Morgunblaðið - 01.07.2009, Page 28
28 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 1. JÚLÍ 2009
✝ Rósa Halldórs-dóttir fæddist í
Reykjavík 2. janúar
1947. Hún lést á Líkn-
ardeild Landspítalans
í Kópavogi 21. júní
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Halldór Dagbjarts-
son, f. 4. nóvember
1911, d. 31. desember
1986 og Áróra Hall-
grímsdóttir, f. 5. sept-
ember 1921 d. 18. júlí
2001. Systkini hennar
eru: Haukur Sævar, f.
21. mars 1952, Stella Björk, f. 5.
ágúst 1957: Systkini hennar sam-
feðra eru: Jóhanna Ósk f. 1936 og
Eyjólfur f. 1939, d. 2005.
Rósa giftist 15. nóv-
ember 1969 Sæmundi
H. Sæmundssyni
húsasmíðameistara f.
17. maí 1950. Börn
þeirra eru: a) Halldór
Már, f. 1971, kvæntur
Hrund Pálmadóttur.
Hann á þrjár dætur
Áróru Ósk, f. 1992,
Rósu, f. 1996, og
Vöku, f. 1998. b) Elm-
ar, f. 1976 kvæntur
Eddu Johnsen. Hann
á einn son, Nökkva
Dag, f. 2006. c)
Telma, f. 1981.
Útför Rósu verður gerð frá Bú-
staðakirkju í dag, 1. júlí, og hefst
athöfnin kl. 13.
Elsku mamma.
Allar þær minningar sem nú
koma til okkar eru ekki bara marg-
ar heldur eru þær af öllum toga og
fá okkur til að brosa, hlæja og tár-
ast, jafnvel allt í senn. Það er erfitt
að koma í orð hinstu kveðju til þín
enda er það óbærileg tilhugsun. Við
munum muna þig eins og þú varst
hverju okkar, um alla tíð og aldrei
gleyma enda vitum við að þú verður
hjá okkur og við verðum hjá þér.
Takk fyrir ástina, uppeldið, sam-
veruna og styrkinn sem við fengum
í ómældu magni, það eru þau ein-
kenni úr þínu fari sem munu lifa
áfram í okkur og börnum okkar um
ókomna tíð.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Halldór, Elmar og
Telma Rósubörn.
Bjartur var morgunn
bjartari dagur
langur og himinheiður.
Kvöldsett er orðið
kemur senn nóttin
með djúpan, draumlausan svefn.
Ljúf er hvíldin
eftir liðinn dag
í faðmi fósturjarðar.
Líknsöm er moldin
meinin hún hylur
öllum býr eilífa ró.
(Þorvaldur Sæmundsson.)
Þessar ljóðlínur lýsa í fáum orð-
um æviskeiði sem nú er á enda. Við
hjónin áttum margar góðar og
bjartar stundir með henni Rósu
sem við kveðjum í dag. Við áttum
líka með henni eftirminnilegar
stundir eftir að hún hóf sitt mikla
stríð. Hún sýndi ótrúlegan styrk og
æðruleysi í veikindum sínum. Var
ekki að kvarta en svaraði á raun-
sæjan hátt ef spurt var um líðan
hennar. En nú er komið að leið-
arlokum og er þá vert að þakka fyr-
ir allar samverustundirnar hvort
sem var norður við Laxárvirkjun, á
Kanaríeyjum, austur í bústað
þeirra hjóna á Þingvöllum eða aðr-
ar góðar samverustundir innan fjöl-
skyldunnar. Alltaf sama létta við-
mótið og hlýjan.
Elsku Sæmundur, sem ert búinn
að standa af heilum hug og hjarta
með henni í veikindunum, við send-
um þér, börnum þínum og fjöl-
skyldum þeirra okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Minning hennar lifir meðal okk-
ar.
Laufey og Ólafur.
Þegar sól var hæst á lofti –
lengstur dagur ársins, fór Rósa
„amma“ til englanna. Það er hugg-
un harmi gegn að Rósa fékk að vera
meðal engla, jarðneskra engla, áður
en hún kvaddi þetta jarðneska líf.
