Morgunblaðið - 26.05.2009, Blaðsíða 28
28 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. MAÍ 2009
✝ Guðríður ÓlafíaErlendsdóttir
(Lóa) fæddist í
Reykjavík 25. júní
1932. Hún lést á gjör-
gæsludeild Landspít-
ala við Hringbraut 19.
maí síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Jóhanna Vigdís Sæ-
mundsdóttir hús-
freyja, f. 30. nóv-
ember 1899, d. 19.
nóvember 1981, og
Erlendur Ólafsson
sjómaður, f. 9. febr-
úar 1894, d. 30. ágúst 1980. Systur
Guðríðar eru Sigríður Theodóra, f.
16. mars 1930 og Guðrún, f. 3. maí
1936. Guðríður átti bróður, Ólaf, f.
3. maí 1936, d. 2. október 1940.
Eiginmaður Guðríðar er Gísli
Guðmundsson prentari, f. í Reykja-
Skúladóttur. Dætur þeirra eru a)
Auður Edda og b) Ásdís Lóa.
Guðríður lauk stúdentsprófi frá
MR 1954. Að því loknu hóf hún störf
sem ritari hjá O. Johnson & Kaaber
hf. Árið 1957 fluttist hún til Kanada
þar sem hún starfaði sem bókavörð-
ur við íslenskudeild háskóla-
bókasafns Manitoba-háskóla í
Winnipeg. Í Winnipeg kynntist Guð-
ríður eftirlifandi eiginmanni sínum,
Gísla. Þau fluttust aftur til Íslands
1962. Hún hóf störf sem einkaritari
hjá Heimilistækjum hf. árið 1972,
og starfaði þar til ársins 1999.
Á starfsárum sínum hjá Heim-
ilistækjum var Guðríður virk í fé-
lagsstarfi ritara, upphaflega í
Klúbbi ritara, og síðar með Íslands-
deild Evrópusamtaka ritara, EAPS
(European Association of Profess-
ional Secretaries), nú EUMA (Euro-
pean Management Assistants).
Guðríður hefur starfað und-
anfarin ár með Kvenfélagi Bústaða-
sóknar og var gjaldkeri félagsins
frá 2000 til 2005.
Útför Guðríðar fer fram frá Bú-
staðakirkju í dag og hefst athöfnin
kl. 13.
vík 14. október 1930.
Þau giftust 10. des-
ember 1960 í Winni-
peg í Kanada. For-
eldrar Gísla voru
Guðmundur Helga-
son, trésmiður, f. 27.
október 1888, d. 15.
júlí 1965 og Guðrún S.
Benediktsdóttir, hús-
freyja, f. 6. janúar
1896, d. 14. ágúst
1984. Börn Guðríðar
og Gísla eru: 1) Jó-
hanna Vigdís, f. 18.
apríl 1962, gift And-
rew Nobel. Börn þeirra eru a) Max
og b) Eva Vigdís. 2) Guðmundur, f.
17. mars 1965, kvæntur Hönnu
Steinunni Ingvadóttur. Börn þeirra
eru a) Helga Kristín, b) Gísli Þór og
c) Þórdís Rut. 3) Erlendur, f. 11.
desember 1966, kvæntur Kristjönu
Ég hef alla tíð talið mig einstak-
lega lánsama. Ekki minnkaði lánið
og lukkan er ég fékk fyrsta vinning
í lífsins lotteríi, er ég kynntist
manninum mínum, honum Erlendi.
Og það sem meira var, ég fékk tvö-
faldan vinning, því ekki var fjöl-
skylda hans síðri. Mér varð ljóst við
fyrstu kynni við tengdafjölskylduna
að einstakt og ástríkt samband ríkti
á milli þeirra og var mér strax tekið
opnum örmum. Þegar ég byrjaði að
leggja leið mína í Búlandið og sam-
band okkar Erlendar nýtt af nálinni
lagði Lóa sig í framkróka við að
draga fram alla kosti mannsefnisins
og þótti henni ekki leiðinlegt að
dásama litla drenginn sinn. Hún
hafði einstakt lag á að hrósa fólki
og gerði það óhikað. Margt gott er
hægt að segja um hana Lóu, enda
var hún yndisleg í alla staði, en það
er tvennt sem ég dáðist sérstaklega
að í hennar fari. Í fyrsta lagi sagði
hún aldrei styggðaryrði um nokk-
urn mann og aldrei heyrði ég hana
hallmæla nokkrum manni. Í öðru
lagi var hún alltaf svo ánægð með
sitt og sína, hvort sem um börn,
barnabörn eða skyldmenni var að
ræða. Það vafðist ekki fyrir henni
að dásama börnin sín sem og aðra
nákomna og hún hafði sérstakt lag
á að kalla fram hrós yfir til dæmis
barnabörnum. Hún sagði bara beint
við fólk: „Finnst þér hún ekki ynd-
isleg?“ og meinti það beint frá
hjartanu. Það fór ekki fram hjá
neinum að Lóa var sérstaklega elsk
að sínu fólki, hún var stolt og
ánægð eiginkona, móðir, tengda-
móðir, amma, systir og frænka.
