Morgunblaðið - 26.09.2009, Blaðsíða 31
Minningar 31
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. SEPTEMBER 2009
✝ Valdimar Ein-arsson fæddist á
Siglufirði 5. ágúst
1991. Hann lést á
Freeman Hospital í
Newcastle í Eng-
landi 14. september
sl. Valdimar var
þriðji í röðinni af
fimm systkinum.
Foreldrar hans eru
Jóhannes Einar Guð-
mundsson, stýrimað-
ur og skipstjóri, f. í
Reykjavík 1959 og
uppalinn þar, sonur
Lovísu Jóhannesdóttur, f. 1936,
og Guðmundar Jónssonar, f. 1935,
d. 1998, og Sævör Þorvarð-
ardóttir, póstmeistari og hús-
móðir, f. í Grundarfirði 1964 og
uppalin þar, dóttir Ásdísar Valdi-
marsdóttur, f. 1933, og Þorvarðar
Lárussonar, f. 1938, d. 2001.
Systkini Valdimars eru Sævarður,
stærðfræðinemi í HR, f. 1986, Jó-
hannes Fannar, verkfræðinemi í
HÍ, f. 1989, unnusta Sigurlín Sum-
arliðadóttir, guðfræðinemi í HÍ,
Jón Þór, nemi í FSN,
f. 1993, og Snædís
Ólafía, f. 1995.
Fjölskyldan flutti
frá Reykjavík til
Siglufjarðar árið
1990 og bjó þar allt
til ársins 2005 að
hún flutti til Grund-
arfjarðar.
Valdimar var mik-
ill áhugamaður um
bíla og vinnuvélar
og undi sér aldrei
betur en við stjórn-
völinn á einhverju
ökutækinu, auk þess sem hann
var harður Liverpool-aðdáandi.
Langvarandi veikindi settu mark
sitt á hann og dvaldi Valdimar
síðustu vikurnar á sjúkrahúsi í
Newcastle þar sem hann und-
irgekkst aðgerð til að reyna að
vinna bug á veikindum sínum.
Valdimar verður jarðsunginn
frá Grundarfjarðarkirkju í dag,
26. september, og hefst athöfnin
klukkan 14.
Meira: mbl.is/minningar
Valdimar Einarsson fæddist 5.
ágúst 1991 á fæðingardeildinni á
Siglufirði. Þann dag hófst hans við-
burðaríka en stutta ævi.
Valdimar var alltaf mikill grallari
þegar hann var yngri, og það var oft
foreldrum okkar til mikils ama. Það
byrjaði strax þegar hann var rétt
byrjaður að geta labbað sjálfur, þá
gátu foreldrar okkar ekki litið af
honum, því þá var hann stunginn af á
vit ævintýranna niður í bæ og þurftu
foreldrar okkar oft að sækja barnið
sitt niður í búð, skömmustuleg á svip.
Kom þeim loks það snjallræði í hug
að binda drenginn í hundaband svo
hann slyppi ekki í burtu. Uppátæki
hans voru fleiri og tæki það heilt blað
að telja þau öll upp.
Fótbolti var eitt af aðaláhugamál-
um Valdimars og var hann harður
Liverpool-stuðningsmaður alla tíð og
studdi hann alltaf við bakið á sínum
mönnum. Hafði hann mikið gaman af
því að sjá gömlu kallana bölva yfir
leikjunum á Kaffi 59.
Þegar hann var 13 ára greindist
Valdimar með sjúkdóm og mótaði
sjúkdómurinn líf hans mikið. Hann
var oft lengi inni á spítala og var mik-
ið á flakki þar inn og út.
Barátta hans við sjúkdóminn tók
mikið á hann og fjölskyldu okkar.
En Valdimar var ákveðinn og
stefndi að betra lífi, en mottó hans
var „Betra líf eða ekkert líf“ og lifði
hann samkvæmt því. Hann ætlaði
sér að fara að lifa lífinu og fara að
vinna eins og venjulegur maður, en
ekki vera álitinn sjúklingur.
Í sumar hófst svo það sem allir
vonuðust til að yrði upphafið að hinu
nýja lífi. Beinmergsskiptunum fylgdi
vissulega áhætta, en það var til mik-
ils að vinna ef allt gengi vel, nefnilega
allt sem Valdimar hafði óskað sér.
Hetja hefur hann alltaf verið í okk-
ar augum, því mikið hugrekki þarf til
þess að ganga í gegnum þær raunir
sem herjuðu á hann. Það var samt
alltaf stutt í grínið og baneitraðar at-
hugasemdir þegar vel lá á honum.
