Saga - 1973, Blaðsíða 192
180
RITFREGNIR
Efnisskipan ritgerðarinnar og uppsetning öll ber það með sér,
að hér hefur upphaflega verið til prófs unnið. Fylgja slíku bæði
kostir og gallar, þótt tæplega muni allir þar á eitt sáttir. Meðal
kostanna mætti nefna, að fátt er svo fullyrt, að ekki sé það sannað
eða stutt svo sterkum rökum sem mest má verða. Annað mál er svo,
að oft er þá óþarflega miklu púðri í það eytt að sanna ýmislegt, sem
sáralitlu máli virðist skipta.
Þeir sem vel eru kunnugir stjórnmálasögu landshöfðingjatímabils-
ins hljóta að hafa af bók þessari bæði gagn og ánægju. Allt er þar
hæpnara um hina, sem ef til vill hugkvæmdist að byrja á að bæta
úr vanþekkingu sinni með lestri þessa rits. Liggur við að líku máli
gegni orðið um tímabilið 1874—1918 (landshöfðingja- og heimastjórn-
artímabil) og Sturlungaöld, — annaðhvort vita menn allt um sögu
þess eða sem næst ekkert.
Óhætt er að fullyrða, að Gunnari Karlssyni gengur eins vel að
skýra þróun mála á umræddu milliskeiði benedizkrar endurskoðunar
og valtýskrar miðlunar og framast má verða. Er þó full vist, að
eftir sem áður greini menn á um eitt og annað i þessu sambandi.
En vefjast mundi fyrir mönnum í flestum tilvikum að sanna hið
gagnstæða því, sem Gunnar heldur fram hverju sinni eða sýna fram
á, að hann fari villur vegar.
Eitt er það, sem ekki má undanfella að drepa á í frétt um bók
þessa, en það er nýstárlegur frágangur hennar. Þetta er pappirs-
kilja i allstóru broti, offsetprentuð eftir vélrituðu handriti. Er von-
andi að auðvelt megi reynast að bæta hér úr ýmsum augljósum
ágöllum, svo sem óþægilega smáu og ógreinilegu letri. Hér er nefni-
lega upp á nýbreytni fitjað, sem stefnir að þvi að draga úr kostnaði.
Má segja, að oft var þörf, en nú er nauðsyn, því að bækur gerast
óhugnanlega dýrar.
B. J.
Bergsteinn Jónsson: Tryggrvi Gunnarsson. m. bindl.
Stjórnmálamaður. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykja-
vik 1972.
Eins og kunnugt er, byrjaði Þorkell Jóhannesson að rita ævisögu
Tryggva Gunnarssonar; fyrsta bindið kom út árið 1955. Þorkell féll
síðan frá, áður en meira kom út af ritinu. Þá tók Bergsteinn Jónsson
upp þráðinn, og annað bindið kom út árið 1965 eftir Þorkel og
Bergstein sameiginlega. Þriðja bindið, sem hér er til umræðu, er
því hið fyrsta, sem Bergsteinn hefur staðið einn að. Ekki hefur
verið birt nein áætlun um, hve langt ritið eigi að verða. Varla