Morgunblaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. ÁGÚST 2009 Allt frá hruni hefur sú skoðun verið útbreidd innan stjórnkerf- isins og Alþjóðagjaldeyrissjóðs- ins (AGS) að stór gjaldeyris- varaforði sé forsenda þess að unnt sé að afnema gjaldeyris- höftin og leyfa gengi krónunnar að ráðast á frjálsum markaði. Röksemdafærsla þeirra sem að- hyllast þessa skoðun er sú að ef höftunum er aflétt án þess að til reiðu sé stór forði sé veruleg hætta á því að gengið taki stóra dýfu án þess að Seðlabankinn geti brugðist við. Því er haldið fram að án verulegs forða sé engin „náttúrulegur botn“ til staðar og gengið gagn- vart evru geti farið í 300, 400, 500 eða jafnvel hærra og að afleiðingarnar geti verið efnahags- legt öngþveiti og óðaverðbólga. Ég tel að ofangreind röksemdafærsla sé ósannfærandi. Og nú þegar hillir undir stóru lánin sem styrkja eiga forðann veldur það áhyggjum að stefna stjórnvalda virðist að ein- hverju leyti byggjast á þessari röksemdafærslu. Fjármála- og peningamálastefna eru lykilatriði Stjórnvöld geta með skynsamlegri fjármála- og peningamálastefnu haft fullkomna stjórn á verðlagi til lengri tíma. Ef stjórnvöld marka stefnu um stöðugt verðlag til lengri tíma og standa við þá stefnu mun hrun á gengi krón- unnar við afnám hafta leiðréttast af sjálfu sér. Og væntingar um slíka leiðréttingu munu fram- kalla stærra og stærra hagnaðartækifæri fyrir þá sem vilja kaupa krónur þeim mun meira sem krónan fellur. Skynsamleg stefna – sem þó byggist ekki að neinu leyti á notkun forðans – ásamt venjulegum markaðsöflum mun þannig takmarka hrun krónunnar (mynda nátt- úrulegan botn) og lyfta henni aftur upp í eðlilegt gengi. Reynsla annarra landa – svo sem Suður- Kóreu og Taílands eftir Asíukrísuna – sýnir að slíkt ferli gengur oft hratt fyrir sig. Hin raunverulega hætta á öngþveiti og óða- verðbólgu er að stefna stjórnvalda samrýmist ekki stöðugu verðlagi. Mikilvægasti þáttur slíkrar stefnu er ábyrg stefna í ríkisfjármálum. Ég þekki ekki eitt einasta dæmi um óðaverð- bólgu sem orsakast af öðru en óstjórn í rík- isfjármálum. Það er ófrávíkjanlegt lögmál að á endanum þarf að greiða fyrir öll ríkisútgjöld annaðhvort með skatttekjum eða með peninga- prentun. Ríkisstjórnir sem greiða fyrir öll sín útgjöld með skatttekjum skapa ekki verðbólgu- þrýsting til lengri tíma. Ríkisstjórnir sem eyða umfram getu sína til þess að afla skatttekna framkalla á endanum alltaf verðbólgu. En ábyrg stefna í ríkisfjármálum er ekki það eina sem þarf til þess að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma. Einnig er nauðsynlegt að pen- ingamálastefna stjórnvalda samrýmist stöðugu verðlagi til lengri tíma. Verðbólgumarkmið eins og það hefur verið útfært af Seðlabanka Íslands (og fjölda annarra seðlabanka) undanfarin ár hefur því miður al- varlega galla hvað þetta varðar. Og svo virðist sem þessir gallar séu al- varlegri í litlu opnu hagkerfi eins og hagkerfi okkar Íslendinga en í stærri hagkerfum. Gallar verðbólgumarkmiðs Það gerist með reglulegu milli- bili að gengi krónunnar tekur dýfu. Þegar þetta gerist eykst verðbólga langt upp fyrir markmið Seðla- bankans. Til skamms tíma er lítið sem Seðlabankinn getur gert þegar slík „verðbólguskot“ eiga