Lísbet litla dóttir mín er of ung til
að skilja hvað gerst hefur en gleðin
leyndi sér ekki í augum hennar
þegar ég sagði henni fyrir svefninn
frá því að Rósa „amma“ væri farin
til englanna. Lísbet litla ljómaði og
sagði; „Rósa amma upp til engla“,
benti upp og brosti allan hringinn.
Minningarnar sem hún skildi eftir
handa okkur, stundirnar þar sem
hún kenndi mér og litlu Lísbet sitt
hvað um lífið og tilveruna, koma til
með að lýsa upp okkar tilveru
áfram. Það að elska er yfir jarð-
neskt líf hafið og er óháð því hvort
við séum að koma eða fara úr þessu
lífi.
Takk fyrir að elska okkur, Rósa
„amma“, þú ert og verður elskuð
áfram.
Ýmir og Lísbet litla.
Ég var svo lánsöm í æsku að
dvelja á heimili ykkar Sæmundar í
tvö sumur, þá 11 og 12 ára gömul, í
vist eins og það var kallað í þá daga.
Verkefnið var að passa hann Elmar
minn og auðvitað að leika við og líta
eftir Halldóri í leiðinni. Fyrst
bjugguð þið í Hraunbænum en síð-
ar í Melgerðinu og minnisstæðar
eru vikurnar þrjár sem ég dvaldi í
Skipasundinu hjá þeim heiðurs-
hjónum Halldóri og Áróru. Ég
gerði mér ekki grein fyrir því þá að
ég var auðvitað í pössun hjá ykkur
líka en á þeim árum taldi maður sig
í fullorðinna manna tölu á þessum
aldri. Þið hjónin eruð einnig hluti af
öðrum æskuminningum mínum og
má þar sérstaklega nefna ánægju-
legar minningar sem við systkinin
eigum tengdar sumrinu góða með
ykkur og fleiri ættingjum við Lax-
árvirkjun árið 1975.
Ég hef oft sagt það síðar á lífs-
leiðinni að það hefur verið gæfa mín
að hafa verið umkringd sterkum og
merkilegum konum. Þú varst svo
sannarlega ein af þeim og í tímans
rás urðum við miklar vinkonur, gát-
um rætt allt sem við þurftum að
ræða og skildum hvor aðra vel. Þú
bjóst yfir þeim mannkostum sem ég
virði mest. Þú varst fyrst og fremst
heiðarleg og hreinskiptin og svo
einstaklega skemmtileg og glaðvær.
Síðustu misserin brostir þú oft í
gegnum tárin í glímunni við erfiðan
sjúkdóm og minnist ég þess þegar
við hlógum að því ekki alls fyrir
löngu að við hefðum báðar gerst
„Bond“ stúlkur á gamals aldri,
hefðum báðar snætt hádegisverð
með fyrrverandi James Bond leik-
ara, með fleira fólki reyndar og af
ólíku tilefni.
Þið hjónin hafið allaf verið nálæg
á stóru stundunum í mínu lífi og nú
síðast er við gerðumst nágrannar í
Bláskógabyggð á Þingvöllum. Þar
ætluðum við að eiga góðar stundir
saman í gönguferðum og við ljós-
myndun, en sú samvera bíður um
sinn. Þín verður þó ætíð minnst
þegar hellt verður uppá á Þingvöll-
um á könnuna góðu sem þú færðir
okkur hjónunum um síðustu jól.
Það verður sérstakt í framtíðinni
að nefna ekki nöfn ykkar hjóna,
Rósa og Sæmundur, í sömu andrá,
en það tel ég einmitt vera til marks
um hvað þið voruð samrýmd og
miklir sálufélagar alla tíð. Við
systkinin vottum kærum föðurbróð-
ur, Halldóri Má, Elmari, Telmu og
fjölskyldunni allri innilega samúð.
Síðasta sumarrósin
sölnaði í frostinu í nótt
blöðin til foldar féllu
og feyktust með vindum skjótt.
