Saga - 1973, Qupperneq 32
28
ÓLAFUR ODDSSON
um þetta eru ekki aðrar heimildir. Að morgni næsta dags,
hins 23. maí 1849, var haldið af stað í átt til Möðruvalla.
Allt fólk kom út á bæjum, þar sem þeir fóru um, og horfði
á þá.
Nú mun sagt frá „heimsókninni“ til Friðriksgáfu, bústað-
ar amtmanns, og þá fyrst frá sjónarhóli Norðurreiðar-
manna. Er menn komu að túninu á Möðruvöllum, var stigið
af baki og menn settir til að gæta hestanna í laut einni.
Síðan gengu þeir í röð, hver á eftir öðrum, til þess að
traðka túnið eigi meir en nauðsyn bar til. Þeir röðuðu
sér kringum húsið, utan við grindur kringum það, hver
við hliðina á öðrum. Samkvæmt framburði Jóns Árna-
sonar í Flugumýrarhvammi var það gert í þeim tilgangi,
að aðeins einn maður yrði fyrir skoti, ef amtmaður yrði
svo reiður, að hann skyti af byssu á þá. Norðurreiðarmenn
báðu því næst um að fá að finna amtmann. Skrifari hans,
Jóhann Guðmundsson, kom út með þau skilaboð frá amt-
manni, að hann biðji tvo eða þrjá af fyrirliðum flokksins
að koma inn. Þeir svara því þá til, að hér sé enginn fyrir
öðrum, heldur ráði „alþýðu vilji“ ferðinni.
Þeir biðu stundarkorn, og sáu þá einhverjir þeirra amt-
mann gegnum glugga. Var hann snöggklæddur og studdi
höndum fram á borð og horfði á þá. Hugsa þeir þá, „að
hjer bregði til vanans, að allir eigi ekki svo greitt með að
ná fundi hans, sem að garði koma“. Þá las einn Norður-
reiðarmanna orðsendinguna til Gríms amtmanns af seðl-
um þeim, er Gísli Konráðsson skrifaði á Vallalaugarfundi.
Síðan voru þeir festir upp, einn á hverju horni grind-
verksins. Því næst gengu Norðurreiðarmenn burt, eins
og þeir komu, sá fyrstur, er síðastur hafði gengið, og sá
síðastur, er fyrstur hafði gengið. Þá hrópaði „raddmaður"
einn, e. t. v. Halldór Magnússon: „Lifi þjóðfrelsið! Lifi
félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!“ Nokkrir
tóku undir með honum.
Þegar þeir voru komnir spölkorn á veg, kom amtmaður
út og kallaði til þeirra að snúa aftur, en þeir urðu ásáttir