR og KISStu mig, hrein og
nærð,“ segir Sóley og dýfir fingri
í eina snyrtivörukrukkuna og ber
kremið á hendur sínar. Hún heldur
svo frásögninni áfram. „Ég sótti
um lífræna vottun fyrir tveimur
árum fyrir landið sem ég tíni á.
Svo þurfti verksmiðjan að fara í
gegnum ferlið. Í rauninni er þetta
alveg rosalegt gæðaeftirlit. Það
er algjör gæðastimplun á vörur
að vera með vottun.“ Sóley stefn-
ir á að hafa barnalínu sína einnig
lífrænt vottaða.
Sóley segir fyrirtækið í stöðugri
mótun. Hún er þakklát fyrir að
fyrirtækið hafi ekki stækkað allt
of hratt í byrjun en hefur þó hún
fundið fyrir gríðarlegum áhuga
erlendis frá. „Ég var til dæmis
komin með mjög flottan dreifing-
araðila í Danmörku, þeir hættu
við þegar ég var komin hálfa leið
inn í Matas. Í rauninni sem betur
fer því það getur orðið fyrirtækj-
um að falli að stækka allt of hratt.
Ég er í ferli bæði í Bretlandi, Dan-
mörku og svo er ég að selja í eina
búð í Þýskalandi.“ Sóley er líka að
opna vefsíðu sem verður sölusíða
fyrir útlönd, www.soleyorganics.
com.
„Týpískur frumkvöðull“
En hvað hefur drifið þig áfram?
„Ég er bara með athyglisbrest og
smá ofvirk. Einhver sagði að ég
væri „týpískur frumkvöðull“, ég
fæ hugmyndir og geri eitthvað við
þær. Ég er svolítið fljótfær og bara
geri hlutina,“ segir Sóley um leið og
hún rennir sólgleraugunum fram
af enninu niður á nef, lokar svala-
hurðinni og kveður blaðamann á
þessum nótum: „Ég fer með það
sem ég ætla mér alla leið.“
Vildi ekki
verða gömul
í leiklistinni
Barnavörulína og lífræn vottun eru næstar á dag-
skrá hjá Sóleyju Elíasdóttur leikkonu og frum-
kvöðli. Sóley stofnaði fyrirtækið Sóley Organics
árið 2007. Marta María Friðriksdóttir hitti Sóleyju
og ræddi við hana um stofnun fyrirtækisins í eld-
húsinu í Hafnarfirði, leikhúsið og athyglisbrestinn.
FULL AF HUGMYNDUM UM ALLS KONAR „Einhver sagði að ég væri „týpískur frumkvöðull“, ég fæ hugmyndir og geri eitthvað við
þær.“ FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
EKKI HVÖTT Á LEIKLISTARBRAUTINA Eygló Hilmarsdóttir er tekin af leiklistinni
að sögn Sóleyjar hún er hér með samleikara sínum í Gauragangi, Sigurbjarti
Atlasyni. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Þrjár dætur Sóleyjar og eiginmanns hennar, Hilmars Jónssonar, leikstjóra
og leikara, hafa allar stigið sín fyrstu skref á leiklistarbrautinni. Sonurinn er
eini fjölskyldumeðlimurinn sem ekki hefur stigið á svið enn þá. „Börnin gera
náttúrulega það sem þau vilja gera en við erum ekki neitt sértaklega að
hvetja þau til þess að fara í leiklistina. Alls ekki.“
Eygló Hilmarsdóttir, dóttir þeirra hjóna, hefur verið áberandi síðustu mán-
uði vegna leiklistarinnar. Hún lék í Herranótt fyrr á árinu í LoveStar, verki
Andra Snæs Magnasonar og fer með hlutverk í kvikmyndinni Gauragangur
sem unnið hefur verið að í sumar. „Eygló er svolítið tekin af leiklistinni. Ég
hugsa að Eygló verði alveg örugglega leikari.“
Elsta dóttirin, Gígja Hilmarsdóttir, hefur minni áhuga en systir hennar á
leiklistinni en hefur þó stigið á svið. „Hún er samt mjög skapandi og listræn.
Ég trúi að hún gæti orðið leikstjóri eða textahöfundur. Hún er flink að setja
saman texta og ljóð. Hún er líka mjög flott á sviði en hefur meiri áhuga á að
verða hjúkrunarfræðingur eða sjúkraþjálfari núna. Íþróttirnar tóku yfir hjá
Gígju.“
Þórunn, yngsta dóttirin, hefur tekið þátt í tveimur leiksýningum. „Einni í
Þjóðleikhúsinu og hinni í Hafnarfjarðarleikhúsinu.“
Leiklistaráhuginn er í fjölskyldunni
Einhver sagði að ég
væri „týpískur frum-
kvöðull“, ég fæ hug-
myndir og geri eitt-
hvað við þær.