Saga - 1986, Page 24
22
GÍSLI ÁGÚST GUNNLAUGSSON
b) Löggjöf um atvinnustéttir, húsaga og bann við giftingu öreiga.
Félagsmála- og atvinnustéttalöggjöf á íslandi miðaðist við þarfir
búnaðarsamfélagsins allt fram til loka 19. aldar. í löggjöfinni fólst
viðleitni til að verja bændasamfélagið gegn umferð umkomu-
lausra fátæklinga, koma í veg fyrir búhokur efnasnauðs fólks,
tryggja bændum nægjanlegt framboð á ódýru vinnuafli, sporna
gegn félagslegri upplausn og varðveita ríkjandi þjóðfélagsgerð.10
Um miðja 18. öld var sett tilskipun um húsagann á íslandi, sem
lögbatt ættföðurlegt („patríarkískt") vald húsbænda yfir heimilis-
mönnum sínum og setti strangar reglur um uppeldi og aga á
börnum, hlýðni og vinnusemi hjúa.11 Þegar í lok miðalda var
reynt að takmarka búðsetu með lögum og á síðari hluta 19. aldar
voru sett lög um þurrabúðarmenn, sem kváðu á um að fólk yrði
að hafa ákveðin efni (400 krónur og algengustu búsmuni) og fá
útmælda lóð af tiltekinni stærð til að mega setjast að sem tómthús-
menn við sjávarsíðuna.12 Lög voru einnig sett um lausamenn og
húsmenn árið 1863, sem kváðu á um hverjir gátu keypt sig undan
þeirri skyldu að ráða sig í ársvistir hjá bændum og með hvaða skil-
yrðum.13 Fólk varð þá að sækja sérstaklega um það til sveitar-
stjórna að mega dveljast innan takmarka sveitarfélaga þeirra í
stöðu þurrabúðar-, hús- eða lausamanna. Reyndu sveitarstjórnir
þá að meta líkindi þess að viðkomandi gætu framfleytt sér og
sínum með þessum hætti og ættu ekki á hættu að þurfa að leita á
náðir sveitarsjóðs með framfæri sitt. Yfirleitt voru sveitarstjórnir
mjög varfærnar í afgreiðslu slíkra umsókna. Þess var og vandlega
gætt af sveitarstjórnum að efnalítið fólk næði ekki að vinna sér
sveitfesti í hreppum utan framfærslusveita sinna, þættu líkindi
benda til að það yrði þar bjargþrota og yrði að framfærast af
fátækrafé viðkomandi sveitarfélags. Frá 1848 og fram á þessa öld
þurfti 10 ára samfellda dvöl í hreppi til að öðlast þar framfærslu-
rétt. Fylgdust hreppstjórnir því vandlega með aðkomufólki og
vísuðu því iðulega á framfærslusveitir sínar.14
10. Þetta atriði hef ég rætt nánar í bók minni Ómagar og utangarðsfólk. Fátœkramál
Reykjavíkur 1786-1907, Rvík 1982, bls. 160-161.
11. Alþingisbœkur íslands XIII, Rvík 1973, bls. 563-577.
12. Stjórnartíðindi 1888, A, bls. 2-5.
13. Lovsamlingfor Island XVIII, Kh. 1880, bls. 549-553.
14. Sjá um þetta atriði fyrrgreint rit mitt Ómagar og utangarðsfólk.