Hverfult er blómið blíða
og blikið sem fegurst skín.
Rósin mín, rósin mín rjóða
í rökkrinu hvarfstu mér sýn.
Öllu er skapað að skilja
er skín á himinsins ljós,
jafnt eikin hin forna fellur
sem fegursta heimsins rós.
(Þorvaldur Sæmundsson.)
Hafdís Ólafsdóttir.
Það var á árunum 1963-4 sem
leiðir okkar allra lágu saman. Við
komum hver úr sinni áttinni og vor-
um í síðasta árgangi Gagnfræða-
skóla verknáms við Brautarholt.
Þarna bundumst við vináttuböndum
sem hafa haldist allt til dagsins í
dag. Strax að lokinni útskrift
ákváðum við að halda hópinn og
stofna saumaklúbbinn Hægfara
nálar. Við fórum líka reglulega út
að skemmta okkur, einar og síðar
með mökum, og áttum saman
ógleymanlegar stundir. Sauma-
klúbburinn hefði varla staðið undir
nafni ef Rósa hefði ekki verið með
því hún mætti alltaf með handa-
vinnuna sína á meðan við flestar
létum samveruna nægja. Rósa var
reyndar alltaf mikil handavinnu-
kona og eftir hana liggja ótal list-
ræn verk. Undir lokin, fárveik og
máttfarin, málaði hún t.d. á lampa.
Auðvitað þynntist hópurinn því leið-
ir okkar lágu í ýmsar áttir en alltaf
hélst gamli kjarninn.
Rósa átti stóran þátt í að við-
halda hópnum og hóa í gamlar
skólasystur sem ekki höfðu verið
með frá byrjun. Hún var sú sem
hafði frumkvæðið, skipulagði stór-
viðburði og sá til þess að allt gengi
upp á útskriftarafmæli. Hún var fé-
lagslynd, vinamörg og virkur þátt-
takandi í öllum félagahópum. Hún
eignaðist frábæran eiginmann, Sæ-
mund. Samband þeirra var einstak-
lega fallegt og þau voru höfðingjar
heim að sækja. Börn þeirra Sæ-
mundar og Rósu, Halldór, Elmar
og Thelma bera öll foreldrum sín-
um gott vitni, þau eru einstaklega
opnir og hlýir einstaklingar sem
kom berlega í ljós á síðustu mán-
uðum í lífi Rósu. Það fór heldur
ekki framhjá okkur hve annt Rósu
var um barnabörn sín og hve mik-
inn hlýhug hún bar til tengdabarna
sinna og sinna nánustu.
Við sendum fjölskyldu Rósu okk-
ar innilegustu samúðarkveðjur og
þökkum henni samfylgdina.
Fyrir hönd saumaklúbbsins
Kristín, Elín, Oddný,
Margrét og Rósa G.
Í dag kveðjum við okkar elsku-
legu vinkonu Rósu. Á sumarsólstöð-
um lauk baráttu hennar við þann
sjúkdóm sem hún átti við að stríða
undanfarin ár. Hún var umvafin
Sæmundi sínum, börnum og fjöl-
skyldu sem gerðu allt sem í þeirra
valdi stóð til að létta henni róð-
urinn.
Rósa var ein af Perlunum, en svo
nefnist vinkonuhópurinn sem
myndaðist þegar eiginmenn okkar,
Svitabræður eins og þeir kalla fé-
lagsskapinn, hófu að hittast einn
laugardag í mánuði fyrir hartnær
tveimur áratugum.
Við höfum nú misst mikilvægan
hlekk í því vinabandi sem hnýtt var
í upphafi og eftir stöndum við sorg-
mædd og horfum yfir farinn veg lið-
inna ára.
Nú er það í hlutverki þessa ein-
staka vinahóps að hlúa vel að Sæ-
mundi vini okkar og halda í heiðri
minningu Rósu sem svo allt of fljótt
kvaddi þessa jarðvist.
En minningarnar lifa í hugum
okkar allra.