Hún vildi öllum vel og bar hag ann-
arra ávallt fyrir brjósti. Hún var
sérstaklega jákvæð og kom það
berlega í ljós í veikindum hennar.
Það var ótrúlegt að fylgjast með
henni og sorgin því þess meiri við
fráfall hennar þar sem engan grun-
aði að endalokin væru svo nærri. Í
mínum huga er Lóa að fara langt
um aldur fram og dætur mínar eru
sammála því. Litla Lóa skilur ekki
óréttlæti heimsins því hún hafði
ætlað sér að gera nöfnu sína að
langömmu. En svona er lífsins
gangur. Ég er þakklát fyrir að hafa
kynnst henni Lóu sem án efa gerði
okkur öll að betri manneskjum.
Hvíl í friði, elsku Lóa mín. Þín
Kristjana.
Gísli bróðir okkar og Guðríður
Ólafía (Lóa) ólust upp í sama hverf-
inu í Austurbæ Reykjavíkur; hann
við Njálsgötuna og hún við Bar-
ónsstíginn.
Þau höfðu ekki kynnst á þeim ár-
um.
Það var fyrst um haustið 1959,
þegar Gísli réðst sem prentari við
blaðið Lögberg-Heimskringlu í
Winnepeg í Kanada, að leiðir þeirra
lágu saman. Lóa, eins og hún var
ávallt kölluð, hafði þá unnið við ís-
lenskudeild Háskólabókasafnsins í
Winnipeg í tæp þrjú ár. Vegir Guðs
eru órannsakanlegir.
Það varð mikil gleði í fjölskyldu
okkar, er fréttist um ráðahag
þeirra, en þau giftust árið 1960. Þau
fluttust aftur heim til Íslands árið
1962 með frumburð sinn, Jóhönnu
Vigdísi nokkurra mánaða gamla og
hófu búskap að Hjarðarhaga 58 í
Reykjavík. Þeim bættust síðar í
hópinn tveir efnilegir synir, Guð-
mundur og Erlendur.
Lóa gegndi næstu ár hinu mik-
ilvæga og sígilda hlutverki „hinnar
heimavinnandi húsmóður“ og hún
hélt vel utan um hópinn sinn, en
hún fór, nær fram liðu stundir, út á
vinnumarkaðinn.
Lóa hafði afar ákveðnar skoðanir
m.a. í jafnréttismálum, og hún lét
aldrei neitt trufla sig, hvorki í kven-
réttindamálum né öðru.
Lóa vandaði alltaf málfar sitt og
aldrei hrutu af vörum hennar
ógætileg orð eða særandi. Hún
hafði ríka réttlætiskennd og var
fundvís á hið jákvæða, ef á einhvern
var hallað. Gestrisni þeirra hjóna
var mikil og á heimili þeirra gistu
oft vinir frá árunum í Kanada, bæði
skyldir og óskyldir sem og aðrir.
Lóa kenndi sér lasleika á síðasta
ári. Henni var ekki gjarnt að ræða
það, en fyrir fám vikum fór heilsu
hennar ört hnignandi, þannig að
ekki varð við neitt ráðið, og hún lést
á Gjörgæsludeild LHS h. 19. þ.m.
Guðríður Ó. Erlendsdóttir, mág-
kona okkar, sem í dag er til moldar
borin, var okkur í stórfjölskyldunni
ævinlega mikill gleðigjafi, og eru
hér þakkaðar þær mörgu ánægju-
stundir, sem við áttum með henni,
bróður okkar og fjölskyldum barna
þeirra. Við minnumst hennar með
djúpri virðingu og þakklæti.
Megi hún vera á Guðs vegum.
F.h. systkina Gísla Guðmunds-
sonar,
Guðfinna.