sér stað þar sem stjórntæki hans verka á hagkerfi með töluverðri töf. Samkvæmt verðbólgumarkmiðinu á Seðla- bankinn að bregðast við slíkri stöðu með því að koma verðbólgu aftur niður í 2,5% innan tveggja ára eða svo. Verðbólgumarkmiðið gengur þannig út á að verðbólga minnki aftur niður á fyrra stig. En verðbólgumarkmiðið tryggir ekki að verðlag lækki aftur niður á það stig sem það hefði verið á ef verðbólguskotið hefði ekki átt sér stað. Verðbólguskotið hækkar því vænt verðlag til lengri tíma. Mynd 1 sýnir dæmi um afleiðingar verð- bólguskots á verðbólgu og væntingar um verð- lag í framtíðinni. Á tíma 3 í dæminu á sér stað verðbólguskot. Dæmið gerir ráð fyrir því að Seðlabankanum takist að lækka verðbólgu strax aftur niður í 2,5%. En verðbólguskotið hefur varanleg áhrif á vænt verðlag. Þegar gjaldeyrishöftin eru afnumin er viðbú- ið að gengið taki dýfu og enn eitt verðbólguskot eigi sér stað. Við slíkar aðstæður skapar verð- bólgumarkmið Seðlabankans væntingar um að sú hækkun á verðlagi sem á sér stað í verð- bólguskotinu muni aldrei ganga til baka. Þetta þýðir að stór hluti af gengislækkuninni mun ekki heldur ganga til baka (þar sem gengið ræðst til lengri tíma af verðlagi). En þeim mun veikari sem væntingar um viðsnúning í genginu verða þeim mun minni verður eftirspurn eftir krónum. Verðbólgumarkmiðið getur því átt þátt í því að magna upp hrun gengisins með því að skapa vítahring væntinga sem rætast af sjálfu sér um lægra gengi og hærra verðlag. Gallinn við verðbólgumarkmið er að „það sem er búið og gert er búið og gert“ (e. bygones are bygones). Þegar Seðlabankinn missir verðlagið upp fyrir markmiðið reynir hann ekki að koma því aftur niður á sömu braut og það var á áður. Þetta er það sem skapar vítahringinn sem lýst er hér að ofan. Kostir verðlagsmarkmiðs Ein útfærsla peningamálastefnu sem tekur á þessum galla er svokallað verðLAGSmarkmið. Seðlabanki sem fylgir verðlagsmarkmiði bregst við verðbólguskoti með því að þrýsta verðbólgu niður fyrir meðaltalsverðbólgu þangað til verð- lag er aftur komið á sömu braut og það var á fyrir verðbólguskotið. Mynd 2 lýsir viðbrögðum seðlabanka sem fylgir verðlagsmarkmiði við verðbólguskoti. Í stað þess að lækka verðbólgu aftur niður í 2,5%, lækkar seðlabankinn verð- bólgu enn meira þar til verðlag er aftur komið á upphaflega braut. Núverandi aðstæður kalla á verðlagsmarkmið Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands hef- ur því miður ekki reynst vel. Frá því verðbólgu- markmiðinu var fyrst náð seint á árinu 2002 hef- ur verðlag hækkað um 37% umfram markmið Seðlabankans. Það sem meira er, verðbólgu- markmið hefur reynst verr á Íslandi en annars staðar. Ástæðuna tel ég vera áhrif þeirra verð- bógluskota sem fylgja dýfum í gengi krónunnar. Verðlagsmarkmið er mun betri stefna en verð- bólgumarkmið við íslenskar aðstæður. (Þess má geta að Seðlabanki Kanada hefur um nokkurt skeið verið að kanna að skipta út verðbólgu- markmiði fyrir verðlagsmarkmið.) Kostir verðlagsmarkmiðs fram yfir verð- bólgumarkmið eru sérstaklega mikilvægir þeg- ar gjaldeyrishöftunum er aflétt þar sem þá er mikil hætta á gengishruni og verðbólguskoti. Verðlagsmarkmið myndi hjálpa Seðlabank- anum að skapa væntingar um