Við minnumst leikhúsferðanna,
Vínartónleikanna og ekki síst heim-
boðanna hjá hverju öðru þar sem
við áttum notalegar stundir við
veisluborð.
Við minnumst ferðalaganna í
Skorradalinn, að Rangá, í Hval-
fjörðinn og Grímsnesið þar sem
glatt var á hjalla, dillandi hlátur,
glens og gaman.
Við Perlurnar áttum svo okkar
prívatstundir saman fyrsta laugar-
dag hvers mánaðar og þá var stefn-
an jafnan tekin á miðborgina.
Við minnumst ferðanna í konu-
búðirnar þar sem við skoðuðum,
mátuðum og keyptum gjarnan, gáf-
um álit okkar á sniði, efni og lit og
vorum harla ánægðar með okkur ef
vel gekk. Rósa var smekkleg og
nösk á hlutina enda listhneigð og
mikil hannyrðakona.
Við minnumst heimsókna á lista-
söfnin, kaffihúsin og veitingastað-
ina þar sem við nutum þess að vera
saman, borða góðan mat og ræða
mál líðandi stundar. Ekki spillti
fyrir ef eftirrétturinn var ekta
súkkulaðikaka með rjóma en fyrst
þá var máltíðin fullkomin.
En umfram allt minnumst við
einlægrar vináttu við konu sem
okkur þótti svo undurvænt um.
Vertu Guði falin, elskulega Rósa.
Já, þannig endar lífsins sólskinssaga.
Vort sumar stendur aðeins fáa daga.
En kannske á upprisunnar mikla
morgni
við mætumst öll á nýju götuhorni.
(Tómas Guðmundsson.)
Okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur sendum við Sæmundi, Halldóri,
Elmari, Telmu og öðrum ástvinum
og biðjum algóðan Guð að veita
styrk á erfiðum stundum.
Ásta og Ævar, Elín og Ást-
björn, Elísabet og Aðalsteinn,
Guðmunda og Bragi, Gunnhild
og Finnbogi, Sigrún og Árni,
Unnur og Steindór.
Enn á ný kveðjum við Sinawik-
konur eina af félagskonum okkar og
kæra vinkonu, Rósu Halldórsdótt-
ur.
Rósa gekk í Sinawik í Reykjavík
fyrir um þrjátíu árum síðan þegar
eiginmaður hennar, Sæmundur Sæ-
mundsson, gekk til liðs við Kiwanis-
hreyfinguna. Rósa tók strax virkan
þátt í öllum störfum félagsins, sat í
stjórn þess mörgum sinnum og var
ævinlega tilbúin að leggja lið væri
til hennar leitað. Hún hafði einlæg-
an áhuga á að allt væri vel og rétt
gert í störfum félagsins og leið-
beindi gjarna þar um. Rósa barðist
hetjulegri baráttu í mörg ár við
sjúkdóminn, sem hafði betur að lok-
um en lét veikindin ekki hindra sig í
að taka þátt í viðburðum hvort sem
var í Kiwanishreyfingunni með eig-
inmanni sínum eða í Sinawik, svo
fremi hún mögulega gæti. Það verð-
ur tómlegra á fundum okkar þegar
Rósa mætir ekki lengur.
Við Sinawikkonur kveðjum vin-
konu okkar með virðingu og þökk
og sendum Sæmundi og fjölskyld-
unni samúðarkveðjur.
F.h. Sinawik í Reykjavík
Sjöfn Ólafsdóttir form.
Elskuleg vinkona okkar, Rósa
Halldórsdóttir, er látin eftir erfið
veikindi.
Aldrei er maður tilbúinn að heyra
lát góðs vinar þó undir niðri hafi
mann nú grunað hvert stefndi.
Rósa og Sæmi voru meðal okkar
bestu og tryggustu vina sem við
höfum átt margar gleðistundir með
í gegnum árin.
Rósa var einstaklega ljúf og
skemmtileg kona, félagslynd og
mikil húsmóðir. Það var einkar
ánægjulegt að heimsækja þau hjón-
in því heimili þeirra bar glöggt vitni
um samheldni og snyrtimennsku
sem þeim var báðum í blóð borin.