Í dag kveðjum við ástkæra mág-
konu sem kvaddi okkur á sólríkum
sumardegi eftir stutt veikindi. Lóa
var heilsuhraust alla tíð, því kom
það okkur á óvart þegar Lóa veikt-
ist skyndilega fyrir nokkrum vik-
um. Okkar fyrstu kynni af Lóu voru
árið 1962 þegar hún ásamt Gísla
bróður mínum fluttist frá Kanada
til Íslands með frumburðinn en þá
var Jóhanna einungis nokkurra
mánaða gömul. Fjölskyldunni varð
það ljóst við fyrstu kynni af Lóu að
þarna var á ferð glæsileg og heil-
steypt kona sem var hvers manns
hugljúfi. Fyrstu hjúskaparárin
bjuggu þau hjónin í Hjarðarhag-
anum og þar bættust bræðurnir
Guðmundur og Erlendur í hópinn.
Síðar byggðu þau glæsilegt raðhús í
Fossvogsdal þar sem þau bjuggu til
margra ára. Þar var oft glatt á
hjalla í þeim fjölmörgu jólaboðum
sem haldin voru hjá þeim hjónum
og var gestrisni þeirra alveg ein-
stök. Við fráfall Lóu er margs að
minnast og njótum við sem eftir lif-
um þess að hafa fengið að kynnast
þessari yndislegu konu. Við sendum
Gísla og börnum þeirra okkar inni-
legustu samúðarkveðjur og biðjum
guð að styrkja þau á þessum erfiðu
tímum.
Eðvarð Guðmunds-
son og fjölskylda.
Skarð er nú höggvið í okkar sam-
hentu og kærleiksríku fjölskyldu
við andlát Lóu, móðursystur minn-
ar. Við vonuðum til hinstu stundar
að lífið sigraði en varð ekki að ósk
okkar. Sigga, Lóa og Rúna, syst-
urnar á Barónsstíg. Samband
þeirra var einstakt, þær mótuðu líf
okkar og hafa kennt okkur afkom-
endum sínum að við erum alltaf að
búa til minningar. Að við eigum að
skipta okkur af hvert öðru og vera
nákomin er lífsviðhorf sem smitar
út frá sér. Við erum lánsöm að fá
slíkan arf.
Þær eru ótal minningarnar sem
ég á með Lóu frænku minni. Ég er
elsta barnabarn foreldra Lóu, Er-
lendar Ólafssonar og Jóhönnu Vig-
dísar Sæmundsdóttur, og naut þess
að eiga Lóu og Rúnu, tvær ógiftar
og barnlausar móðursystur fyrstu
árin. Þær kenndu mér svo margt,
sögðu mér frá styttum bæjarins,
lásu fyrir mig bækur og við horfð-
um saman á „sólskinið á gangstétt-
unum ljóma“. Það er dýrmætt vega-
nesti í lífinu.
Lífsförunaut sínum honum Gísla
kynntist hún í Kanada. Það er erfitt
að hugsa sér annað án hins, svo
samhent voru þau í lífinu. Nutu
þess að ferðast vítt um lönd og
heimsóknir til dótturinnar og fjöl-
skyldu hennar í Bandaríkjunum
voru fjölmargar í tímans rás. Lóa
var í raun heimakær heimskona.
Þegar ég eignaðist frumburð
minn, Sigríði Theódóru, var heimili
Lóu og Gísla griðastaður sem við
báðar nutum góðs af. Þá voru enn
allmörg ár í fyrsta barnabarn Lóu
og Gísla. Hún var nefnilega þeirrar
gerðar að hún ræktaði allt sitt um-
hverfi og forgangsraðaði rétt. Hjá
Lóu var fólk í fyrirrúmi. Hún var
ekki ein af þeim sem eru alltaf að
tala um hlutina heldur gekk hún
beint til verks enda óverkkvíðin
eins og hún átti kyn til. Lóa var allt-
af nálæg og ást hennar á okkur
leyndi sér ekki – það sýndi hún svo
sannarlega bæði í orði og verki.
Síðustu vikurnar sem hún lifði end-
urtók hún það oft og við gátum
einnig tjáð henni okkar tilfinningar
til hennar. Það veitir yl nú á sorg-
arstundu.
Annað sem einkenndi Lóu var
sterk réttlætiskennd. Gjör rétt, þol
ei órétt – og vertu sjálfum þér trúr.
Hún var jafnaðarmanneskja í
hjarta sínu. Réttlætiskenndin gat
að vísu jaðrað við þrjósku enda var
Lóa af þrjóskustu ætt landsins.