Mikið af góðum minningum eigum
við um bróður okkar. Helst má nefna
Bandaríkjaferð fjölskyldunnar þar
sem við fjölskyldan fórum í Univer-
sal og Disney og skemmtum okkur
konunglega. Þá var hann mjög hress
og náði að njóta lífsins vel.
Valdimar var alltaf mikill vinnu-
þjarkur og vann alltaf eins þrekið
leyfði honum. Hann var búinn að ná
sér í bílpróf og eignast bíl sem hann
rúntaði mikið á. Hann var nefnilega
með ágætis bíladellu drengurinn.
Hann var meira að segja búinn að ná
sér í vinnuvélaréttindi og gerði meira
en margur hefði búist við af honum.
Valdimar lést hinn 14. september
á Newcastle Freeman Hospital, eftir
að hafa leitað betra lífs. Með miklum
söknuði kveðjum við bróður, hetju og
baráttumann og minnumst þeirra
góðu stunda sem við áttum saman.
You’ll Never Walk Alone.
Jóhannes og Sævarður.
Elsku Valdimar okkar,
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn,
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði er frá.
Nú héðan lík skal hefja,
ei hér má lengur tefja
í dauðans dimmum val.
Úr inni harms og hryggða
til helgra ljóssins byggða
far vel í Guðs þíns gleðisal.
(V. Briem)
Elsku Einar, Sævör og börn.
Guð gefi ykkur styrk á þessum
erfiðu stundum.
Þínar föðursystur,
Hulda, Þórunn og fjöldskyldur.
Ég á erfitt með að trúa því að þú
sért farinn frá okkur, þetta er búin
að vera erfið barátta í langan tíma og
þú sýndir okkur svo sannarlega að
þó að það gangi ekki alltaf allt upp þá
á maður alltaf að líta á björtu hlið-
arnar, berjast og sigrast á því sem
fyrir mann kemur. Ég er svo stolt af
þér, ég er stolt af því að hafa fengið
að kynnast þér og ég er svo stolt af
fjölskyldunni þinni. Það eru ekki allir
sem hafa þennan ótrúlega kraft til að
geta gengið í gegnum þann feril sem
þið hafið þurft að ganga í gegnum
saman, og alltaf jafn jákvæð og lituð
á hvert áfall sem verkefni sem þyrfti
að leysa og þið fóruð létt með það.
Þú hélst allan tímann í vonina og
varst alltaf svo glaður og alltaf með
húmorinn í lagi, það vantaði ekki.
Þrátt fyrir þína hetjulegu baráttu
fyrir betri heilsu tókst það ekki, en
þú ert kominn á annan stað og vona
ég að þér líði betur.
Þegar ég byrja að hugsa um minn-
ingarnar okkar saman þá kemur
Danmerkurferðin okkar frænd-
systkinanna fyrst í hugann, þú varst
nú kominn með nóg af verslunaræð-
inu og ljóskuskapnum í okkur frænk-
unum. Og hvað okkur fannst gaman
á vespunni og í ferðinni okkar í
skemmtigarðinn. Þetta eru minning-
ar sem ég mun aldrei gleyma.
Minning um góðan og baráttuglað-
an frænda lifir, þú ert sannkölluð
hetja í mínum augum og þín verður
sárt saknað.
Hafdís Dröfn.
Elsku Valdimar.
Sofðu, engill, sofðu, því nú er
komin nótt,
sjálfsagt eru fleiri sem sofa
einnig rótt.
Ekki fæ ég skilið hvað ræður öllu hér
og ekki heldur hvers vegna var sótt,
einmitt að þér.
Sofðu engill sofðu, við biðjum fyrir þér
svo drottins höndin leiði þig hvar
sem hann er
Við varðveitum með lotningu
minninguna um þig
er vörðuð verður leið þín upp á
æðra stig.
Sofðu, engill, sofðu, við þökkum
auðmjúk þér
sem gafst okkur svo mikið í jarðvist
þinni hér.
Við eigum bara erfitt með að sætta
okkur við það
að þú sért tekin burtu og flutt á
annan stað.
Sofðu, engill, sofðu, og hvíldu þig rótt
svona fagrir englar eiga af ástríki
gnótt.
Þeir bera okkur gleði, bjartsýni og von
eins og Drottinn forðum er hann
sendi eigin son.
Sofðu, ljúfasti, kæri, ég hugsa hlýtt
og bið
þá veit ég, þú ert kominn og ert við
mína hlið.
Ég trúi að allir þarna geti litið við
um stund
og átt með sínum ástvinum ljúfan
endurfund.
