Morgunn - 01.06.1968, Page 58
Sveinn Víkingur:
Skyggnigáfan
Erindi flutt á fundi S. R. F. í. í Reykjavík 1967.
☆
Ég hef verið beðinn að segja hér nokkur orð áður en
skyggnilýsingar Hafsteins Björnssonar miðils hefjast, og er
mér ljúft að verða við þeim tilmælum.
Þegar við sjáum eða virðum fyrir okkur hlutina í kring
um okkur og umhverfið, þá gerist þetta, eins og við vitum,
með þeim hætti, að hlutirnir varpa frá sér því ljósi, sem á
þá skín. Og þegar þeir geislar hitta á ljósop augans, þá
speglast mynd hlutarins á bakhlið augans, líkt og gerist í
venjulegri ljósmyndavél. En um þennan flöt greinist sjón-
taugin, sem ber myndina eða áhrif hennar til heilans, og
um leið skynjum við þessa mynd með einhverjum þeim
hætti, sem við þó getum ekki fyllilega skýrt. Vitund okkar,
hugur eða sál gerir sér grein fyrir hlutnum, sér hann eins
og við köllum það, og þá fyrir utan okkur og á þeim stað,
sem hann raunverulega er. Við getum lýst honum og sagt frá
honum með orðum. Og horfi tveir eða fleiri menn á sama
hlutinn í senn í sæmilegri birtu eða dagsljósi, sjá þeir hann
mjög svipað, ef sjón þeirra er ógölluð, og lýsa honum á
sama veg.
Hinn skyggni eða ófreski maður hefur aftur á móti þann
hæfileika að geta, að minnsta kosti á stundum, séð fólk,
hluti, umhverfi, atburði og myndir, sem aðrir alls ekki sjá
eða skynja, þó þeir standi alveg við hlið hins skyggna og séu
með galopin augu. Það, sem hinn skyggni sér, er því ekki
raunverulegt í þeim skilningi, sem við erum vön að leggja
í það orð. Það er meira að segja alls ekki víst, að þeir sjái
slíkar sýnir með augunum. Margt bendir til, að svo sé ekki.