Hún gat verið föst fyrir og hélt sínu
striki. Hún verndaði sitt fólk af
mikilli ástríðu og vakti yfir velferð
okkar. Við biðjum Guð að vernda
og blessa minningu hennar.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Kveðja frá Óla, Buddu
og Hönsu
Sigga, Lóa, Rúna. Alltaf er talað
um þær systur í sömu andrá. Enda
hafa þær verið einstaklega sam-
rýndar allt frá fyrstu tíð. En nú er
stórt skarð fyrir skildi, þegar Lóa
móðursystir okkar er horfin á
braut. Hún hafði átt við nokkra
vanheilsu að stríða um skeið en að
undanförnu höfðum við haft svo
góðar vonir um að heilsan væri að
koma til baka. Lóa var sjálf full
bjartsýni og sá fram á að hafa aftur
fullt þrek til að njóta lífsins með
Gísla sínum, börnum og barnabörn-
um. Svo dró skyndilega ský fyrir
sólu. Ekki varð við neitt ráðið. Á
örfáum dögum var hún öll.
Við systkinin, börn Rúnu, eigum
einstaklega ljúfar minningar um
Lóu – já, um Lóu og Gísla. Rétt
eins og talað er um Siggu, Lóu og
Rúnu í sömu andrá er alltaf talað
um Lóu og Gísla. Þau hjónin hafa
alltaf verið í huga okkar sem eitt.
Ástin, virðingin og vináttan ein-
kenndu þeirra hjónaband. Hvar
sem Lóa og Gísli komu stafaði af
þeim hlýja og vellíðan. Ekki voru
þau að trana sér fram. Þau þurftu
þess ekki. Lóa var ætíð óaðfinn-
anlega klædd og vel til höfð. Hún
var ekki að eltast við tískuna. Var
bara stórglæsileg kona sem hafði
þennan klassa, sem ekki er öllum
gefinn.
Það var alltaf stutt í glettnina hjá
henni Lóu. Alltaf einhver glettn-
isglampi í augum. Og hún kunni að
gleðjast, bæði að taka þátt í gleði
annarra og útdeila gleði. Það var
gaman að heimsækja þau hjónin.
Lóa og Gísli voru höfðingjar heim
að sækja hvort heldur sem var
heima eða uppi í sumarbústað. Við
eigum margar góðar minningar úr
Búlandinu á fallegu heimili Lóu og
Gísla. Þar vorum við oft næturgest-
ir sem börn, enda erum við frænd-
systkinin á svipuðu reki, og alltaf
var það ævintýri. Oftar en einu
sinni passaði Lóa okkur þegar for-
eldrar okkar fóru til útlanda. Þetta
voru góðir dagar.
Lóa var hvers manns hugljúfi en
hún var mjög sjálfstæð og hafði
ákveðnar skoðanir. Á æskuheimili
sínu drukku þær systur, Sigga, Lóa
og Rúna í sig gagnrýna hugsun og
hlýhug til Alþýðuflokksins. Afi Er-
lendur var einn þeirra, sem nutu
góðs af Vökulögum Jóns Baldvins-
sonar. Kaus hann ávallt Jón Bald-
vinsson, jafnt eftir að hann var
horfinn af sviðinu. Af systrunum
þremur var það Lóa sem mest
hneigðist að stefnu jafnaðarmanna
en allar hafa þær ríka réttlætis-
kennd því lengi býr að fyrstu gerð.
Það var gaman að fylgjast með
samræðum þeirra systra, sem í
áratugi hafa hist í næstum hverju
einasta hádegi heima hjá Siggu.
Þær tókust oft á um málefni líðandi
stundar og Lóa lá ekki á skoðunum
sínum. Hjarta hennar sló í takt með
þeim, sem minna mega sín.
Lóa var einhver traustasta og
besta frænka, sem hægt er að
hugsa sér. Eftir að við komumst á
fullorðinsár og eignuðumst okkar
fjölskyldur hefur hún verið börnum
okkar eins og auka amma. Á öllum
afmælum og jólum, líka þegar við
bjuggum erlendis, komu gjafir frá
Lóu frænku til þeirra – valdar af al-
úð og innsæi.
Mikill er missir Gísla og Jó-
hönnu, Guðmundar og Erlendar og
þeirra fjölskyldna. Við biðjum guð
að styrkja þau í sorg sinni. Minn-
ingin um einstaka konu lifir.
Ólafur, Guðrún Sesselja og
Jóhanna Vigdís Arnarbörn.
