Saga - 1973, Page 191
Sagnfræðirannsóknir — Studia historica. Sagnfræðistofn-
un Háskóla íslands. Ritstjóri: Þórhallur Vilmundarson.
I. bindi. Gunnar Karlsson: FRÁ ENDURSKOÐUN TIL
VALTÝSKU. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík 1972.
Bls. vi + 167.
Hætt er við að sá merkisviðburður hafi fram hjá mörgum farið,
að komin er á fót sagnfræðistofnun við Háskóla íslands. Ekki er
hún ennþá öflug orðin, en vel mætti það verða góðs viti, að út
er komin fyrsta bókin á vegum stofnunar þessarar, upphafið á
ritröð, þar sem „er ætlunin að birta prófritgerðir frá Háskóla
Islands, sem höfundar hafa endurskoðað að loknu prófi, sagnfræði-
rannsóknir, sem unnið hefur verið að á vegum Sagnfræðistofnunar,
svo og aðrar sagnfræðiritgerðir, sem sérstök ástæða þykir til að
birta“. (Þórhallur Vilmundarson í Inngangsorðum ritstjóra, bls. v).
Þeir sem þekkja próf. Þórhall munu á einu máli um, að ekki
hefur hann látið kylfu ráða kasti, er hann valdi fyrsta ritið í röðinni.
Er og sanni næst, að Gunnar Karlsson hefur þegar sýnt, að frá
hans hendi má vænta vandaðra athugana og rannsókna í sagnfræði-
legum efnum.
f formála segir höfundur ritgerð sína unna upp úr „Athugun á
sögu stjórnarskrármálsins milli endurskoðunar og valtýsku“. M. ö. o.
er hér fjallað um stuttan þátt í sögu, sem á síðari árum hefur
dregið að sér sívaxandi athygli og vakið áhuga fleiri og fleiri manna,
sem um sögu hugsa og lesa. Kunnastir þeirra höfunda, sem um þetta
tímabil hafa skrifað siðustu áratugina, eru Þorsteinn Gíslason,
Björn Karel Þórólfsson, Kristján Albertsson, Odd Didriksen, Þor-
steinn Thorarensen og Jón Guðnason. Og nú hefur Gunnar Karlsson
slegizt í þennan hóp.
Gunnar hefur víða leitað fanga, og tekur hann þó réttilega fram,
að ekki sé könnun hans tæmandi. Ófáar upplýsingar hefur hann
þó dregið fram úr dyngjum, sem til skamms tíma hafa lítt hreyfðar
legið. Er naumast að efa, að enn kunna hnýsnir menn, fundvísir eða
heppnir, að finna þar sitthvað, sem á óvart kynni að koma eða
gæti jafnvel haggað viðteknum skoðunum.