Sofðu bara engill og lúrðu undir sæng
megi Drottinn geyma þig undir
hlýjum væng.
Við hittumst bara aftur þegar húmar
aftur að
og Drottinn vill fá fleiri á þennan
ljúfa stað.
(Þorbjörg Gísladóttir)
Guðmundur Þór og Bryndís Erla.
Má ég setjast hjá þér? var ég
spurður fyrir nokkrum árum er ég
sat uppi á Kaffi 59 og var að horfa á
leik í ensku knattspyrnunni. Það var
Valdimar sem spurði, en hann kom
alltaf þegar hann gat til að fylgjast
með enska boltanum og þá sérstak-
lega sínum mönnum í Liverpool. Eft-
ir þetta sátum við oft saman og
fylgdumst með leikjunum og og
ræddum saman, en hann var ótrú-
lega fróður um liðin og leikmenn. Og
var það ekki ónýtt fyrir okkur fé-
lagana sem mættum til að horfa á
leiki að hafa Valdimar og geta spurt
hann um þennan og hinn leikmann-
inn sem við vissum ekkert um því
alltaf gat hann frætt okkur af sinni
einstöku hógværð og kurteisi. En nú
hefur dómarinn sem öllu ræður kall-
að Valdimar af velli alltof snemma,
en eins og í knattspyrnunni er það
dómarinn sem ræður þótt við séum
ekki alltaf sátt við það. Við félagarnir
sem höfðum þá ánægju að kynnast
Valdimar kveðjum góðan dreng sem
tekinn var út af svo til í byrjun leiks
og erum vissir um að hann sé núna
klæddur í sína rauðu Liverpool-
treyju og farinn að láta til sín taka
hjá þeim sem öllu ræður.
Að endingu viljum við senda for-
eldrum, systkinum og öllum aðstand-
endum okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
F.h. fótboltastrákanna á Kaffi 59,
Guðmundur Gíslason.
Kveðja.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
:,:veki þig með sól að morgni:,:
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
:,:vekja hann með sól að morgni:,:
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
svefnsins draumar koma fljótt.
:,:Svo vöknum við með sól að morgni:,:
(Bubbi Morthens)
Hvíldu í friði elsku Valdimar og
guð geymi þig.
Elsku Sævör, Einar og börn, megi
guð styrkja ykkur í þessari erfiðu
sorg.
Sigurður Ólafur, Sjöfn og börn.
Það var ekki skemmtilegt símtal
sem við fengum mánudaginn 14.
september þegar okkur var tilkynnt
að hann Valdi væri orðinn mjög al-
varlega veikur og líkurnar á að hann
mundi lifa þetta af væru ekki miklar.
Erfiðir tímar voru framundan og síð-
ar um daginn kom símtalið um að
hann væri dáinn.
Til margra ára höfum við fjöl-
skyldan fylgst með Valda og hann
átti athvarf á heimili okkar þegar
hann fékk útivistarleyfi frá spítala-
vist sinni.
Okkur fannst alltaf gott að fá sím-
tal frá honum eða mömmu hans og fá
að heyra orðin „ég er svangur og
langar í eitthvað gott að borða“. Þá
vissum við að kallinn var að hressast
og stukkum til og að sjálfsögðu var
eldað eftir hans pöntun.
Það var ótrúlegt að fylgjast með
hvað þið fjölskyldan sýnduð mikinn
styrk og lituð alltaf á hverja spítala-
ferð sem verkefni sem þyrfti að
leysa.
Við munum sakna Valda og geyma
minningar og hans skemmtilega
húmor í brjósti okkar.
Sendum fjölskyldu hans okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Jóna Fanney, Þorsteinn,
Tekla og Saga Líf.
Í hjarta okkar er mikil sorg því í
dag kveðjum við jafnaldra okkar og
skólabróður, Valdimar eða Valda
eins við stundum kölluðum hann
okkar á milli. Hve ósamgjarnt það er
og okkur mikil ráðgáta að svona ung-
ur maður skuli vera tekinn burt úr
þessum heimi eftir svo skamma við-
dvöl sem raun er, en þegar illvígir
sjúkdómar ráðast á líkamann verður
stundum eitthvað undan að láta. Í
þeirri dapurlegu staðreynd huggum
við okkur við að hann er laus við allar
þjáningar, kominn á góðan stað þar
sem hans hefur örugglega verið þörf.
Valdimar var alltaf svo rólegur og
góður. Ljóminn í bekknum með stórt
hjarta, bros út í annað og vildi öllum
vel. Hann var líka bráðskemmtilegur
og aldrei með neina stæla við okkur
stelpurnar enda vildum við alltaf fá
að dansa við hann í danstímum.
