Saga - 1973, Page 132
128
ÞORLEIFUR ÞORLEIFSSON
in út að Granda“, en verður nefnd hér VESTURÁLMAN.
Kaflinn var fullgerður þann 17. apríl og vígður með nokk-
urri viðhöfn. Bæjarstjórnarmönnum og öðrum gestum var
boðið í ökuferð um brautina þennan dag. Tveir vagnar
voru tengdir aftan í eimreiðina MIN0R, og sátu helztu
gestirnir á bekkjum í fremri vagninum, en ýmsir starfs-
menn og aðrir stóðu á aftari vagninum. Sá, er stjórnaði
eimreiðinni hét Svendsen, en honum til aðstoðar var Páll
Ásmundsson. Þennan dag átti Páll afmæli, varð þá 19 ára.
Við Sauðagerði nam lestin staðar, og Árni Thorsteinsson
ljósmyndari tók mynd af eimreið og vögnum. Ferð þessa
má kalla fyrstu farþegaflutninga á járnbraut hér á landi,
og daginn mætti raunar telja afmælisdag járnbrautarinnar
í Reykjavík.
Vesturálma Járnbrautarinnar lá víða um jarðir og
beitilönd, og gripir voru oft á reiki um svæðið, einkum kýr.
Skepnum gat stafað hætta af umferð lestanna, og var sú
kvöð lögð á herðar verktaka að girða brautina beggja
vegna, eða einangra með gaddavírsgirðingu.
Verkfall við brautarlagningu.
Lengingu brautarinnar var haldið áfram af kappi frá
öskjuhlíðinni í norður, áleiðis til sjávar. En skömmu eftir
vígsludaginn 17. apríl skall á fyrsta verkfall daglauna-
manna í Reykjavík. Verkamenn við brautarlagninguna
unnu 12 stundir á dag. Samkvæmt samningum Dagsbrúnar
og atvinnurelcenda í Reykjavík skyldi dagvinna miðast
við 9 stundir, en vinnu þar umfram bæri að greiða með
yfirvinnuálagi, kr. 0.35 á klukkustund. Kirk hélt því til
streitu, að eingöngu væri greitt dagvinnukaup, kr. 0.30
á klst. allan vinnutímann. Þessu vildu verkamenn ekki una,
og stóðu í stappi, þar til Dagsbrún ákvað, að vinna skyldi
lögð niður við járnbrautina. Verkfallið stóð í viku og lauk
þann 28. apríl með fullum sigri verkamanna.