Saga - 1973, Page 104
100
ARNÓR SIGURJÓNSSON
þeim oft tækifæri til góðra jarðakaupa. Þegar við lok 12.
aldar höfðu komið hér upp auðugar og voldugar höfðingja-
ættir, er réðu yfir ríkum kirkjustöðum og þá um leið beztu
jörðum héraðanna. Þessi þróun raskaðist nokkuð í ófriði
Sturlungaaldar, en er þeim ófriði lauk, hélt hún áfram í
líku horfi og reis hvað hæst á 15. öld. Það reisti enn
kambinn á þessari öldu eftir að landið gekk norska kon-
ungsvaldinu á hönd, að konungur fól oftast ríkustu stór-
bændunum innheimtu skatttekna sinna af landinu, sýslu-
völd og yfirstjórn embættislýðs síns, hirðarinnar, eins og
það var kallað.
Á Vestfjörðum hafði undir lok þjóðveldistímans aðallega
gætt tveggja ætta, er skiptu með sér auði og völdum, og
börðust um auðinn og völdin, Seldæla um sunnanverða
Vestfjörðu og Vatnsfirðinga við Djúp. Báðar þessar
ættir guldu mikið afhroð í ófriði Sturlungaaldarinnar,
er fyrirferðarmestu og sögufrægustu forystumenn þeirra,
Hrafn Sveinbjörnsson á Eyri og Þorvaldur Snorrason í
Vatnsfirði voru teknir af lífi eða brenndir inni og synir
þeirra höggnir niður á vígaslóðum. En við lok Sturlunga-
aldar voru báðar þessar ættir að rísa aftur á legg. Sel-
dælir urðu þar fyrri til. Dóttursonur Hrafns Sveinbjarnar-
sonar, Hrafn Oddsson, varð aðsópsmesti foringi leikra
manna hér á landi á fyrstu áratugum konungsveldisins.
Hans niðjar koma einnig mjög við sögu á 14. öld, en ekki
fyrst og fremst í heimahögum ættarinnar, heldur aðal-
lega á Norðurlandi (Jón korpur, Glaumbæjar-Hrafn Jóns-
son, Hrafn Bótólfsson). Á höfuðbólum ættarinnar gætti
meira annarra manna af ættinni.
Við lok 14. aldar var auðugastur og fyrirferðarmestur
maður þeirra Seldæla á ættarstöðvum Þórður á Núpi, sonur
Sigmundar á Hrafnseyri Hrafnssonar. Kona Þórðar var
Solveig Svartsdóttir frá Reykhólum, og þóttu Reykhólar
alltaf mikið höfuðból, þó að veldi þeirra Reykhólamanna
hefði verið nbkkuð slitrótt. Um Þórð Sigmundsson urðu
þær frásagnir mestar, að hann komst í harðar deilur við