Hann var svona strákur sem allir
vildu eiga sem vin.
Valdimar flutti til Grundarfjarðar
og hittumst við sjaldnar eftir það en
þó kom hann reglulega til Siglufjarð-
ar og svo áttum við samskipti við
hann í tölvunni. Öll fylgdumst við
með veikindum hans og í okkar aug-
um var hann algjör hetja. Skarð
Valdimars verður ekki fyllt og verð-
ur hans sárt saknað. Minning hans
mun lifa í hjörtum okkar um ókomna
tíð, björt og hrein.
Viljum við að endingu votta fjöl-
skyldu Valdimars okkar dýpstu
samúð og vitna í ljóð Steins Steinars
með von um að boðskapur þess
megni að lina örlítið hinn mikla sárs-
auka ástvina hans. En þar segir:
Svo dreymdi okkur drauminn um
ljósið
eina nótt, þegar myrkrið var þyngra
og svartara
en nokkurt sinn áður
Það var eitthvað,
sem streymdi og rann
með sælutitrandi sársauka
gegn um sál okkar.
Og augu okkar störðu
sturluð og undrandi
á fölleitan glampa,
sem flökti um sviðið
í óra fjarlægð.
Og einn okkar spurði
í feiminni ákefð:
Hvað er það?
Og annar svaraði
fagnandi rómi:
Ljósið, ljósið!
Fyrir hönd árgangs 1991
á Siglufirði
Erla Gunnlaugsdóttir.
Valdimar Einarsson, vinur okkar,
er fallinn frá eftir hetjulega baráttu
við erfið veikindi. Við vorum svo lán-
söm að kynnast honum þegar hann
flutti til Grundarfjarðar frá Siglu-
firði og hóf skólagöngu í Grunnskóla
Grundarfjarðar. Valdimar var prúð-
ur, hægur og þægilegur í allri fram-
komu og hafði góða nærveru. Hann
fylgdist vel með í tímum eftir því
sem heilsan leyfði og var góður
námsmaður.
Þegar hann byrjaði í skólanum
virtist hann falla strax vel inn í hóp-
inn og var vel liðinn af skólafélögum
sínum. Hann var fremur fámáll en
það var alltaf stutt í húmorinn hjá
honum og í fallega, hlýja brosið. Það
kom svo skemmtilegur kímnis-
glampi í augun þegar hann laumaði
út úr sér skondnum athugasemdum.
Þrátt fyrir veikindi Valdimars og
töluverða fjarveru frá skóla var hann
alltaf jákvæður og bjartsýnn og
kvartaði aldrei. Hann gaf mikið af
sér þrátt fyrir ró sína og hlédrægni
og það var aðdáunarvert að sjá
hvernig Valdimar tók veikindum sín-
um af æðruleysi og var sterkur þrátt
fyrir öll áföllin sem dundu yfir vegna
þeirra.
Það gladdi okkur mjög að sjá
Valdimar keyra um bæinn nýkominn
með bílpróf, heilsandi þeim sem urðu
á vegi hans. Hann heimsótti vinnu-
staði, hjálpaði til og hafði greinilega
gaman af að stússast í einhverri
vinnu eftir því sem hann treysti sér
til. Nú í sumar þeysti hann um á
Grænu hættunni og sló tún, okkur
og öðrum til ánægju. Alltaf héldum
við í vonina um að Valdimar væri að
hressast og myndi hrista þessi veik-
indi af sér en því miður varð hann að
lúta í lægra haldi.
Við vottum fjölskyldu og aðstand-
endum Valdimars okkar dýpstu
samúð en aðdáunarvert er hve sterk
og heilsteypt hún hefur verið í þeim
erfiðu veikindum sem hún hefur
þurft að glíma við. Minningin um
Valdimar lifir í hugum okkar, ljóslif-
andi mynd af dreng með kímið bros
og glettnisblik í auga.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
svefnsins draumar koma fljótt.
Svo vöknum við með sól að morgni
svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Fyrir hönd starfsfólks
Grunnskóla Grundarfjarðar,
Anna Bergsdóttir, skólastjóri.
Valdimar Einarsson
Sofðu, unga ástin mín,
– úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um
dimmar nætur.
Það er margt sem myrkrið veit,
– minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar
sprungur.
Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun bezt að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa,
gráta
og sakna.
(Jóhann Sigurjónsson)
Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga
tárin eru beggja orð.
(Ólöf Sigurðardóttir
frá Hlöðum)
Þín elskandi amma,
Lovísa.
HINSTA KVEÐJA