að lækkun á gengi krónunnar muni ganga til baka. Slíkar væntingar munu eins og fyrr segir skapa vænt- ingar um hagnað af því að kaupa krónur og þannig dempa sveiflur í gengi krónunnar. Ef Seðlabankanum tekst ekki að skapa slíkar væntingar gætu afleiðingarnar verið vítahring- ur lækkandi gengis með engan „náttúrulegan botn“ . Stærð gjaldeyrisvaraforðans skiptir litlu máli hvað þetta varðar. Það er raunar stórhættulegt að sú skoðun sé útbreidd innan stjórnkerfisins og AGS að stór gjaldeyrisvaraforði geti verið mikilvægt vopn í baráttunni gegn verðbólgu og gengishruni. Slíkur hugsunarháttur dreifir at- hygli manna frá því sem raunverulega skiptir máli. En þar að auki gæti sóun gjaldeyrisvaraforðans í óskynsamleg inngrip haft í för með sér að Seðlabankinn tapi tugum milljarða. Það myndi vitaskuld gera stjórnvöld- um enn erfiðara fyrir að komast hjá því að setja peningaprentvélarnar í gang. Forðann á ein- ungis að nota til þess að greiða fyrir nauðsynjar í neyð. Stór hluti af hruni krónunnar síðustu 18 mán- uði var nauðsynleg aðlögun vegna kreppunnar. Krónan gerði okkur kleift að framkalla „launa- lækkun án blóðsúthellinga“ og fyrir vikið hefur samkeppnisstaða íslenskrar vöru stórbatnað. Lönd eins og Lettland sem haldið hafa í fast- gengisstefnu eru mun verr sett en við hvað raunhagkerfið snertir. En áframhaldandi geng- ishrun og verðbólga hafa minna upp á sig og munu á endanum valda meiri skaða en gagni. Hefur Seðlabankinn nægilega sterkt pólitískt bakland? Peningamálastefna Seðlabankans undanfarin ár hefur verið gagnrýnd harðlega. Sú gagnrýni hefur nánast öll verið í þá veru að Seðlabankinn ætti að slaka á klónni. Tillaga mín um upptöku verðlagsmarkmiðs miðar þvert á móti að því að gera stefnu Seðlabankans enn strangari en hún hefur verið. Í mínum huga er stóra spurning- armerkið varðandi upptöku verðlagsmarkmiðs hvort Seðlabankinn hefur nægilega sterkt póli- tískt bakland til þess að standa við slíka stefnu. Með öðrum orðum munu almenningur og stjórnvöld svipta Seðlabankann sjálfstæði sínu – eða grafa undan trúverðugleika hans með sí- endurteknum kvörtunum og hótunum – ef hann reynir að gera það sem virkilega þarf til þess að skapa stöðugleika. Geta Seðlabankans til þess að skapa stöð- ugleika ræðst að stórum hluta af því hversu sannfærandi stjórnvöld eru í því að styðja áframhaldandi sjálfstæði hans. Ef Seðlabankinn getur ekki treyst á stjórnvöld þegar mest á reynir er ljóst að framundan er botnlaust geng- ishrun og verðbólga. Það er því til mikils að vinna að stjórnvöld skapi Seðlabankanum góða umgjörð og standi óhaggað á bak við óvinsælar aðgerðir hans þegar mest á reynir. Höftin, forðinn og hætta á óðaverðbólgu Eftir Jón Steinsson » Geta Seðlabankans til þess að skapa stöðugleika ræðst að stórum hluta af því hversu sannfærandi stjórnvöld eru í því að styðja áframhaldandi sjálfstæði hans. Jón Steinsson Höfundur er lektor í hagfræði við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum. 21 Þungbúið Skýjafarið var heldur drungalegt yfir þessum duglega manni við Höfðaborg en drunginn tónar ágætlega við hálftóman glerturninn sem sagt er að hvíni draugalega í þegar hvessir. Kristinn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.