Örfáum dögum áður en Lóa
frænka mín dó sat ég hjá henni og
Gísla og við áttum saman notalega
stund. Þau sögðu mér að Jóhanna
Vigdís dóttir þeirra og nafna mín,
búsett í Bandaríkjunum síðastliðin
23 ár, kæmi heim 11. júní. Ég sagði
frábært, Guðrún Sesselja, Budda
frænka, lyki hrl-prófinu sínu dag-
inn eftir og þess vegna myndi Jó-
hanna ná í veisluna sem haldin yrði
af því tilefni! Eftirvæntingin lá í
loftinu og ef Lóa kæmist ekki til
veislunnar myndum við bæta okkur
það upp síðar.
Þessa stund geymi ég sem dýr-
mætan eðalstein í hjarta mínu.
Aldrei hefði mig órað fyrir því að
þetta væri okkar síðasti fundur. Við
sem vorum að skipuleggja framtíð-
ina og þrifin á íbúðinni sem yrðu að
vera afstaðin þegar hún kæmi
heim. Það sannar fyrir manni enn á
ný hverfulleika lífsins og að enginn
ræður sínum næturstað.
Lóa frænka mín var einstök og
yndisleg móðursystir. Hún hefur
alltaf verið hreinskiptin og haft
mótaðar skoðanir á mönnum og
málefnum og tók jafnan málstað
þess sem minna mátti sín. Hún var
alltaf í fremstu röð í öllu því sem
hún tók sér fyrir hendur og sinnti
hún því af alúð og samviskusemi.
Gæfukona var hún í lífinu sjálfu og
þeir voru lánsamir sem gátu talið
hana Lóu frænku mína vin eða
samstarfsmann. Að eiga vináttu
Lóu var einstakt bakland. Við fjöl-
skyldan fórum ekki varhluta af
trygglyndi hennar, ræktarsemi og
umhyggju sem hún átti í svo ríkum
mæli.
Í þessar þrjár vikur sem Lóa lá á
Landspítalanum lét hún svo sann-
arlega í ljós skilyrðislausa ást sem
hún alla tíð bar til okkar systk-
inabarnanna og barna okkar. Hún
fagnaði okkur jafnan og lýsti upp
veröld okkar og það ljós mun fylgja
okkur allar götur, alla tíð.
Systurnar Siggu, móður mína,
Lóu og Rúnu tengdi alla tíð næst-
um sýnilegur þráður. Aldrei hef ég
séð fallegra samband systkina, það
var einstakt og reglulegir hádeg-
isfundirnir heima eru skemmtileg-
ir, fróðlegir og raunar til fyrir-
myndar. Þar er slegin skjaldborg
um fjölskylduna og það gefur öllum
styrk.
Gísli var maðurinn í lífi Lóu og
Lóa var konan í lífi hans. Þau voru
eitt í mínum huga alla tíð. Þau
kynntust í Kanada, ótrúlegt en satt
því bernskuheimili beggja stóðu
skammt frá hvort öðru í austurbæ
Reykjavíkur. Áralöng dvöl hennar í
Kanada setti mark sitt á hana alla
ævi. Í Kanada fæddist frumburður
þeirra Jóhanna Vigdís. Á eftir
fylgdu synirnir Guðmundur og Er-
lendur hvor á sínu árinu. Barna-
börnin eru sjö og öll eru þau mikil
ömmubörn. Sjá þau nú á eftir ein-
stakri og umhyggjusamri ömmu.
Guð varðveiti minningu Lóu og
gefi Gísla og fjölskyldunni allri
styrk á sorgarstundu. Minningin
um einstaka konu lifir áfram.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir.
Saman við áttum sannan auð,
samheldnar frænkur í gleði og nauð.
Frá æskunnar morgni og
uppvaxtarstað,
einlæg sú gleði’ er ég hugsa um það.
Samúðarkveðju ég senda vil þér,
sorgin er djúp í lífi hér.
Fögur sú minning sem fjölskyldan á,
um fallega sál og gleði á brá.
Treystu á Hann sem tekur öll völd,
og tekur á móti við ævinnar kvöld.
Hann þjáningu linar og þrautir ber,
hann þerrar hvert tár af hvarmi þér.
(S.G.S.)
Guð geymi ykkur öll, elsku fjöl-
skylda.
Sigríður Th. Guðmundsdóttir
(Teddý) og fjölskylda.
Guðríður Ó.
Erlendsdóttir
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800