Rósa var listfeng og smekkvís
sem víða má sjá stað í fallegum
hlutum sem hún gjarnan færði vin-
um sínum að gjöf.
Við höfðum þann sið að heim-
sækja hvort annað nokkrum sinn-
um á ári, borða saman og grípa í
spil, þá var oft glatt á hjalla og
augnagotur og leynimerki gefin í
spilamennskunni.
Þegar við heimsóttum Rósu fyrir
skömmu rifjuðum við upp spila-
kvöldin okkar og þá sagði hún glett-
in „Já, Magga mín, við svindluðum
nú stundum á köllunum“.
Eitt sinn þegar Rósa og Sæmi
heimsóttu okkur í sumarbústaðinn
á Þingvöllum slógum við því fram
hvort þau vildu ekki kaupa bústað á
svæðinu. Rósa taldi að nóg væri að
gera við að sjá um garðinn heima
en Sæmi var áhugasamari um þessa
hugmynd. Það er ekki að orðlengja
það að þau festu fljótlega kaup á
bústað sem þau hafa verið að gera
að sannkölluðum sælureit og varð
Rósa engu áhugaminni en Sæmi við
framkvæmdir og dvöl í sveitinni þar
sem þau hafa átt margar ánægju-
stundir síðustu árin.
Um leið og við þökkum Rósu vin-
áttu- og gleðistundir í gegnum tíð-
ina sendum við fjölskyldu hennar
okkar dýpstu samúðarkveðjur og
biðjum góðan Guð að styrkja þau á
erfiðum stundum.
Bjartur dagur, björtust nótt,
bregður yfir lífið skugga.
Rósa farin, farin hljótt
friður Guðs mun ykkur hugga.
(BJ.)
Margrét og Baldur.
Það var á sólríkum degi í lok maí
vorið 1966 sem danskt farþegaskip
sigldi út úr höfninni í Reykjavík.
Um borð voru tvær ungar Reykja-
víkurdömur á leið til Kaupmanna-
hafnar. Framundan var lífið sjálft,
ævintýrin biðu í stórborginni. Sjór-
inn var sléttur og veðrið dásamlegt.
Þannig var einnig vinátta okkur
Rósu vinkonu minnar sem ég kveð í
dag.
Í ferð okkar Rósu vorið 1966 og
sumardvölinni í stórborginni geng-
um við hönd í hönd og í vináttunni
fólst mikill styrkur. Á sjóleiðinni
var ég sú sjóveika en Rósa sá til
þess að ég fengi næringu og frískt
loft af og til. Í stórborginni var
Rósa sú sem rataði og vísaði veginn
þegar við höfðum hætt okkur út á
hálan ís og eftir hryllingsmynd í
kvikmyndahúsi var gott að kúra á
dýnunni sinni inni í herbergi Rósu
sem hafði stáltaugar og lét sér
hvergi bregða.
Fjörutíu árum síðar, vorið 2006,
fórum við Rósa í aðra ferð til sömu
borgar og rifjuðum upp góðar
stundir. Elliheimilið í Gentofte, þar
sem við unnum, var enn á sínum
stað en flest annað hafði breytt um
Rósa Halldórsdóttir
✝
Okkar ástkæra
MARGRÉT HELGA GÍSLADÓTTIR
frá Hornafirði,
Gullsmára 5,
Kópavogi,
sem lést sunnudaginn 28. júní, verður jarðsungin
frá Hafnarkirkju föstudaginn 3. júlí kl. 14.00.
Guðmundur Guðmundsson,
Gísli Eysteinn Aðalsteinsson, Jónína Aðalsteinsdóttir,
Siggerður Aðalsteinsdóttir, Ingólfur Ásgrímsson,
Aðalsteinn Aðalsteinsson, Elísabet Einarsdóttir,
Árni Guðjón Aðalsteinsson, Matthildur Kristmundsdóttir,
Ingi Már Aðalsteinsson, Kristrún Kjartansdóttir,
barnabörn og fjölskyldur.